Hjörleifur Guttormsson 25. júlí 2023

Hlýnun af mannavöldum stefnir heimsbyggðinni í voða

Gífurleg hitabylgja nú í júlímánuði á breiðu belti á norðurhveli hefur hrist rækilega upp í loftslagsumræðunni. Þessi bylgja hefur ekki einskorðast við heittempruð belti jarðar heldur náð mun norðar, allt til Mið-Evrópu og teygt sig allt í kringum hnöttinn í áður óþekktum mæli. Henni fylgdi sums staðar hiti upp í 45–50 gráður og meðalhiti á jörðinni í heild náði nú 17 gráðum, sem er hærra gildi en áður hefur sést. Þetta er toppurinn á hækkandi hitastigi síðustu ára og vísar til enn háskalegri gilda í náinni framtíð. Orsökin er áframhaldandi aukning á losun koldíoxíðs frá jarðefnaeldsneyti á heimsvísu og ónógar gagnaðgerðir til að draga úr henni með umhverfisvænum orkugjöfum og breyttum lífsháttum. Í þessum hópi er litla Ísland, sem samkvæmt nýlegu mati loftslagsráð hefur hingað til ekki skilað tilætluðum árangri og enn liggur ekki fyrir markviss loftslagsstefna þrátt fyrir fögur fyrirheit í orði kveðnu. Halldór Þorgeirsson formaður ráðsins segir mjög skorta á skýrari ábyrgð íslenskra stjórnvalda og endurskoða þurfi loftslagslöggjöfina hérlendis og tryggja yfirumsjón þannig að staðið sé við gefin fyrirheit.

Þung og réttmæt orð Antonio Guterres

Átta ár eru senn liðin frá Parísarfundinum 2015 sem vænst var að gæti markað tímamót í lotslagsháskanum með fyrirheitum um að sem flest ríki stefndu í samdrátt í losun skaðlegs útblásturs þá þegar og takmörkun á hlýnun við 1,5-2.0 gráður á Celsíus. Viðbrögð Antonio Guterres framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna við öfugþróun síðustu ára, byggð á IPPC-sérfræðinefndinni eru ótvíræð: Ef stjórnvöld hvarvetna breyta ekki á næstunni um stefnu í orkumálum verður jörðin óbyggileg. Verði ekki brugðist við af alvöru og staðið við gefin fyrirheit fara stórir hlutar af borgum heimsins undir vatn vegna hækkunar sjávarborðs samhliða stórfelldum hitabylgjum, stormum í áður óþekktum mæli og hrikalegum afleiðingum fyrir lífríki jarðar. Þessi orð aðalritarans eru að mínu mati rétt og í samræmi við það sem blasað hefur við í hálfa öld eða frá því ritið um „Endimörk vaxtarins“ eftir Dennis L. Meadows kom út í New York 1972 að frumkvæði Rómarsamtakanna. Að baki því stóð hópur vísindamanna við Tækniháskólann í Massaschusetts í Bandaríkjunum.

Engar ýkjur heldur bláköld alvara

Líkja má stöðu aðalritara Sameinuðu þjóðann við samvisku heimsbyggðarinnar. Hann hefur líkt og fyrirrennarar hans enga ástæðu né hagsmuni til að draga upp dekkri mynd en vel rökstuddar líkur benda til. Tilvitnuð orð hans frá því vorið 2022 ættu að hafa fengið aukinn þunga eftir methitann að undanförnu. Það er hins vegar undir stjórnvöldum og orku- og atvinnustefnu hvers lands komið, hvort þróunin verður í rétta átt eða öfuga. Hitametin að undanförnu tala sínu máli og kalla eftir alvöruviðbrögðum stjórnvalda í stað orðagjálfurs og að bíta sig föst í hagvöxt sem gerir illt verra. Einnig samtök launafólks þurfa ekki síður en atvinnurekendur að átta sig á hvert stefnir að óbreyttu og taka umhverfissjónarmið inn í baráttu sína fyrir lífvænlegri framtíð.

Loftslagsbreytingar öllum sýnilegar

Óvíða blasa afleiðingar loftslagsbreytinga eins skýrt við og hérlendis. Þar eru hörfandi jöklar ljósasta dæmið, best sýnilegar heimafólki sem næst þeim býr. Þar er sama þróun í gangi og á Grænlandi og Suðurskautslandinu, knúin áfram af losun frá jarðefnaeldsneyti. Árlega mælast hér breytingar á stöðu sjávarborðs, mismunandi þó eftir landshlutum út frá rýrnun jökla. Fari fram sem horfir um hlýnun vegna losunar gróðurhúsalofts mun höfuðstaðurinn Reykjavík gjalda þess og sjór flæða inn yfir stór strandsvæði og núverandi miðbæ með Lækjargötu, Tjörn og Norðurmýri. Þetta er þróun sem blasir við fyrr en síðar, ef heldur fram sem horfir.Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim