Morgunblaðið
Miðvikudaginn 10. desember, 2003 - Baksíða


Undirbúa flóðlýsingu Gullfoss

Flóðlýsing við Gullfoss er nú í undirbúningi. Markmiðið er að hægt verði að skoða fossinn í skammdeginu og lengja þar með ferðamannatímabilið.

Ragnar S.
Morgunblaðið/RAX
Gullfoss er tignarlegur í klakaböndum.


Flóðlýsing við Gullfoss er nú í undirbúningi. Markmiðið er að hægt verði að skoða fossinn í skammdeginu og lengja þar með ferðamannatímabilið. Ragnar S. Ragnarsson, sveitarstjóri í Bláskógabyggð, segir að hugmyndin hafi komið upp við gerð aðalskipulags og hefur byggðaráð Bláskógabyggðar samþykkt hana.
Fjárlaganefnd Alþingis hefur verið send ósk um fjárveitingu vegna
undirbúningsvinnu og hefur þingmönnum Suðurkjördæmis verið kynnt
hugmyndin.

Ragnar segir að unnið sé að þessari hugmynd af fullri alvöru. ,,Fossinn er nánast í myrkri í a.m.k. sex mánuði á ári en þarna koma rútur daglega og fólk kemur þarna á nær öllum tímum. Markmiðið með þessu er að lengja ferðamannatímabilið," segir hann. Að sögn Ragnars er ekki talið að þörf sé á að fram fari mat á umhverfisáhrifum vegna flóðlýsingarinnar.

Í umfjöllun í Bændablaðinu í gær er haft eftir Oddi Þ. Hermannssyni
landslagsarkitekt að koma mætti ljóskösturum þannig fyrir að þeir yrðu
huldir undir vesturbrún gjárinnar. Segist hann sjá fyrir sér að
ljósgeislum yrði beint í fossbrúnina á efri og neðri flúðinni, bjarmi
geislans dæi síðan út í fossflúðirnar og viðhéldi þeirri dulúð sem fossinn býr yfir.

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/pr_grein.html?radnr=731400