Hjörleifur Guttormsson 13. október 2024

Þakkarorð við móttöku menningarverðlauna SSA 27. sept. 2024

Kæru sveitarstjórnarmenn og aðrir viðstaddir.
Það kom mér sannarlega á óvart þegar Dagný Ýr framkvæmdastjóri ykkar greindi mér frá ákvörðun um að sæma mig menningarverðlaunum SSA. Ég hef vissulega lengi átt í margháttuðum samskiptum við sveitarfélög hér eystra og samtök ykkar um margháttuð félags- og menningarmál og það samstarf hefur borið sinn ávöxt.
Sveitarfélögum á Fljótsdalshéraði kynntist ég m.a. í æsku af störfum föður míns, en hann var bæði í hreppsnefnd og skólanefnd í Vallahreppi, í skólanefndinni reyndar í nær hálfa öld. Móðir mín helgaði sig kvenfélaginu og var formaður þess í tvo áratugi.

Kristínu konu minni á ég það að þakka að hafa síðar kynnst sjávarsíðunni með 42ja ára búsetu okkar í Neskaupstað í framhaldi af heimkomu okkar 1963 að loknu háskólanámi í Leipzig.

Þrjú málefni á menningarsviði leiddu til náinna samskipta minna við sveitarfélögin hér austanlands: 1) Málefni safna með samþykkt SSA á tillögum um Safnastofnun Austurlands, sem starfaði hér eystra í aldarþriðjung (1972‒2002).  2) Skólamál á framhaldsskólastigi í  aðdraganda að stofnun Menntaskólans á Egilsstöðum og Verkmenntaskóla Austurlands. 3) Víðtæk náttúruvernd á vegum Náttúruverndarsamtaka Austurlands og einstakra sveitarfélaga. Tengdist hún einnig aðild minni að Náttúruverndarráði á sjöunda áratugnum. Stærsta átakið á því sviði var stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs í framhaldi af samþykkt Alþingis á tillögu minni í þinglok á Alþingi 1999.

Þessu til viðbótar er rétta að nefna fornleifaskráningu á ýmsum svæðum hér á Austurlandi með faglegri aðstoð systranna Guðnýjar og Bryndísar Zoëga. Til þeirrar skráningar fékk ég fjárstyrki frá Minjavernd ríkisins og einstökum sveitarfélögum.

Góðir fundarmenn. Ég neita því ekki að ég hefði almennt viljað sjá aðra skipan sveitarstjórnarmála en nú er, m.a. með fylkjaskipan á þriðja sjórnsýslustigi. Um sveitarstjórnarmálin flutti ég heildtætt frumvarp 1985, þegar sýslur og kaupstaðir voru afnumin, en það fékk ekki nægan stuðning á Alþingi. Um hið liðna þýðir ekki að fást, en framtíðin sker úr um hvað verður.

Ég þakka margháttað og gjöfult samstarf við sveitarfélög hér eystra á liðinni tíð og óska ykkur og landi okkar óskoraðs fullveldis og farsældar.

Hjörleifur Guttormsson



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim