Hjörleifur Guttormsson | 31 janúar 2023 |
Úrræðaleysi við leka og myglu hefur einkennt viðbrögð ráðamanna Í hverjum mánuði berast fréttir af lekavanda og myglu í opinberum byggingum hérlendis, rýmingu skólahúsnæðis og leit að orsökum. Margfaldur hlýtur sá vandi að vera ef jafnframt er litið til íbúðarhúsnæðis í þéttbýli og dreifbýli. Áratugir eru síðan slík vandamál fóru að gera vart við sig í nýlegu húsnæði, en þróun síðustu ára keyrir um þverbak. Sárast af öllu er að fylgjast með tíðum fréttum af leka og myglu í skólahúsnæði sem kallar á lokun þess um lengri eða skemmri tíma. Slík röskun á undirstöðuþáttum í samfélaginu hefði átt að kalla á skörp viðbrögð kjörinna fulltrúa, ekki síst þeirra sem móta stefnu um rannsóknir. Áhyggjur almennings, ekki síst forráðamanna barna- og unglinga fara sívaxandi, eins og áhugi þúsunda á ráðstefnu Háskólans í Reykjavík um rakaskemmdir 23. janúar sl. bar órækan vott um. Undanhald sem síst skyldi Á nefndri ráðstefnu í HR var í heiðurssæti Ríkharður Kristjánsson, gamalgróinn verkfræðingur hjá Eflu, fyrirtæki sem hefur sérhæft sig í viðgerðum á raka- og mygluskemmdum. Ég minnist hans frá þeim tíma sem hann ungur að árum starfaði hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, sem þá var í lykilhlutverki varðandi eftirlit með byggingum. Í viðtali 2015 minnti hann á þá stofnun „sem vakti yfir öllum byggingargöllum á Íslandi og kom í veg fyrir að þeir yrðu eða brást fljótt við. Það var engin pólitík, embættismannahik og hugsað um lögsóknir heldur farið í að útrýma gallanum . Ef stofnunin væri starfandi í dag í sinni gömlu mynd hefði hún getað eytt þessum myglumálum á stuttum tíma.“ Flókinn farvegur í skjóli tveggja ráðuneyta Haustið 2020 kynnti Þórdís iðnaðarráðherra frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun, sem m.a. feli í sér að stofnaður verði sérstakur sjóður um byggingarrannsóknir í samstarfi við félagsmálaráðuneytið „og mótuð langtímastefna um þróun, rannsóknir og nýsköpun í íslenskum byggingariðnaði.“ Samhliða var lagt fram frumvarp um opinberan stuðning við nýsköpun. Þar sagði í greinargerð m.a.: „Stofnaður verður sérstakur rannsóknarsjóður af hálfu félags- og barnamálaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem vistaður verður hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.“ Sjóðurinn kallast Mannvirkjarannsóknasjóðurinn Askur, og er hlutverk hans að veita styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar í samræmi við markmið laga nr. 160/2010 um mannvirki. Fyrsta tilgreinda áhersla sjóðsins er um „raka og mygluskemmdir“, þ.e. að stuðla að aukinni þekkingu á þeim í íslenskum mannvirkjum, þróun aðferða við mælingar og mat á umfangi slíkra skemmda og hvernig unnt sé að bregðast við þeim með árangursríkum hætti. Þess utan á að veita styrki til rannsókna á byggingarefnum, orkunýtingu, losun gróðurhúsalofts, tækninýjungum og gæðum íbúðarhúsnæðis. Eru raunverulegar lausnir í sjónmáli? Menn hljóta að velta því fyrir sér, hvort hér sé kominn farvegur sem líklegt sé að breyti að marki þeirri stöðu sem nú er og leitt hefur til stórfelldra vandræða vegna raka og mygluskemmda. Óskandi væri að úr rætist, en margir hafa efasemdir í ljósi dapurrar reynslu. Hjörleifur Guttormsson |