Hjörleifur Guttormsson 27. febrúar 2023

Úkraínustríðið getur leyst kjarnorkuógnina úr læðingi

Rétt ár er nú liðið frá innrás Rússa í Úkraínu og algjör óvissa ríkir um framhaldið á þeim hildarleik. Sívaxandi óbein þáttaka Vesturlanda og Nató í stríðsátökunum á sama tíma og forysta Úkraínu hafnar öllum viðræðum við Rússa um leit að lausnum í friðarátt bendir til langvinnrar styrjaldar. Ástandið í Úkraínu er skelfilegt eftir árs styrjaldarátök, milljónir hafa flúið land og um fimmtungur landsins er á valdi Rússa. Selensky forseti hefur sýnt einstakan dugnað og frumkvæði við að tryggja Úkraínu stuðning NATÓ og Evrópusambandsins við baráttu lands síns gegn innrásinni, nú síðast með óskum um stórfellda aðstoð með háþróuðum vopnum. Eitthvað af slíkum tólum mun berast Úkraínuher á næstu mánuðum, en ólíklegt er að þau dugi til að hnekkja þeirri hernaðarsókn sem fullvíst er talið að Rússar hefji nú alveg á næstunni.

Útilokun Rússa tvísýnn leikur

Deilt er um það í Vestur-Evrópu hversu skynsamlegt það hafi verið að loka alveg á þátttöku Rússlands í öryggisráðstefnunni í München í liðinni viku. Með því er dregin upp röng mynd af alþjóðlegri stöðu Rússlands, sem nýtur almennt stuðnings Kína sem stórveldis og Indland hefur ekki snúið við þeim baki, hvorki pólitískt eða viðskiptalega. Af hálfu allmargra Afríkjuríkja nýtur Rússland velvildar, m.a. af hálfu Suður-Afríku og Namibíu. Hefði það ekki verið eðlilegt að Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússa hefði þurft að standa fyrir máli Rússa í München í stað þess að vera bannaður aðgangur að þessari „heimsráðstefnu“? Er ekki með þessu verið að loka fyrirfram á viðræður um hugsanlega samninga í Úkraínudeilunni líkt og Selensky leggur áherslu á meðan hann reynir að tryggja sér sem víðtækastan stuðning.

Þjóðverjar klofnir í afstöðu

Það hefur fáum dulist að skiptar skoðanir hafa verið meðal Þjóðverja um málefni Úkraínu, bæði varðandi afhendingu vopna og um viðbrögð við innrás Rússa. Olaf Scholz kanslari mátti þola aðkast heima og erlendis áður en hann loks féllst á að afhenda Úkraínuher nokkra Leopard-skriðdreka á næstu mánuðum. Enn útilokar hann að orrustuþotur bætist við af Þjóðverja hálfu í þann vopnabúnað, andstætt Rishi Sunak, nýjum forsætisráherra Breta, sem gengur fram fyrir skjöldu gagnvart Rússum líkt og forveri hans. Hernaðarleg íhlutun Breta gagnvart öðrum þjóðum hefur þó fram að þessu ekki talist til tíðinda, síðast í innrás „viljugra ríkja“ í Írak 2003.
Mikla athygli hefur vakið grein þýska heimspekingsins og félagsfræðingsins Jürgen Habermas í Süddeutsche Zeitung 14. febrúar sl. Þar lýsir þessi 92ja ára öldungur stuðningi við hingað til varfærna stefnu þýskra stjórnvalda um að gerast ekki beinn stríðsaðili í Úkraínu. Hann telur hættu á að slíkt gæti af Rússa hálfu leitt til notkunar gereyðingarvopna og það verði þá Pútíns að ákvarða hvenær að því sé komið samkvæmt alþjóðaskilgreiningu. Áhersla margra á persónu Pútíns í samhengi við Úkraínustríðið leiði til „viltra spekúlasjóna“ líkt og á tímum Sovétríkjanna. Í því samhengi minnir hann á að við Pútín „þurfi að semja um lok stríðsins eða að minnsta kosti um vopnahlé.“

Kosningar í BNA geta haft áhrif á framvindu

Þótt gagnrýni og andstöðu við stríðsreksturinn í Úkraínu gæti innan Rússlands sýna nýlegar skoðanakannanir Lewanda stofnunarinnar í Moskvu að um að þrír af hverjum fjórum styðji stefnu Pútins. Skipuleg andstaða við stjórn hans og stefnu er líka vart til staðar. Í Bandaríkjunum eru skoðanir nú afar skiptar þegar styttist í forsetakosningar. Joe Biden forseti er varfærinn þótt hann vilji ganga langt í stuðningi við Úkraínu, en á hinu leitinu er deilan við Kínverja út af Taiwan. Meðal repúblikana er sterk andstaða við fjárstuðning og vopnasendingar til Úkraínu í liði Donalds Trumps og fleiri líklegra keppinauta um forsetaembættið 2024.

Norðurskautsráðið og Úkraínudeilan

Starfsemi Norðurskautsráðsins hefur verið lömuð vegna Úkrínudeilurnnar. Rússland hefur gegnt formennsku í ráðinu frá 2021 og tók þá við af Íslandi. Starfsemi ráðsins snertir fyrst og fremst umhverfismál og stöðu íbúa næst heimsskautinu og hefur þar margt tekist vel. Sjö af átta aðildarríkjum ráðsins fordæmdu á síðasta ári innrás Rússa í Úkraínu og aflýstu þátttöku í formlegum fundum undir þeirra stjórn. Rússland er landfræðilega langstærsti aðilinn að Norðurskautsráðinu og þótt þeir láti af formennsku nú að vori er hætt við að starf á vegum ráðsins verði lamað og í uppnámi á meðan ekki finnst friðsamleg lausn á Úkraínustríðinu.

Stríðsástandi verður að linna

Mannkynið stendur frammi fyrir stórum áskorunum sem varða búsetuskilyrði á heimilinu jörð. Stríð í samskiptum þjóða ættu að heyra fortíðinni til. Þau draga athygli frá loftslagsvá, ójöfnuði og  umhverfisröskun sem brýnast er að heyri sögunni til.         

Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim