| Hjörleifur Guttormsson | 14. maí 2025 |
| Minningar frá dögum seinni heimsstyrjaldar Fjölmiðlar og forystumenn ríkja heims hafa eðlilega verið að minnast stríðsloka fyrir 80 árum, en þeim fer fækkandi sem upplifðu þann atburð eða hafa hann í fersku minni. Sá sem hér heldur á penna var á 10. ári þegar heimsstyrjöldinni í Evrópu lauk vorið 1945 og fáum mánuðum síðar komst á friður í Asíu í skugga kjarnorkuspenginga. Ég minnist frétta um upphaf stríðsins 1939, en ég varð fjögurra ára það haust. Síðan fylgdist ég daglega með framvindu styrjaldarinnar eftir að gott útvarp af Philipsgerð var keypt fyrir heimilið á Hallormsstað vorið 1940. Í þessu útvarpi náðust auk Ríkisútvarpsins erlendar stöðvar, m.a. Kalundborg í Danmörku, BBC og Berlín. Þetta nýja töfratæki var staðsett í Stórustofu, en á bænum var hversdagslega matast í eldhúsi. Ég fékk kornungur það hluverk að fylgjast með hádegisfréttum og endursegja síðan aðalatriði þeirra við matborðið í eldhúsinu. Góð landabréf voru til á heimilinu og voru þau óspart notuð til að fylgjast með gangi stríðsins. Er á leið voru dregnar upp víglínur á kortin, m.a. af „austurvígstöðvunum“ sem svo voru kallaðar og einnig Frakklandsmegin áður lauk og innan sjálfs Þýskalands. Frændur í Þýskalandsferð vorið 1939 Umræða um gang stríðsins heima fyrir á Hallormsstað litaðist nokkuð af því að faðir minn og Gunnar Gunnarsson skáld, sem voru þremenningar, höfðu í aprílmánuði 1939 ferðast saman í nær tvær vikur um Þýskaland ásamt Franziscu konu Gunnars og Úlfi syni þeirra. Gunnar bjó sig undir að flytjast heim frá Danmörku og setjast að á Skriðuklaustri það sama ár. Þann 3. apríl hittu þeir Fritz Höger arkitekt. Þar var farið yfir „frumriss“ Högers af fyrirhuguðu íbúðarhúsi á Skriðuklaustri sem lokið var við að teikna litlu síðar og reist var þar um sumarið af fjölda aðkominna. (Sjá grein mína í tímaritinu Múlaþingi 45 – 2023: Aðdragandinn að byggingu Gunnarshúss á Skriðuklaustri. Bls. 7-39) Ólík sýn þeirra frænda, Gunnars skálds og föður míns, til Þýskalands þessa tíma kemur m.a. fram í bréfum þeirra, en viðhorf Gunnars, sem lengi var hliðhollur Þjóðverjum, áttu þó eftir að breytast er frá leið. Hernámið í minningunni Á Fljótsdalshéraði urðu menn lítið beinlínis varir við breska herliðið, sem kom til Íslands 10. maí 1940. Annað var uppi á Reyðarfirði og Seyðisfirði, sem strax urðu helstu bækistöðvar þess eystra en þangað sóttu Héraðsbúar líka helstu viðskipti sín. Þangað fórum við Gunnar tvíburabróðir minn með foreldrum okkar og Hrafni Sveinbjarnarsyni ráðsmanni við Húsmæðraskólann sem bílstjóra. Á Reyðarfirði átti faðir okkar erindi í Kaupfélagið, en við biðum í bílnum á torginu upp af bryggjunni á meðan. Þar blasti við okkur umferð fjölda hermanna og farartækja þeirra, m.a. beltisbíla sem við töldum vera skriðdreka. Hellirigning og forareðja kryddar þessa sýn í minningunni. ‒ Frá Reyðarfirði var haldið á Eskifjörð og gist hjá skyldfólki. Þar sást ekki hermaður á ferli, utan vaktmaður við pósthúsið, en úti fyrir mynni Reyðarfjarðar dólaði stórt herskip. Munurinn á þessum tveimur þorpum var mikill, einnig lengi eftir að stríði og hernámi lauk. Bretarnir kveðja að ári Rösku ári eftir hernám Breta ákvað Roosevelt forseti að Bandaríkin skyldu taka við hervörslu á Íslandi. Breskir hermenn á Reyðarfirði fengu þá í kveðjuskyni leyfi til að skreppa upp í Hallormsstað og tjalda þar næturlangt. Fylgdumst við álengdar með þegar liðsveitin brunaði hjá inn í rjóður í skóginum sunnan bæjar og kveikti þar elda í viðarleifum. Páll bróðir, verkstjóri í gróðrarstöðinni, reyndi næturlangt að vakta þar áhaldageymslu en dátar komust samt í hana og höfðu á burt með sér gúmmimottur. Meiri spjöll voru þar ekki unnin. Heimsóknir á Seyðisfjörð Til Seyðisfjarðar kom fyrsti breski herflokkurinn 21. maí 1940, 45 manna fótgöngulið sem síðan var leyst af hólmi í júnílok af fjölmennum hersveitum. Þær hreiðruðu um sig aðalllega á þrem stöðum: Strönd að sunnanverðu, Fjarðaröldu fyrir botni og á Vestdalseyri. Voru fljótlega reistir þarna 140 hermannaskálar auk þess sem herinn tók til sinna nota mörg íbúðarhús. Framan af voru hér aðeins breskir dátar, og fyrst haustið 1942 komu þangað um 800 bandarískir hermenn, sem leystu þorra Bretanna af hólmi, nema starfsmenn flotans. Þýskar sprengjuflugvélar voru tíðir gestir yfir Seyðisfirði, vörpuðu m.a. sprengjum á íbúðarhús og særðu drengi að leik á fjörukambi. Það gerist svo 10. febrúar 1944 að þrjár þýskar sprengjuflugvélar gerðu atlögu að olíubirgðaskipinu El Grillo þannig að það sökk með mikið magn af svartolíu, sem fyrst var fjarlægð um síðustu aldamót. Urðu áhrif hernámsáranna afdrifarík fyrir Seyðisfjörð, íbúum fækkaði og búseta á Eyrum og Vestdalseyri lagðist að mestu af. ‒ Við systkini frá Hallormsstað komum tvívegis á Seyðisfjörð með foreldrum okkar á stríðsárunum og gistum þar hjá Hjálmari Vilhjálmssyni sýslumanni. Í kaupstaðnum var margt forvitnilegt að skoða fyrir sveitabörn og tókust góð kynni með jafnöldrum. Ekki vissi ég þá að ég ætti eftir að njóta 70 ára búsetu á Austurlandi og heimsækja þar byggðir og óbyggðir lengst af ævinnar. Hjörleifur Guttormsson |
|