Niðurstöður forsetakosninganna eru vonbrigði
Birtist í Morgunblaðinu 6. júní 2024
Kona úr viðskiptalífinu, Halla Tómasdóttir, náði kjöri í nýafstöðnum kosningum sem næsti forseti Íslands. Hún fékk 34,1% atkvæða í kosningum þar sem kjörsóknin varð 80,1%. Næst í fylgi varð Katrín Jakobsdóttir með 25,2% atkvæða og í þriðja sæti kom Halla Hrund Logadóttir með 15,7%. Jón Gnarr varð svo í fjórða sæti með 10,1% , en aðrir fengu minna fylgi.
Nýr forseti óreyndur af störfum innanlands
Halla Tómasdóttir er 55 ára, fædd 11. október 1968, eiginmaður hennar Björn Skúlason matreiðslumaður ættaður úr Grindavík, og eiga þau tvö uppkomin börn. Halla er rekstrarhagfræðingur, menntuð í Bandaríkjunum þar sem hún hefur starfað lengst af, fyrst hjá fyrirtækjunum Mars og Pepsi Cola, en hjá B Team samsteypunni hin síðari ár. Það fyrirtæki segist vinna að breyttu hugarfari og ábyrgð í viðskiptaheiminum. Halla bauð sig líka fram til forseta í kosningunum 2018 og varð þá í 2. sæti með tæp 28%, alllangt á eftir sigurvegaranum Guðna Th. Jóhannessyni sem kjörinn var með um 39%. Frambjóðendur voru þá alls 9, þeirra á meðal Davíð Oddsson, sem varð í fjórða sæti með 13,7%, aðeins minna fylgi en Andri Snær Magnason í 3. sæti. Ég man sáralítið eftir málafylgju Höllu í þeim kosningum.
Halla gaf í fyrra út bókina Hugrekki til að hafa áhrif. Þar fjallar hún að eigin sögn um hvernig hún hafi fundið hugrekki til að hreyfa við samfélaginu. Eflaust er Halla góður og gegn einstaklingur, en lítið hefur reynt á hana í störfum hér innanlands og þannig er hún óskrifað blað. Af málflutningi hennar það ég hef greint hafði hún eins og fleiri af frambjóðendunum afar óljósar hugmyndir um það verkefni sem býður hennar.
Í kosningabaráttunni nú fór í fyrstu lítið fyrir Höllu, en hún bætti jafnt og þétt við sig samkvæmt könnunum síðustu vikurnar. Mældist uppgefið fylgi hennar og Katrínar Jakobsdóttur nánast jafnt síðustu dagana fyrir forsetakosningarnar. Hins vegar reyndist það um 9% hærra en Katrínar er talningu lauk. Þessi mikla sveifla í fylgi Höllu á lokasprettinum hefur orðið helsta umræðuefni nú að kosningunum loknum. Telja margir rýnendur að fjöldi kjósenda hafi lagst á sveif með henni síðasta spölinn, fyrst og fremst til að koma í veg fyrir hugsanlegt kjör Katrínar í sæti forseta.
Ummæli ritstjóra Morgunblaðsins
Um niðurstöðu kosninganna segir Morgunblaðið í ritstjórnargrein 3. júní eftirfarandi:
"Úrslitin reyndust verulega frábrugðin helstu skoðanakönnunum og við blasir að fjöldi fólks greiddi atkvæði af kænsku – kaus ekki þann, sem það helst vildi, heldur þann sem líklegastur var til þess að aftra öðrum brautargengis. – Það er ekkert að því að kjósa þannig, en það vekur þó spurningar um skautun og gangverk lýðræðisins verði það viðtekin venja.“
Og ritstjórinn bætir við: "Sá samblástur, sem víða mátti greina gegn Katrínu Jakobsdóttur (en fæstir aðrir frambjóðendur tóku þátt í), var á köflum annarlegur. Mannkostir frambjóðandans og erindi í forsetaembætti látið liggja milli hluta, en pólitískar skoðanir hans og ferill meiru. Í embætti sem hefur enga pólitíska vídd. – Hitt má heita gráglettni örlaganna, að til þess hafi vinstri menn í miklum mæli kosið fyrsta forsetann úr hinum borgaralega ranni, síðan Sveinn Björnsson var forseti.“
Undir þessi ummæli ritstjóra Morgunblaðsins get ég tekið, þau eru orð að sönnu. Hvaðan þessi fylgissveifla var aðallega ættuð sést best af því, að sá frambjóðandi sem kominn var beint úr forystusveit Samfylkingarinnar, Baldur Þórhallsson, mældist með helmingi minna fylgi í kosningunum sjálfum en þegar best lét í skoðanakönnunum nokkru fyrir kjördag. Baldur lét samkvæmt Morgunblaðinu hafa eftir sér á kosninganóttina þegar við blasti í hvað stefndi:
"Það er mjög sérstakt að vera allt í einu hinum megin við borðið. Maður þarf að setja sig í alveg nýjar stellingar til þess.“
Katrín mun finna sér verðugt verkefni
Katrín Jakobsdóttir steig djarft skref þegar hún sagði af sér sem forsætisráðherra til þess að freista þess að ná kjöri sem forseti lýðveldisins. Hinn kosturinn var að leiða áfram ríkisstjórn til loka kjörtímabilsins. Ekki þurfti spámenn til að sjá að að því loknu hefði hún gefið frá sér þingsæti eftir 18 ára samfellda setu á Alþingi. Ég sagði mig úr flokki Vinstri grænna í ársbyrjun 2013 eftir að hafa starfað þar sem óbreyttur flokksmaður í 14 ár. Ástæðan var gæfulaust samstarf VG við Samfylkinguna vel á fimmta ár, m.a. um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Síðan hef ég verið áhorfandi að stjórnmálum, en þó fylgst með meginstraumum sem fyrr.
Eftir alþingiskosningarnar haustið 2017 var ég yfirlýstur fylgjandi þess að VG undir forsæti Katrínar stefndi að því að leiða þá ríkisstjórn, sem síðan hefur setið að völdum. Þeim vanda reyndist hún vaxin. Á sama hátt hefði hún orðið fyrirmyndar forseti lýðveldisins með þeim takmörkunum sem fylgja því embætti. Nú blasir annar veruleiki við, en við sem teljum okkur þekkja mannkosti Katrínar erum þess fullviss, að hún finni sér hlutverk sem áfram gagnist landi okkar og þjóð.
Nýkjörnum forseta óska ég velfarnaðar í starfi.
Hjörleifur Guttormsson |