Hjörleifur Guttormsson 22. desember 2025

Jólahald á Hallormsstað um miðja síðustu öld

Jólin sem miðsvetrarhátíð minna nú á sig með allt öðrum hætti en gerðist fyrir um einni öld, bæði að inntaki og umsvifum sem þeim tengjast í samfélaginu. Sá sem hér heldur á penna upplifði í æsku jólahátíð austur á Hallormsstað á Fljótsdalshéraði. Þar var kirkjustaður frá fornu fari, en lagðist af sem prestssetur og sjálfstæð sókn árið 1880. Var síðasta kirkjan þar rifin árið 1895, en  eftir stendur vel hirtur kirkjugarður. Við hlið hans er íbúðarhúsið, byggt af  Páli Vigfússyni afa mínum 1884, þ.e. fyrir 141 ári, ásamt viðbyggingu frá árinu 1928. Hvorttveggja er enn sem fyrr heimili skógarvarðar Austurlands. Þeirri stöðu gegndi Guttormur faðir minn í nær hálfa öld (1909‒1955) og þar ólust upp börn hans 9 talsins  úr tveimur hjónaböndum, þeirra á meðal höfundur þessa pistils. Þar var ég í heiminn borinn sem tvíburi haustið 1935 ásamt með Gunnari bróður og erum við tveir enn á lífi.

Húsmæðraskóli auk skógræktar og búskapar

Hallormsstaður var frá fornu fari einbýlisjörð, en við bættist haustið 1930 húsmæðraskóli, byggður að frumkvæði föðursystur minnar Sigrúnar Pálsdóttur Blöndal og Benedikts Blöndals eiginmanns hennar. Hefur hann síðan starfað óslitið, nú sem ókynbundin fræðslustofnun tengd Háskóla Íslands og með skapandi sjálfbærni að meginverkefni. Þar stunduðu um áratugi hátt í 30 stúlkur tveggja vetra húsmæðranám og var skólahúsið jafnframt heimavist þeirra. Komu námsmeyjar víða að af landinu og vegna samgönguaðstæðna hélt drjúgur hluti þeirra þar kyrru fyrir í tveggja vikna jólafríi. Benedikt og Hrafn Sveinbjarnarson, ráðsmaður skólabúsins frá 1940, starfræktu bókaverslun  í kjallara skólans. Var að henni mikill menningarauki. Eðlilega voru náin tengsl milli  skóla og heimilis skógarvarðar „niðri á bæ“ þar sem frá 1930 var starfrækt símstöð. Sóttu hana tíðum námsmeyjar til að hringja heim, óbundnar þar af nálægð við kennara sína.

Samgöngur og verslun fyrri tíðar

Bílfær vegur náði frá Egilsstöðum inn í Hallormsstað á árinu 1930, sama ár og Húsmæðraskólinn tók til starfa;  oft fór báturinn Lagarfljótsormurinn inn eftir fljótinu að sumarlagi. Yfir hásumarið fluttu líka áætlunarbílar (rútur) fólk og vörur frá Seyðisfirði, Reyðarfirði og Eskifirði upp í Hallormsstað þar sem vinsælt gistihús var starfrækt í skólanum frá og með árinu 1931. Um miðja öldina voru einkabílar fáir í almannaeigu eystra, en umferð slíkra frá Reykjavík um Akureyri fór vaxandi og tengdist oft tjöldun og samkomuhaldi í Atlavík. Fyrsta samkoman þar á 20. öld mun hafa verið haldin árið 1909 og lengi árvisst frá 1937  fram eftir öldinni. Frá Hallormsstað og víðast hvar af Héraði var verslun sótt til fjarða, uns árið 1946 að útibú frá Kaupfélagi Héraðsbúa á Reyðarfirði var opnað á Egilsstöðum þar sem þéttbýlismyndun var þá að hefjast.

Jólahald heima fyrir

Sá sem þetta ritar varð 5 ára 1940 og minnist vel jólanna heima sem voru í allföstum skorðum fram um 1950 að haldið var í framhaldsnám á Akureyri. Líklega var eitthvað meira lagt í jólahald  heima en venja var til um þetta leyti í sveitum. Faðir minn hafði dvalið við nám og starf í Danmörku 1905-1908 og systir hans Sigrún Blöndal um svipað leyti og síðar. Einnig hafði Guðrún Pálsdóttir móðir mín haft kynni af Danmörku eftir dvöl sína þar árið 1926.
Sem annars staðar hófst undirbúningur jólanna heima fyrir með aðdrætti úr kaupstað og hreingerningu hátt og lágt. Útskurður á laufabrauði var fastur liður sem og bakstur á kökum í ýmsu formi, m.a. skornar út dýramyndir til að skreyta með jólatréð.
Halda mætti að á skógarjörðinni Hallormstað hafi grenitré þótt sjálfsagt þar heima fyrir á jólum, en svo var ekki. Stundum var notast við stæðilegt birki og það skreytt afskornum grenigreinum. Ástæða þessa var hversu fátt var þá enn um barrtré í Hallormsstaðaskógi og skógarvörðurinn faðir minn sá á eftir hverju slíku sem höggvið var.

Sjálft jólahaldið

Eftir ríkulegan kvöldverð í Stórustofu voru bornar fram  jólagjafir, eitthvað fyrir alla, einkum fatnaður og bækur. Litið var „upp í kompu“ til Einars gamla Long sem fæddur var á Hólum í Norðfirði 1869. Eftir að gjafir höfðu verið  skoðaðar var tími kominn á  jólatréð sem oftast var sett upp í Litlustofu, þar sem hægt hafði verið að skreyta það í næði. Kveikt  var „á trénu“,  haldist í hendur og dansað kringum það, sungin ættjarðarlög og stöku sálmar. Í hléi gæddu menn sér á sælgæti úr jólapokum, sem stundum höfðu verið númeraðir og þá dregið um hver fengi hvern.
Síðla á aðfangadagskvöldi las faðir okkar  húslestur, og er árin liðu fengum við börn oft hlutverk í  slíkum upplestri. Fram var síðan borið kaffi og kökur og eftir miðnætti gengið til náða í skreyttum svefnherbergjum.
Á jóladagsmorgni fengum við börn að sofa út, einnig eftir að mjaltir voru annars  komnar í hlut okkar tvíbura. Móðir okkar eða eldri  bræður sáu þá um morgunmjaltir. Jólasteik var fram borin í Stórustofu um hádegisbil og á eftir spilað þar púkk upp á baunir í stað lausra aura. Á annan dag jóla tók svo við lestur nýrra bóka og um kvöldið var farið í hefðbundna veislu og leiki uppi í Húsmæðraskóla.  

Áramót og Þrettándinn.  

Safnað var í bálköst á kletti ofan við túnið á Hallormsstað þar sem nú er hótel. Þar var dregið saman birki sem stofn í brennu og stundum bættust við hjólbarðar frá Hrafni. Skólameyjar og aðrir þyrptust á staðinn, dansaður var hringdans og sungið kringum eldinn.
Þrettándanum fylgdi boð upp í Húsó, líka fyrir fólk af nágrannabæjum allt frá Buðlungavöllum út í Mjóanes. Þar var gengið og sungið kringum stórt og fagurskreytt jólatré. Á eftir fylgdu veitingar, ávörp og spjall um komandi tíð.

Þannig liðu árin í leik og starfi á æskuheimili mínu.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim