Hjörleifur Guttormsson 6. desember 2024

Stjórnmál í  óvissu nær og fjær á aðventu 2024

Þessar línur eru skrifaðar á þriðja degi eftir að fyrir lágu úrslit alþingiskosninga sem haldnar voru á óvenjulegum árstíma, það er í skammdeginu líkt og gerðist um sömu mánaðamót 1979, þ.e. fyrir 45 árum. Sá sem þetta skrifar hafði þá setið á þingi í eitt ár í 14 manna þingflokki Alþýðubandalagsins. Auk þingmennsku sat ég þá í ríkisstjórnum sem iðnaðarráðherra. Í þingflokki mínum var aðeins ein kona, Svava Jakobsdóttir, en arftaki hennar varð þá Guðrún Helgadóttir. Í næstu þingkosningum vorið 1983 komu inn á Alþingi 3 konur kosnar af þá nýstofnuðum Kvennalista. Ég hafði lengi stutt að því ínnan Alþýðubandalagsins að fjölga konum á þeim vettvangi, gladdist því við tilkomu hins nýja þingflokks og bauð þeim saman  í heimsókn á skrifstofu mína í stjórnarráðinu. Um 15 ár liðu síðan í sögu Kvennalistans, fulltrúum hans fjölgaði nokkuð, en án þess að þær ættu hlut að ríkisstjórnum.  Þetta er rifjað hér upp vegna þeirra tíðinda að í dag, 2. desember, komu saman formenn þriggja nýkjörinna þingflokka, allt konur, til að ræða um myndun ríkisstjórnar á vegum sömu flokka.  Þessi  róttæka breyting er einsdæmi í stjórnmálasögu lands okkar.

Mannkyn á miklum breytingatímum

Óvissa hefur alltaf verið fylgifiskur stjórnmála, m.a.  í ríkjum sem kenna sig við lýðræði. Vegna örra samfélagsbreytinga og tækninýjunga hefur slíkt ástand færst í vöxt og við bætist óvægin og hömlulítil fjölmiðlun. Mesta stjórnmálalega óvissan á Vesturlöndum stafar nú af valdaskiptum innan tveggja mánaða í Washington. Um hana fjalla nú víðlesnir fjölmiðlar eins og tímaritn The Economist og Der Spiegel. Kosning Donalds Trumps sem forseta Bandaríkjanna næstu fjögur árin setur stórt spurningarmerki um stefnu þessa forysturíkis Vesturlanda og NATÓ orku- og loftslagsmálum. Val Trumps á ríkasta milljarðamæringi heims, Elon Musk, sem hægri hönd og ráðgjafa hefur vakið óhug meðal flestra áhrifamanna á Vesturlöndum. Musk studdi að kjöri Trunps með yfir 100 milljón dollara framlagi af eigin ríkidæmi og ræður jafnframt yfir X (áður Twitter), einum öflugasta samfélagsmiðli heims. Í Der Spiegel (nr. 47, bls. 9-12)  er fullyrt að Trump taki engar mikilvægar ákvarðanir lengur án samráðs við Musk.

Þótt auljóst sé að Trump geti með stefnu sinni í orkumálum hægt á samdrætti í losun gróðurhúslofttegunda í Bandaríkjunum, muni honum ekki takast að snúa þeirri þróun við. Því valdi m.a. efnahagslegar ástæður sem styðji ótvírætt við umskipti frá olíuafurðum yfir í vind- og sólarorku. (Der Spiegel 47, bls. 108‒109).

Vaxandi áhyggjur í Vestur-Evrópu

Daglega birtast nú miklar og vaxandi áhyggjur stjórnmálaleiðtoga í Vestur-Evrópu yfir valdaskiptunum framundan í Washington. Það á við um helstu stjórnmálaleiðtoga Þýskalands þar sem framundan eru þingkosningar 25. febrúar  nk. og líklegt er að leiðtogi CDU, Friedrich Merz, fari með sigur af hólmi. Í Frakklandi er síðan í haust að völdum minnihlutastjórn hægri mannsins Michels Barnier, sem sótt er að bæði frá hægri og vinstri. Fall hennar gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir stjórnmálaástandið þarlendis.

Þessi staða veldur miklum áhyggjum varðandi framvindu Úkraínustríðsins og stöðuna gagnvart Rússlandi. Í Rúmeníu er mikil spenna eftir að lítt þekktur þjóðernissinni Calin Georgescu fór með sigur af hólmi í forkosningum  um forseta landsins 24. nóvember, og óvissa ríkir um lokaniðurstöðu 8. desember nk. Ákall Selenskys Úkráínuforseta um að landið fái skjóta  inngöngu í NATÓ hefur ekki fengið þær undirtektir sem hann vænti.

COP 29 og þreföldun fjárveitinga

29. fundi  loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP-29) lauk í Bakú í Azerbejan 24. nóvember sl. Meginniðurstaða hans var samkomulag um að velstæðar þjóðir greiði 300 milljarða Bandaríkjadala árlega til þeirra lakar settu frá og með árinu 2035 til að draga úr losun gróðurhúslofts. Þetta er hækkun frá 100 milljörðum samkvæmt Parísarsamkomulaginu en ekki er tekið mið af verðbólgu og upphæðin er la ngt frá því sem þörf er talin á. Hliðstæður fundur aðildarríkja  (COP-30) verður haldinn á næsta ári í borginni Belém í Brasilíu nálægt ósum Amasonfljóts. Þar á hvert ríki að gera grein fyrir samdrætti í losun að 10 árum liðnum, 2035. Áætlun um æskilegan heildarniðurskurð í losun á árinu 2030 eru 42% frá núverandi stöðu, sem talið er afar ólíklegt að náð verði.

Til að styrkja núverandi ferli í loftslagsmálum hefur verið ákveðið að aðildarríki og alþjóðastofnanir að Parísarsamkomulaginu leggi fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag hvernig þau meti gildandi réttarstöðu sína. Dómstóllinn á síðan að skila inn áliti um stöðu viðkomandi ríkja og stofnana.
---
Eins og ráða má af ofangreindu er alþjóðaferlið í umhverfis- og loftslagsmálum sem grunnur var lagður að fyrir aldarþriðjungi enn í góðu gildi. Nýrri ríkisstjórn Íslands ber að taka mið af því og leggja sitt lóð á réttar vogarskálar .

Hjörleifur Guttormsson
náttúrufræðingur

 

 


Til baka | | Heim