Hjörleifur Guttormsson | 13. úní 2024 |
Í spor Sigurðar Gunnarssonar. Ávarp við bókarkynningu 13. júní 2024 Ágæta samkoma. Ég mun mæla hér nokkur orð um aðdragandann að því verki sem hér er kynnt af Skruddu sem útgefanda. Í svonefndri Stórustofu á æskuheimili mínu á Hallormsstað voru á vegg yfir sófa 6 ljósmyndir í tveimur röðum [sbr. ljósmynd á s. 418]. Í efri röð fyrir miðju var mynd af Sigurði Gunnarssyni langafa mínum og prófasti, eins og hann oft var nefndur. Honun til vinstri handar var mynd af Jóni Sigurðssyni forseta, en hægra megin sérstæð mynd (litograf) af séra Guttormi Pálssyni í Vallanesi, tengdaföður Sigurðar, sem fæddur var á Valþjófsstað 1775. Ég gaf ekki mikinn gaum að þessum höfðingjum í bernsku, en þeir áttu eftir að leita á hugann síðar, m.a. þegar í ljós komu úr fórum föður míns látins og Sigrúnar Blöndal systur hans handrit sem þeim tengdust. Sum þeirra höfðu að geyma fundargerðir áður ókunnar frá dögum sjálfstæðisbaráttunnar um og eftir miðja 19. öld. Þessu fylgdu bréf og skýrslur vorþinga Héraðsbúa um úrbætur í atvinnulífi þess tíma, um nýmæli í landbúnaði og vegabætur á óruddum leiðum milli Fljótsdalshéraðs og fjarða og minnisatriði um læknisverk Sigurðar prófasts. Þessu efni kom ég á Héraðsstjalasafnið á Egilstöðum á fyrstu árum þess fyrir hálfri öld og Sigurður Blöndal skógarvörður, sem bar nafn Sigurðar langafa síns, bætti þar við þykkum bréfabókum hans. Ýmislegt sem á vantaði, bréf og myndir, fékk ég svo fyrir fáum árum hjá Sigrúnu Blöndal yngri, kennara á Egilsstöðum. Bókin Í spor Sigurðar Gunnarssonar á að gefa yfirlit um fjölbreyttan æviferil Sigurðar og hlut hans í samtímasögu, vaknandi sjálfstæðisbaráttu 19, aldar og fyrir bættum kjörum almennings. Það skipti sköpum fyrir einstæðinginn Sigurð að honum var um tvítugt gert kleift að sækja nám í Bessastaðaskóla. Áhugi hans beindist að því búnu að fræðslu fyrir almenning og að kennslu, sem hann stundaði í tvo vetur í Reykjavík, uns hann staðfestist eystra og kvæntist Bergljótu Guttormsdóttur. Aðstæður leyfðu mönnum þá ekki að hafa kennslu að aðalstarfi. Samt varð fræðsla ungmenna eitt af mörgum viðfangsefnum Sigurðar, en hann kom um þrjátíu piltum að austan í Lærða skólann í Reykjavík. Annar ríkur þáttur í fari Sigurðar var hagleikur og smíðanáttúra, sem birtist m.a. í tveimur kirkjum sem hann teiknaði og reisti frá grunni, en jafnframt brennandi áhugi hans á samgöngubótum, m.a. með brúagerð. Teikning hans af brú yfir Eyvindará hjá Egilsstöðum ber þessu vitni og ýtti á aðgerðir af hálfu Tryggva Gunnarssonar, sem Sigurður studdi til þingmennsku eystra 1874. Þingeyingar með Tryggva á fararbroddi komu af stað Gránufélaginu, sem Sigurður ruddi svo brautina fyrir eystra með miðstöð á Vestdalseyri við Seyðisfjörð. Sigurður Gunnarsson var mikill ferðagarpur og í seinni tíð voru það ritgerðir hans um öræfi Íslands og óbyggðir sem menn einkum tengdu við nafn hans og vöktu athygli. Á því sviði var hann brautryðjandi sem Þorvaldur Thoroddsen minnist víða á í ritum sínum. Ferðar Sigurðar með læriföðurnum Birni Gunnlaugssyni um Vonarskarð og upp í Bárðarbungu 1839 hefur verið minnst af mörgum. Á eftir fylgdu ritgerðir um óbyggðir Íslands og miðlandsöræfin. Ein slík áður óbirt frásögn hans um Vatnajökulsveg, samin fyrir Danann Kristian Kålund 1874, kemur hér fyrir almenningssjónir. Kortameistarinn Guðmundur Ó Ingvarsson hefur lagt mikið til bókarinnar, sem hér er kynnt, með uppdráttum, m.a. af ferðaleiðum Sigurðar, og hann hefur gefið útgáfunni alla þá vinnu sína til heiðurs Sigurði. Hjörleifur Guttormsson |