Hjörleifur Guttormsson | 29. september 2025 |
COP-30: Mikilvægur fundur Loftslagsráðs SÞ í Brasilíu i nóvember Margt er að gerast á alþjóðasviðinu þessi árin, vaxandi spenna í samskiptum þjóða og breytingar í umhverfi jarðar af mannavöldum. Um 30 ára skeið hafa árlegir fundir um loftslagsmál verið tilefni frétta og umræðu um breytingar í umhverfi okkar. Þeir eru ávöxtur loftslagssamnings sem innsiglaður var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Rio de Janeiro 1992 og flestar þjóðir heims hafa síðan gerst formlegir aðilar að. Það var ánægjulegt að fylgjast með þeim stóra áfanga og þar var sem áhugamaður viðstaddur Halldór Þorgeirsson, nú lengi ötull formaður í Loftslagsráði Íslands. Frá árinu 1995 hefur árlegur fundur heimssamtaka um að stemma stigu við loftslagsbreytingum af mannavöldum þótt fréttnæmur, sérstaklega eftir tilkomu Parísarsamningsins frá 2015. Þar hafa fulltrúar heimsbyggðarinnar tekist á um stefnu og aðgerðir til að draga úr þeim voða af hækkuðu hitastigi, sem mannkynið hefur stofnað til með brennslu jarðefnaeldsneytis, kola og olíuafurða. Gróðureldar afleiðing hlýnunar Síðustu ár með stórfelldum gróðureldum víða um heim eru táknræn fyrir þann voða sem manngerð hlýnun jarðar mun valda í flestum heimshornum verði hún ekki stöðvuð fyrr en seinna. Þar setur Parísarsamkomulagið frá árinu 2015 fram það markmið að stöðva hækkun meðalhita við 1,5‒2 gráður á Celcíus. Það mark færist nú hraðfara nær okkur og raunar langt umfram meðaltal á norðlægum slóðum að talið er. Antonio Guteres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur verið óþreytandi að vara við aðsteðjandi háska. Fyrir þrem árum sagði hann: „Ef stjórnvöld hvarvetna breyta ekki á næstunni um stefnu í orkumálum, verður jörðin óbyggileg.“ Síðan hefur hlýnunin færst í aukana. Þrátt fyrir það hefur reynst erfitt að skapa samstöðu um aðgerðir á árlegum COP-fundum. Þrír þeir síðustu hafa verið haldnir í múslimaríkjum: Í Egyptalandi 2027, í Dubai 2028 og 2029 í Bakú í Azerbajan. Á þeim síðastnefnda þótti helsti ávinningurinn vera að þrefalda ráðgerð framlög þróunarríkja til loftslagsaðgerða í fátækari löndum. Öll eru áðurnefnd lönd meira og minna háð olíuframleiðslu, sem skýrir að nokkru erfiðan bakgrunn þessara ársfunda. Trump njörvaður í andstöðu Bandaríkin gerðust aðildar að Parísarsamningum þegar árið 2016 í tíð Baracks Obama sem forseta. Trump sem við tók sagði sig brátt frá þeim samningi og tók ákvörðun hans sem forseta gildi árið 2020. Biden ógilti hins vegar sem næsti forseti þá ákvörðun Trumps. Eftir endurkjör sitt gaf Trump út endurnýjaða úrsögn úr loftslagssamningnum þegar í janúar 2025 (Executive Order 14162). Samkvæmt ákvæðum Parísarsáttmálans (28. grein) skal formleg úrsögn fyrst taka gildi ári eftir slíka pólitíska ákvörðun eða síðar, þ.e.í fyrsta lagi í byrjun næsta árs. Bandaríkin eru þannig að formi til enn aðilar að loftslagssamningnum. Ýmsir bjuggust við að einhver ríki myndu feta í fótspor Bandaríkanna og segja sig frá Parísarsáttmálanum, en sú hefur ekki orðið raunin. Mat manna á áhrifum úrsagnar Bandaríkjanna á losun gróðurhúsalofts þarlendis er mismunandi. Ýmsir telja ekki víst að þau leiði til aukinnar losunar. Þar kemur margt til, m.a. viðhorf og ákvarðanir Bandaríkjaþings sem og almennings þarlendis á næstu árum. Röðin komin að Brasilíu Nú þrjátíu árum eftir fyrstu COP-ráðstefnuna sem haldin var í Berlín árið 1995 er röðin komin að Brasilíu að hýsa og standa að árlegum fundi þessa afkvæmis Ríó-ráðstefnunnar 1992. Þarlend stjórvöld beindu sjónum að borginni Belém við ósa Amasónfljóts til að taka við þessum afdrifaríka fundi. Það er skiljanleg ákvörðun í ljósi af áhyggjum og hörðum deilum innanlands um meðferð á frumskógum Amasónsvæðisins. Nú hefur hins vegar komið í ljós að ytri aðstæður til að halda þar slíka alþjóðaráðstefnu eru erfiðar og takmarkað gistirými til að halda ráðstefnu sem gæti dregið að sér 50 þúsund þátttakendur. Verð á gistirými í hótelum hefur rokið upp úr öllu valdi og svipað er að gerast með risaferjur sem brúa eiga bilið með gistingu. Hætt er við að fátæk ríki gefi frá sér þátttöku í slíku okri, sem sagt er nema 600 dollurum nóttin fyrir hvert svefnpláss. Staða Brasilíu í orkumálum er heldur ekki talin til fyrirmyndar, þar sem hlutur jarðefnaeldsneytis hefur farið vaxandi. Á þessu ári hafa brasilísk orkuyfirvöld boðið út hátt á annað hundrað olíuvinnslusvæði, meirihluta þeirra á hafi úti við strendur landsins. Takmörkuð þátttaka þróunarlanda af kostnaðarástæðum getur dregið úr æskilegu svipmóti Belém-ráðstefnunnar, en mikilvægt er að dagskrá hennar standi efnislega undir réttum ákvörðunum sem flýtt geti fyrir samdrætti í losun gróðurhúsalofts. Hjörleifur Guttormsson |