Að létta öðrum byrðarnar

Þessi orð koma mér í hug þegar Helgi Seljan fyrrum alþingismaður stendur á sjötugu 15. janúar. Hann hefur fengist við fjölmargt um dagana, verið kennari og skólastjóri, bóndi og verkalýðsforingi, sveitarstjórnarmaður og alþingismaður, félagsmálagarpur af áhuga og atvinnu, bindindisfrömuður af lífi og sál, áhugaleikari og skemmtikraftur. Er þá aðeins tæpt á nokkru af þeim hlutverkum sem þessi eldhugi hefur tekist á við um dagana. Hann kom til starfa galvaskur með kennarapróf upp á vasann um tvítugsaldur og festi fljótlega ráð sitt. Jóhanna Þóroddsdóttir er lífsförunauturinn og fyllti sjötíu árin fjórum dögum á undan bónda sínum ef marka má þjóðskrá. Þannig hafa þau verið samstiga í hálfa öld, eignuðust fimm mannvænleg börn og afkomendur nú fleiri en ég hafi tölu á. Heimili þeirra á Reyðarfirði stóð öllum opið og margur sem þess fékk að njóta.

Best þekki ég til stjórnmálamannsins Helga Seljan þar eð við áttum náið samstarf um áratugi á Austurlandi og á Alþingi, en hann raunar kominn á sporið með Lúðvík Jósepssyni löngu á undan mér. Fáir hafa náð því í stjórnmálastarfi eins vel og Helgi að vera einarður málafylgjumaður en halda vinfengi og góðu sambandi við pólitíska andstæðinga. Þessara eiginleika naut hann meðal annars í forsetastarfi á Alþingi og í félagsmálastörfum sínum utan þings. Á bak við létta lund og kímnigáfu býr hugsjónamaður sem hefur fylgt þeirri köllun að bæta lífið í kringum sig, beina æskufólki á farsæla braut, tryggja sem flestum mannsæmandi kjör, bóndanum laun erfiðis, lítilmagnanum réttindi og öryrkjanum aðstæður sem sæma vel stæðu þjóðfélagi.

Eftir sextán ára farsælt starf á Alþingi kaus Helgi að hverfa til annarra verka. Hann bað ekki um vegtyllur en valdi sér sjálfur viðfangsefni. Það var mikið happ fyrir Öryrkjabandalagið að fá hann sem liðsmann, fyrst sem félagsmálafulltrúa og síðan framkvæmdastjóra. Einnig þar fylgdi hann vegvísi sínum að freista þess að létta öðrum byrðarnar. Það hefur honum sannarlega tekist af fágætri ósérhlífni og þrautseigju og því berast nú að honum hlýir straumar frá mörgum. Við Kristín sendum þeim hjónum árnaðaróskir á merkum tímamótum.

Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim