Hjörleifur Guttormsson | 18. ágúst 2025 |
Verður Palestína brátt sjálfstætt ríki við hlið Ísraels? Fátt hefur sett svip sinn jafn mikið og lengi á alþjóðastjórnmál eftirstríðsáranna og einhliða þróun Ísraelsríkis á kostnað þjóðarbrota sem þar bjuggu fyrir. Árið 1947 féllust Sameinuðu þjóðirnar á skiptingu Palestínu, þá stórs landsvæðis fyrir botni Miðjarðarhafs sem á millistríðsárunum hafði verið undir stjórn Breta í umboði Þjóðabandalagsins. Þetta svæði skiptist nú á milli Ísraels og heimastjórnarsvæða Palestínumanna. Gyðingar sem um aldir höfðu dreifst víða um heim tóku að flytjast þangað á 19. öld. Heitið Ísrael var fyrst tekið upp af forystumönnum Gyðinga samhliða fengnu sjálfstæði 1948. Palestína varð hinsvegar til sem ríkishugmynd í áföngum 1974-1988, þá ásamt með heimastjórn, sem réði ýmsum málum á Gasaströndinni og Vesturbakkanum. Stjórn þessi klofnaði eftir að Hamassamtökin náðu forystu á Gasa. Leiðtogar þeirra hafa hafnað tilvist Ísraelsríkis, sem skýrir að nokkru heiftina, sem þarna ríkir í milli. 6-daga stríðið 1967 Deilur og átök um framtíð Ísraels og Palestínu settu mark sitt á alþjóðaumræðu einkum eftir 6-daga stríðið svonefnda vorið 1967 milli Ísraels annars vegar og Egyptalands, Jórdaníu og Sýrlands hins vegar. Nasser þá Egyptalandsforseti hafði yfirtekið Sínaískaga og lokað Tíran-sundi fyrir skipum undir fána Ísraels eða sem fluttu þangað efni til hergagnaframleiðslu. Þrátt fyrir mikinn liðsmun fór Ísrael með sigur af hólmi í þessum skammvinnu en snörpu átökum og náði Ísrael í kjölfarið yfirráðum yfir Sínaí-skaga, Gaza-svæðinu, Vesturbakka Jórdanár, Austur-Jerúsalem og Gólanhæðum. Hernaðarlegir yfirburðir Ísraels reyndust miklir og mannfall í röðum andstæðinga þeirra margfalt meira. Afleiðingar þessa stríðs hafa allt til þessa dags haft margvísleg áhrif á stjórnmál Miðausturlanda. Ítarleg tillaga á Alþingi 1988 Haustið 1988 flutti undirritaður ásamt Kristínu Einarsdóttur frá Kvennalistanum og Páli Péturssyni þingmanni Framsóknar tillögu til þingsályktunar um deilur Ísraels og Palestínumanna. Þar sagði m.a.: „Alþingi ályktar að lýsa áhyggjum sínum yfir því ástandi sem ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs og telur það stöðuga ógnun við heimsfriðinn. – Alþingi fordæmir síendurtekin mannréttindabrot Ísraelsstjórnar gagnvart Palestínumönnum að undanförnu og leggur áherslu á að ísraelsk stjórnvöld virði Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og 4. Genfarsáttmálann um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum. – Alþingi styður kröfuna um að tafarlaust verði haldin alþjóðleg friðarráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna með þátttöku allra deiluaðila og telur að Ísland eigi að bjóðast til að vera gestgjafi slíkrar ráðstefnu. – Alþingi leggur áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og rétt hennar til að stofna eigin ríki ... um leið og viðurkenndur er tilveruréttur Ísraelsríkis innan öruggra landamæra. ... Alþingi felur ríkisstjórninni að framfylgja ofangreindri stefnu og viðurkenna Frelsissamtök Palestínu, PLO , sem málsvara palestínsku þjóðarinnar.“ Ályktun þessari var vísað til utanríkismálanefndar Alþingis sem fjallaði ítarlega um hana og afgreiddi hana efnislega með nokkrum orðalagsbreytingum 18. maí 1989. Forganga íslenskra stjórnmálamanna Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra 1988-1991, sýndi málefnum Ísraels og Palestínu mikinn áhuga. Hann endurspeglaðist í sérstakri heimsókn Steingríms á fund Arafats forseta, leiðtoga Palestínumanna, í maí 1990. Arafat hafði þá aðsetur með útlagastjórn sinni í Túnis. Þessi heimsókn Steingríms var einstæð, þar eð hann varð þá fyrstur vestrænna þjóðarleiðtoga til að rjúfa múrinn gagnvart Palestínu. Það gerðist síðan árið 2011 að Alþingi ályktaði samhljóða að viðurkenna bæri Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki og áréttaði um leið rétt palestínsks flóttafólks til að snúa heim aftur. Forystu um þetta hafði þáverandi utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson. Þorgerður Katrín einörð með Palestínu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir það merki um þrot í alþjóðasamfélaginu að ekki hafi verið stigið fyrr inn til að bregðast við hörmungunum á Gaza. Í sameiginlegri yfirlýsingu Íslands og sjö annarra ríkja, þar sem ákvörðun Ísraels um að útvíkka hernaðaraðgerðir á Gaza er fordæmd, segir að henni sé ætlaðsé ætlað að setja þrýsting á Ísrael, sem Þorgerður segir löngu tímabært. „Mér [finnst] þetta vera pínulítið þrot í alþjóðasamfélaginu að hafa ekki getað stigið inn fyrr. Því hvað er undir? Það er búið að drepa meira en 55 þúsund manns á Gaza,“ sagði Þorgerður Katrín. Og í kvöldfréttum Sjónvarps 9. ágúst sl. sagði hún: „Það er verið að setja þrýsting á Ísrael. Við erum að tala um tafarlaust vopnahlé, að gíslum verði strax sleppt skilyrðislaust og að uppbygging Palestínu verði ekki með Hamas. Um leið erum við að segja að með þessari fyrirætlan Ísraela að taka yfir Gaza, þá fer það í fyrsta lagi gegn alþjóðalögum, en ekki síður hitt að það fer gegn þeirri tveggja ríkja lausn sem þessi hópur og miklu fleiri styðja.“ ... Hér hefur verið stiklað á afstöðu Alþingis og íslenskra stjórnmálamanna til tveggja ríkja lausnar í málefnum Ísraelsríkis og Palestínu. Sú afstaða ber vott um samkvæmni og einurð, sem er forsenda farsællrar niðurstöðu. Hjörleifur Guttormsson |