Hjörleifur Guttormsson 31. mars 2022

Evrópa á krossgötum í kjölfar Úkraínustríðsins

Þegar þetta er ritað 23. mars er um mánuður liðinn frá því Rússar réðust með herafla inn í Úkraínu. Sókn þeirra hefur miðað hægar en flestir bjuggust við og mótstaða heimamanna reynst mikil, þótt þeir hafi orðið að láta undan síga. Andstaðan við rússneska innrásarliðið m.a. í borgunum Mariupol og Kharkiv hefur reynst öflug, en líka kostað miklar fórnir og þjáningar. Höfuðborgin Kiev er að vísu umkringd en þó enn á valdi heimamanna. Selensky forseti hefur reynst harður af sér og náð eyrum heimsbyggðarinnar með daglegum sjónvarpsræðum sínum. Lengi verður eflaust minnst ávarps hans til þýska þingsins Bundestag þann 17. mars sl. Ákall hans um beina hernaðaraðstoð vestan að hefur hingað til borið takmarkaðan árangur, enda ætti NATÓ sem öðrum að vera ljóst að það myndi fyrr en varir leiða til stórstyrjaldar. Áþreifingar bak við tjöldin um samninga milli stríðsaðila snúast um að Úkraínumenn láti undan meginkröfum Rússa um að útiloka aðild Úkraínu að NATÓ og að þeir gefi eftir austurhéruðin sem liggja að Rússlandi og fallist á varanleg yfirráð Rússa á Krímskaga .

Sýn Ólafs Ragnars

Viðtal Ólafs Ragnars fyrrum forseta við Egil Helgason í Silfrinu þann 19. mars sl. hefur eðlilega vakið mikla athygli. Þekking Ólafs, alþjóðleg sýn og reynsla skapa honum ótvírætt mikla sérstöðu. Í viðtalinu dró hann fram ábyrgð Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu á stöðu og þróun mála í Rússlandi og Úkraínu síðustu áratugi, sem leitt hafi til gagnkvæmrar tortryggni og núverandi stöðu með innrás Rússa á grannríkið. Fyrst og fremst sé um að kenna stækkun NATÓ í austur, þvert á ráðleggingar manna eins og George Kennan, Brent Snowcroft og síðast en ekki síst Henry Kissingers fyrir átta árum. Bæði ESB og NATÓ hafi undanfarið gefið Úkraínu fyrirheit um að geta gengið í þessi samtök, sem Selensky forseti gagnrýni þau nú ítrekað fyrir að standa ekki við. Þarna hafi verið um gylliboð að ræða sem ekki stóð til að efna. – Ólafur benti jafnframt á að viðskiptaþvinganir Vesturlanda gagnvart Rússlandi hafi engu skilað og Rússar hafi ótal valkosti aðra, enda gnótt af olíu, jarðgasi og málmum úr að spila. Rússland væri land án lýðræðishefða og ráðamönnum þar fyndist sem verið væri að loka þá af í byrgi, einkum undanfarin 5-6 ár. Mynd okkar af Rússlandi sé ekki rétt, m.a. sé Pútín hvorki bilaður né á útleið. Einnig nefndi Ólafur að Rússland sé langstærsta Norðurskautslandið og tvísýnt sé að hundsa nú fundi Norðurskautsráðsins af því Rússar fari þar með formennsku. Aðspurður í lokin taldi Ólafur Ragnar að hernaðarleg þýðing Íslands fyrir NATÓ hafi síður en svo vaxið við atburðina í Austur-Evrópu og Evrópusambandið verði augljóslega ekki valkostur fyrir Ísland í öryggismálum.

