|
Skipulagsstofnun
Laugavegi 166
105 Reykjavík
Efni: Athugasemdir við mat á stækkun álverksmiðju
ÍSALs í 460 þúsund tonn
Undirritaður gerir eftirfarandi athugasemdir við matsskýrslu
vegna ráðgerðrar stækkunar álverksmiðju
ISALs í Straumsvík um 260 þúsund tonn umfram
núverandi starfsleyfi.
- Ekki er rétt að bæta við heimildir til orkufrekrar
stóriðju á meðan ekki hefur verið mótuð
langtímastefna um nýtingu og verndun orkulinda landsins.
- Stóriðjuver nýta nú yfir 60% af framleiddri
raforku hérlendis og er mest af henni selt til álframleiðslu.
Ekki er skynsamlegt að auka þetta hlutfall og þar með
einhæfni í atvinnustarfsemi og útflutningi frá
Íslandi. Söluverð raforkunnar er nú tengt við
heimsmarkaðsverð áls sem er háð miklum sveiflum.
- Fjárfesting á bak við hvert starf í þungaiðnaði
eins og álvinnslu er afar mikil. Gert er ráð fyrir
að aðeins bætist við 350 störf eftir umrædda
stækkun. Horfa ber til annarra kosta í atvinnuþróun,
ekki síst tengdum þekkingariðnaði..
- Mikil og skaðleg mengun hlýst af umræddri stækkun
og langt frá því að gert sé ráð
fyrir að notuð sé við framleiðsluna besta fáanleg
tækni. Sést það m. a. af því að
gert er ráð fyrir heildarflúrorlosun 0,5 kg/tn Al
á sama tíma og auðvelt er með núverandi
tækni að ná slíkri losun niður í
helming þess magns eða lægra. Rykmengun er áætluð
1 kg/tn Al, einnig langt umfram það sem unnt er að ná
með bestu fáanlegri tækni, m.a. tengdri vothreinsun.
Þá er ekki gert ráð fyrir vothreinsun og leiðir
það til tíu sinnum meiri mengunar af S02 en vera þyrfti
svo og meiri ryk og flúormengunar.
- Losun gróðurhúsalofttegunda ykist í hlutfalli
við framleiðsluaukningu verksmiðjunnar og yrði skv.
matsskýrslu 805 þúsund tonn á ári
eftir stækkun. Ótækt er að heimila slíka
losun, hvað þá endurgjaldslaust, eins og gert virðist
ráð fyrir og mismuna með því atvinnugreinum
og íþyngja almenningi sem tekur á sig skuldbindingar
samkvæmt Kyótóbókuninni.
- Matsskýrsla gerir ráð fyrir að kerbrot verði
urðuð sem hingað til í flæðigryfjum. Slík
urðun getur verið skaðleg fyrir lífríki sjávar
og ætti ekki að þekkjast.
- Ekki er ráðlegt að auka framleiðsluheimildir mengandi
stóriðjuvers eins og hér um ræðir rétt
við mörk þéttbýlis með þeirri
fjölþættu umhverfisröskun sem það hefði
í för með sér, þar á meðal vegna
hávaðamengunar við byggingarframkvæmdir og starfsrækslu.
Virðingarfyllst
Hjörleifur Guttormsson
kt.311035-6659
|