Hjörleifur Guttormsson 10. júní 2024

Náttúruvernd hefur verið mín hugsjón

Viðtal Sigurðar Boga Sævarssonar við Hjörleif í Morgunblaðinu 10. Júní 2024 – Rannsóknir hans á austurhluta landsins eru stór hluti ævistarfsins.

„Ég heillaðist ungur af öræfunum,“ segir Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur. Út er komin Árbók Ferðafélags Íslands 2024 – Sunnan Vatnajökuls frá Núpsstað tiil Suðursveitar. Hjörleifur er frumkvöðull þessarar bókar, en einnig lögðu til efnis hennar þeir Oddur Sigurðsson og Snævarr Guðmundsson, báðir sérfróðir um jökla og jarðfræði.

Vatnajökull í ýmsu samhengi

Árbók FÍ nú er hin 9. sem Hjörleifur á hlut að – en sú fyrsta kom út árið 1974 og fjallaði um Austfjarðafjöll. Svo hefur hver bókin um austurhluta landsins rekið aðra og þær segir Hjörleifur að megi nú líta á sem eina heild. „Já, eftir því sem bókunum hefur fjölgað blasir við að þær fjalla um landið austan við Jökulsá á Fjöllum og austan Hverfisfljóts og Djúpár sunnan jökuls. Sjálfur Vatnajökull birtist þar í ýmsu samhengi allt um kring. Þetta var ekki ásetningur í upphafi,“ segir Hjörleifur sem rekur tildrög þessa til æsku sinnar og búsetu og starfa austur á landi.

„Ég ólst upp á Hallormsstað, í alþekktu skóglendi með mikla grósku,“ segir Hjörleifur. Þaðan sér til Snæfells, en Vatnajökull er í hvarfi. Skógarvörðurinn faðir minn fékk að hafa nokkrar kindur á hjáleigunni Buðlungavöllum og lagði því til mann í smalamennsku á Gilsárdalsafrétt þar suður af. Fjórtán vetra fór ég þannig með bændum í fyrstu göngu í blíðskaparveðri suður á Hraun, stórt öræfasvæði. Þaðan blasir við norðausturvangi Vatnajökuls. Ég heillaðist af öræfunum og fjallgöngur urðu ásamt rannsóknum liður í tilverunni, m.a. skráning plantna eftir hæðarmörkum.

Miklar breytingar á landinu

Svæðið sunnan Vatnajökuls hefur breyst mikið á fáum áratugum. Landið er alltaf að öðlast nýjan svip, m.a. í krafti samdráttar jöklanna eins og segir frá í árbókinni.

„Þetta blasir auðvitað við kunnugum sem aka þjóðleiðina sunnan Vatnajökuls, jafnvel birtast mönnum breytingar þar frá ári til árs. Tilfærsla jökulánna, hörfun jöklanna og nýir tindar og jökulsker eru hluti af þessum breyttu aðstæðum. Breytingin er í átt til fyrri tíðar að upphafi Íslandsbyggðar. Ljósasta dæmið er eyðing og tilfærsla byggðar á söndunum beggja vegna Öræfajökuls vegna eldgosa og ágangs breytilegra jökulvatna. Annað dæmi er flutningur bæjarins á Núpsstað, líklega nálægt aldamótunum 1400, frá upphaflegu bæjarstæði austan undir Lómagnúpi vestur á núverandi stað,“ segir Hjörleifur og heldur áfram:

„Breyting á lífríkinu helst sumpart í hendur við breytingar á landi, en aðrar og víðtækari sveiflur eiga þar sinn þátt. Þar er fuglalífið ljósasta dæmið. Skúmurinn sem til skamms tíma setti svip sinn á Breiðamerkursand er þar nú að verða fáséður. Í staðinn er kominn helsingi sem myndar þéttar breiður, meðal annars í Skúmey. Í gróðurríkinu sækir framandi lúpína ört fram og mun þekja sandana og gjörbreyta gróðurríkinu, verði ekki skipulega brugðist við útbreiðslu hennar.“

Einangraðar sveitir

Í árbókinni víkur Hjörleifur að því að í sveitunum sunnan Vatnajökuls þar sem einangrun ríkti og ár voru óbrúaðar, hafi náttúrulegar aðstæður mótað mannlífið talsvert.

„Samgönguleg einangrun Skaftafellssýslu var meiri en þekktist í öðrum landshlutum allt fram undir okkar daga. Því ollu jökulvötnin og hafnleysið. Þetta setti svip sinn á mannlífið og

einangrunin endurspeglast enn í málfari heimafólks, þótt úr þeirri sérstöðu hafi dregið. Samþjöppun byggðar, meðal annars í Öræfum, er líka mótuð af eldgosum og tilfærslu jökulánna.“

Í Öræfasveit og grennd er ferðaþjónusta nú orðin helsti atvinnuvegurinn. Þar hefur starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs í framhaldi af Skaftafelli haft mikil áhrif. Þjóðgarðurinn var stofnaður árið 2007 og komst á heimminjaskrá UNESCO árið 2020. Til þess að staður komist á þá skrá þarf hann að hafa einstakt gildi á heimsvísu. Slíkir þjóðgarðar eru nú nokkur hundruð talsins.

Náttúruvernd og nýting

Þjóðgarðurinn í Skaftafelli var stofnaður árið 1967, en hann var svo lagður til Vatnajökulsþjóðgarðs. Upphaflegu hugmyndina að þeim síðarnefnda má rekja til Hjörleifs. Sem þingmaður lagði hann árið 1998 fram tillögu til þingsályktunar um friðlýsingu miðhálendisjöklanna fjögurra og næsta nágrennis þeirra. Þessi málflutningur náði í gegn.

„Jákvæðar undirtektir Alþingis 1999 við tillögu minni um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs voru mér auðvitað afar kærkomnar þótt upphafleg tillaga mín hafi verið víðtækari. Náttúruvernd og hópleg nýting hefur verið mín hugsjón, eins og víða kemur fram í ritum mínum og málflutningi. Fyrsta bók mín sem út kom 1974 ber heitið Vistkreppa eða náttúruvernd. Hún endurspeglar þá róttæku sýn sem þá var að mótast og skiptir nú sköpum fyrir umhverfi alls mannkyns og framtíð þess,“ segir Hjörleifur að síðustu.Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim