| Hjörleifur Guttormsson | 25. júní 2025 |
| Ávarp við skólaslit Menntaskólans á Akureyri 17. júní 2025, Háttvirta samkoma, skólameistari og aðrir viðstaddir. Ég mæli hér nokkur orð fyrir hönd okkar MA-stúdenta árið 1955. Við minnumst hér líka frábærra kennara okkar, sumra sérkennilegra sem vera ber. Alls útskrifuðust þá 44 nemendur, 24 úr máladeild og 20 úr stærðfræðideild. Í þessum hópi voru alls 15 konur eða rétt um þriðjungur, þar af aðeins þrjár í stærðfræðideildinni. Alls 14 manns af þessum hópi eða tæpur þriðjungur mun nú vera á lífi (8 úr máladeild og 6 úr stærðfræðideild). Hér eru hins vegar aðeins fjórir úr þessum árgangi viðstaddir, allt karlar úr stærðfræðideildinni, þ.e. ásamt mér Gunnar Gunnlaugsson læknir og verkfræðingarnir Haukur Frímannsson frá Dalvík og Akureyringurinn Júlíus Sólnes. Fyrir viku hitti ég á Egilsstöðum Helga Hallgrímsson bekkjarfélaga okkar, tiltölulega hressan og með bókarhandrit um Íslenskar blómplöntur fullbúið til prentunar. Nokkur úr okkar árgangi voru síðar búsett erlendis, þ.e. Eyvindur Eiríksson sem enn er í Noregi og Huld Gísladóttir sem var í Englandi, en hún lést síðastliðinn vetur. Einnig voru lengst af ytra Hólmgeir Jónsson, Þorleifur Matthíasson og Guðný Margrét Sveinsdóttir, sem öll eru látin. Snemma fórust af slysförum úr okkar hópi 2 bekkjarfélagar, þ.e. Sigurður Jóhannsson, þá við nám í Þýskalandi, og Hólmsteinn Valdimarsson að störfum í Skagafirði. Góð samheldni hefur alla tíð verið í okkar hóp, með samkomum og málsverðum sem oft hefur verið efnt til í Reykjavík, stöku ferðalögum um landið og viðkomu hér nyrðra, einkum á stórafmælum skólans. Forusta fyrir árgangi okkar hefur lengi verið í höndum Júlíusar Sólness og Önnu Lilju Kvaran, sem bæði ólust upp hér á Akureyri. Um helmingur stúdentahóps okkar voru Norðlendingar, flestir frá Akureyri og grennd, en nokkrir komu frá öðrum landshlutum, m.a. 5 frá Vestfjörðum og 4 frá Austurlandi. Þeir sem langt voru að komnir bjuggu flestir í heimavist MA, sem þá var sumpart enn í gamla skólanum. Sá sem hér talar var þar t.d. í tvo vetur. Síðasta skólaárið var ég hins vegar í leiguhúsnæði úti í bæ, „til að geta þjónað betur flokknum“, eins og Þórarinn skólameistari orðaði það við bekkjarfélaga mína. Minningar mínar frá dvölinni hér nyrðra leita enn oft á hugann. Við vorum 5 talsins úr mínum systkinahópi á Hallormsstað, sem hér nutum skólavistar. Um reynsluna af dvölinni hér skrifaði ég grein í ritið Minningar úr menntaskólanum á Akureyri, sem út kom árið 2000. Á áttunda áratugnum, þ.e. árin 1973-1979, var ég formaður bygginganefndar þá væntanlegs menntaskóla á Egilsstöðum. Þar kom reynsla af dvölinni hér nyrðra og kynnin af MA að góðu gagni. Fyrir hönd okkar sjötíu ára stúdenta flyt ég Menntaskólanum á Akureyri, skólameistara, kennurum og nemendum bestu árnaðaróskir og þakkir fyrir liðna tíð. Hjörleifur Guttormsson |
|