Hjörleifur Guttormsson
Mırargötu 37
740 Neskaupstağur
 
 

Álverksmiðja Alcoa verði metin sjálfstætt

Kæra til umhverfisráðherra 20. janúar 2003


Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra
Umhverfisráðuneytinu
Vonarstræti 4
150 Reykjavík

Efni: Kæra vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 20. desember 2002 um matsskyldu allt að 322 þúsund tonna álvers í Reyðarfirði, Fjarðabyggð.

Með vísan til 4. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 kærir undirritaður hér með til umhverfisráðherra ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. desember 2002, þar sem fallið er frá að setja ráðgert álver Alcoa (Fjarðaáls) í mat á umhverfisáhrifum en vísað til fyrri úrskurðar frá 31. ágúst 2001 um mat á álverksmiðju Reyðaráls hf..

Meginkrafa undirritaðs er að umrætt álver Alcoa (Fjarðaáls) verði úrskurðað í sjálfstætt mat á umhverfisáhrifum á grundvelli laga nr. 106/2000.

Rökstuðningur:

  1. Ekki fær staðist sú forsenda Skipulagsstofnunar fyrir úrskurðinum að um sé að ræða breytingu á áður metnu álveri Reyðaráls hf og því er með öllu óheimilt að skjóta sér á bak við lið 13 a í viðauka 2 þar sem fjallað er um “Breytingar og viðbætur við framkvæmdir”, þ. e. framkvæmdir “ ... sem þegar hafa verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.” Álverið sem Alcoa (Fjarðaál) hyggst reisa á Reyðarfirði er óskyld framkvæmd því álveri sem Norsk Hydro (Reyðarál) hafði látið meta á sínum tíma, byggir á allt annarri tækni við framleiðslu og mengunarvarnir og að því stendur óskyldur framkvæmdaraðili.
  2. Við þetta bætist að umræddur úrskurður Skipulagsstofnunar um 420 þúsund tonna álverksmiðju Reyðaráls var ólögmætur, þar eð innifalin í framkvæmdinni var rafskautaverksmiðja, sem bar að meta sjálfstætt, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, en þar er kveðið á um að ef um sé að ræða fleiri en eina matsskylda framkvæmd á sama svæði skuli meta hverja þeirra sérstaklega. Engin ákvörðun ráðherra lá fyrir á þeim tíma sem heimilaði undantekningu frá þessari lögboðnu reglu. - Af þessu leiðir m. a. úrskurðurinn sem Skipulagsstofnun vísar til, dags. 31. ágúst 2001, og segir gilda áfram “ ... að teknu tilliti til breytinga á framkvæmdaáformum” er ekki lögmætur gjörningur. Við þetta bætist hvað efni varðar, að af matsferli álverksmiðju Reyðaráls, þar sem áhrif rafskautaverksmiðju voru sammetin með áhrifum álverksmiðju, verður ekki ráðið um mengunaráhrif hvorrar framkvæmdar um sig, þar eð þeim var hrært saman í matsskýrslu og niðurstöðum Skipulagsstofnunar.
  3. Ekkert verður um það fullyrt án sjálfstæðs mats á 322 þúsund tonna álverksmiðju, hver séu áhrif einstakra mengunarþátta, og það því fremur sem um allt aðra tækni og mengunarvarnir er að ræða.
  4. Af skýrslu þeirri sem Skipulagsstofnun vísar til sem erindis Reyðaráls ehf dags. 22. nóvember 2002 verður ljóst að um sýndarleik er að ræða til þess gerðan að réttlæta sölu Reyðaráls á undirbúningsvinnu og heimildum til Alcoa sem óskylds framkvæmdaraðila, þar með talið framsali á mati á umhverfisáhrifum. Reyðarál er skrifað fyrir erindinu en samanburðarskýrslan (Nóvember 2002) ber síðu fyrir síðu stimpil beggja umræddra framkvæmdaraðila.
  5. Skipulagsstofnun leyfir sér í niðurstöðum sínum 20. des. 2002 að taka sem góða og gilda vöru óljósar staðhæfingar og vangaveltur sóttar til Alcoa um fyrirhugaðar mengunarvarnir. Grófasta dæmið um þetta varðar brennisteinsdíoxíð. Um það segir í niðurstöðu Skipulagsstofnunar (s. 21): “Ekki er gert ráð fyrir vothreinsun heldur verður notuð þurrhreinsun á útblástur frá álverinu. Það mun draga verulega úr styrk mengandi efna í frárennsli frá álverinu að ekki sé gert ráð fyrir förgun kerbrota og vothreinsun. Með lægra innihaldi brennisteinsdíoxíðs í rafskautum (1,5%) og 78 m háum skorsteinum á þurrhreinsivirki hefur verið sýnt fram á að styrkur brennisteinsdíoxíðs verði líklega (sic!) undir umhverfismörkum alls staðar umhverfis álverið.” Hér er um kúvendingu að ræða frá fyrri kröfum um mengunarvarnir álvers Reyðaráls, og þetta atriði eitt og sér hefði verið ærið tilefni til að úrskurða álver Alcoa í sjálfstætt mat lögum samkvæmt. Þau svör sem nefnd samanburðarskýrsla Reyðaráls og Alcoa veitir um þetta efni er sett fram með orðunum “Ákveðið síðar” (Tafla 4. 3., s. 36). Hafa ber í huga að vothreinsun varðar ekki aðeins að dregið sé stórlega úr losun SO2 heldur dregur hún umtalsvert úr losun flúoríðs og ryks frá álverksmiðjum.
  6. Alvara þessa máls að því er loftmengun varðar sést best á því að mörk áður afmarkaðs þynningarsvæðis til vesturs við Hagalæk eru aðeins í um 1 km fjarlægð frá þéttbýlinu á Reyðarfirði. Öllum má vera ljóst hvað hér getur verið í húfi fyrir íbúa kauptúnsins.

Meðfylgjandi eru athugasemdir undirritaðs dags. 25. júní 2001 um mat á umhverfisáhrifum 420 þúsund tonna álverksmiðju á Reyðarfirði. Margt af því sem þar er sett fram heldur gildi sínu, þótt um 322 þúsund tonna álverksmiðju sé að ræða.

Kærandi áskilur sér allan rétt til að koma að frekari gögnum við meðferð málsins.

Virðingarfyllst


Hjörleifur Guttormsson


Meðfylgjandi: Athugasemdir til Skipulagsstofnunar 25. júní 2001 vegna mats á 420 þúsund tonna álverksmiðju á Reyðarfirði.