Gífurlegur straumur flóttamanna

Fjöldi flóttamanna frá Úkraínu vestur á bóginn er nú talinn nálgast fjórar milljónir manna, að meirihluta til konur og börn, og annar eins fjöldi hefur yfirgefið heimili sín þar innanlands. Þeir sem gerst þekkja til, eins og austurríkismaðurinn Gerald Knaus (f. 1970), reikna með langtum hærri tölu flóttamanna ef stríðið dregst á langinn. Hvað verður um þennan fjölda sem nú þegar veldur stórfelldum vandkvæðum, ekki síst í Póllandi? Talað er um að búa þurfi til sérstaka farvegi, m.a. loftflutninga, til að dreifa fólkinu. Í Danmörku er nú rætt um að gera þurfi ráð fyrir allt að 100 þúsund flóttamönnum þangað. Vandamálin sem þetta skapar eru af áður óþekktri stærð. Snýr þessi fjöldi heim á leið ef semst um frið, eða sest hann að í Vestur-Evrópu? – Afleiðingarnar fyrir innflytjendastefnu ESB og Schengen samkomulagið eru síðan óráðin gáta til lengri tíma litið.

Endurhervæðing Þýskalands

Hvergi hefur innrás Rússa í Úkraínu leitt til augljósari stefnubreytingar en í Þýskalandi, þar sem ríkisstjórn Olafs Scholz ákvað að heimila 100 milljóna evra sérframlag til þýska hersins og hækkun hernaðarútgjalda í 2% af vergri þjóðarframleiðslu. Fram til þessa hafa hernaðarútgjöld Þjóðverja verið langt undir þeim mörkum og Bandaríkin lengi krafist hækkunar þeirra. Þessi stefnubreyting hefur nú hlotið breiðan stuðning í þýska þinginu og að opnað verði fyrir vopnasendingar til Úkraínuhers. Stærst er stefnubreytingin fyrir Græningja og utanríkisráðherrann Annalena Bärbock úr þeirra röðum. – Efasemdir eru þó miklar meðal þýsks almennings, eins og birtist nú nýverið í ákalli meira en 600 þekktra einstaklinga, m.a. úr röðum stjórnmálamanna, kirkjuleiðtoga, vísindamanna og atvinnurekenda. Allir fordæma þeir hinir sömu innrás Rússa en telja hervæðingu Þýskalands röng viðbrögð, sem m.a. hjálpi í engu almenningi í Úkraínu. – En það er víðar en í Þýskalandi sem reglur á hernaðarsviði eru til endurskoðunar. Danmörk hefur fram til þessa staðið utan við þau svið í Evrópusambandinu sem snúa beint að hermálum, þ.e. svonefnt „Forsvarsforbehold“. Nú getur orðið á því breyting þar eð 5 flokkar á danska þinginu standa að tillögu um að efnt verði til þjóðaratkvæðis 1. júní næstkomandi um að Danmörk falli frá þessum fyrirvara.

Spurningar og svör

Ekkert mál kemst nú í hálfkvisti á við Úkraínustríðið í fjölmiðlum. Í tímaritið Der Spiegel skrifaði 8. mars sl. Thomas Fischer (f. 1953), virtur dómari og dálkahöfundur, athygliverða grein undir fyrirsögninni „Scholz hat recht.“ (Scholz hefur rétt fyrir sér). Þar tekur hann undir þá skoðun stjórnar Scholz að áframhaldandi innflutningur á jarðgasi og olíu frá Rússlandi sé mikilvægur fyrir innri frið í Þýskalandi. Hann bendir þar einnig á að fólk almennt, ekki síst Þjóðverjar, hneigist til fylgis við tilfinningaríkt myndefni sem sýni úthald í „nær vonlausri“ stöðu. Einsýnt telur hann að Úkraína muni tapa stríðinu og vilji Rússland „hlutlausa“ Úkraínu, þá verði það svo að vera. Hinn kosturinn við mikla eyðileggingu og fjölda fórnarlamba sé uppgjöf fyrir óréttlátu ofbeldi. „En 1000 lifandi í tapstöðu er betra en 1000 fallnir. Og öfugt við dauðann endast sigrar ekki til eilífðar“ segir Fischer í grein sinni.

Allt er þó skárra en að kjarnorkuvopnin verði dregin fram.
Við bíðum og sjáum hvað setur.Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim