Hjörleifur Guttormsson | 31. maí 2022 |
Nú sverfur að mannkyni á mörgum sviðum samtímis Stríðið í Úkraínu fyllir fjölmiða í þeim mæli sem ekki hefur sést frá hernaðarátökum í seinni tíð. Upptökin með innrás Rússa komu flestum á óvart, þótt kraumað hafi undir í átta ár allt frá hallarbyltingunni í Kiev 2014. Óvæntur styrkur úkraínskra hersveita og einörð málafylgja Selenskys forseta landsins hafa vakið heimsathygli. Svo virðist sem TB2-drónar frá Tyrklandi hafi skipt sköpum í að hrinda sókn rússneskra skriðdrekasveita að Kiev og Kharkiv. NATÓ hefur sótt í sig veðrið og efnahagslega sverfur að Rússum af hálfu Vesturvelda á flestum sviðum. Þó hefur Rússum á síðustu dögum tekist að ná undir sig umdeildum héruðum í austurhluta Úkraínu til viðbótar hljóðri yfirtöku Krímskaga 2014. Enginn veit á þessari stundu hvenær og með hvaða hætti þessum átökum linnir, hvað þá að varanlegir samningar komist á milli Rússlands og Úkraínu. Þannig bendir margt til að langvarandi kalt stríð sé framundan milli NATÓ og Rússlands, sem einnig mun setja svip sinn á alþjóðastjórnmál og viðskipti. Svartsýnar raddir á Davos-ráðstefnu2 Verðbólga setur nú svip sinn á þróun efnahagsmála á heimsvísu og bætist ofan á óvissu í kjölfar Covid-faraldursins og matvælaskort af völdum stríðsátaka og óvenjulegs veðurfars á stórum svæðum eins og í Indlandi. Af þessum sökum má gera ráð fyrir hungursneyð á stórum svæðum þegar næsta vetur, m.a. í Afríku. Að mati Sameinuðu þjóðanna gæti fjöldi þeirra sem búa við sult vaxið úr 440 milljónum í 1600 milljónir manna. Loftslagsmálin haltrandi Ástand alþjóðmála bitnar augljóslega á markmiðum Loftslagssamnings SÞ um að draga úr hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum. Mikil óvissa tengist viðleitni ESB og NATÓ að loka sem fyrst á kaup á jarðgasi og olíu frá Rússlandi og Bandaríkin hafa hægt á samdrætti á þessu sviði. Því er nú talið að mun hægar muni ganga en til stóð að draga úr CO2-losun og meðalhiti muni ná 1,50C-hlýnunarlágmarki þegar að fjórum árum liðnum. Nú þegar er öfgafullt veðurfar áhyggjuefni víða á jörðinni með flóðum og skógareldum. Enn stórfelldari vá tengist bráðnum jökla á Grænlandi og Suðurskautslandinu, sem mun færa standsvæði fjölda borga á kaf. Vaxandi hlýnun og veðrahamur mun jafnfram bitna á akuryrkju og náttúrulegum gróðurlendum og bræða sífrera á stórum svæðum nær norðurskautinu. Útdauði fjölda lífvera Hlýnun og röskun náttúrulegra vistkerfa veldur því að margar tegundir lífvera hverfa nú af sjónarsviðinu ár hvert. Með áframhaldandi loftslagsbreytingum og röskun vistkerfa má gera ráð fyrir að ekki færri en milljón tegundum verði ógnað beint og óbeint fyrir atbeina mannsins í fyrirsjáanlegri framtíð. Samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Convention on biological diversity) sem samþykktur var ásamt með loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna 1992 er ætlað að hamla gegn þessari öfugþróun og jafnframt að koma í veg fyrir útbreiðslu ágengra tegunda. Íslensk stjórnvöld vanræktu lengi að fylgja eftir ákvæðum þessa samnings og nú er ekki seinna vænna að taka sig á. Ráðstefnu þátttökuríkja, þá 15. frá upphafi, á að halda í Kunming í Kína í haust og í ályktunardrögum er skerpt verulaga á fyrri samþykktum. Fólksfjöldi og vaxandi misskipting Hröð og mikil fólksfjölgun á heimsvísu á stóran þátt í þeirri öfugþróun sem fylgt hefur mannkyninu í vaxandi mæli í tíð siðustu kynslóða með tilheyrandi álagi á umhverfið. Á æviskeiði þess sem hér heldur á penna hefur íbúafjöldi jarðar þrefaldast og ekkert lát er á þeim vexti. Þessu hefur jafnframt fylgt síxaxandi misskipting efnislegra gæða. Í 21. hefti tímaritsins Der Spiegel (21. maí 2022) er forsíðugrein um „Die Gesetzlosen“ ( Þá sem engin lög ná yfir) og segir þar í kynningu: „Fámennur hópur ofsaríkra rakar stöðugt að sér meiri eignum. 520 þúsundir manna ráða yfir meira en tíunda hluta heildareigna á Jörðinni. Og þeir gera allt til að sjá af sem minnstum hluta til annarra – á sama tíma og þeir sem eru undir fátæktarmörkum þjást í auknum mæli.“ Nýlega var Elon Musk í fréttum, sagður ríkasti maður heims, sem var að festa kaup á Twitter fyrir litla 44 miljarða dollara. Tímaritið The Economist segir í apríl-maí-hefti sínu í ár: „Það eru miklar efasemdir, einnig meðal þeirra sem nota Twitter, um yfirlýsta löngun Musks að tryggja „framtíð heimsmenningarinnar.“ Nýleg skoðanakönnun You-Gov í Bandaríkjunum leiddi í ljós, að 54% Repúblikana töldu að kaup Musk á Twitter væru góð fyrir samfélagið, en aðeins 7% Demókrata voru því sammála.. Mannkyn allt í öngstræti Eins og sjá má af þessu yfirliti um stöðu afdrifaríkustu mála, er mannkynið statt í háskalegu öngstræti, sem óvíst er að það komist út úr án hörmulegra skakkafalla. Andvaraleysi þorra almennings á Vesturlöndum gagnvart þessari stöðu, ýtir ekki undir bjartsýni og ráðandi þjóðfélagsöfl láta reka á reiðanum. Í ljósi dapurrar heildarstöðu eru einstakir atburðir, stríð í Úkraínu þessa stundina og hungursneyð hér og þar í löndum þriðja heimsins, léttvægir miðað við undirliggjandi strauma sem fátt virðist geta breytt. – Grunnfærin og yfirborðsleg fjölmiðlun svokallaðra samfélagsmiðla og bitlítil stjórnmálaumræða vekja ekki bjartsýni um að Eyjólfur sé að hressast. Hjörleifur Guttormsson |