Hjörleifur Guttormsson
Mýrargötu 37
740 Neskaupstaður
8. júní 2002
 

Skipulagsstofnun
Laugavegi 166
105 Reykjavík

Efni: Athugasemdir við mat Landsvirkjunar á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu.

Undirritaður hefur kynnt sér skýrslu Landsvirkjunar um mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu sunnan Hofsjökuls og gerir af tilefni hennar eftirfarandi athugasemdir.

  1. Með fyrirhugaðri framkvæmd er fyrirhugað að raska meira en orðið er einni dýrmætustu náttúruperlu á hálendi Íslands, sem þegar er friðlýst og víðtæk samstaða hefur verið um til þessa að vernda beri ósnortna um alla framtíð.
  2. Rök Landsvirkjunar fyrir framkvæmdinni eins og þau birtast í matsskýrslu (bls. 174) eru léttvæg, en þar segir: "Landsvirkjun á í harðri alþjóðlegri samkeppni um orkusölu til nýrra stóriðjuvera. Norðlingaölduveita sem er ein hagkvæmasta framkvæmd sem Landsvirkjun hefur undirbúið er m. a. liður í að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækisins á þessum markaði."
  3. Augljóst er að umrætt miðlunarlón myndi hafa umtalsverð umhverfisáhrif á vistkerfi Þjórsárvera, gróður, rústir, jarðveg, dýralíf og vatnafar. Í matsskýrslu virðist framkvæmdaraðili forðast að nota mælikvarðann "umtalsverður" þegar um er að ræða áhrif á einstaka umhverfisþætti.
  4. Auk augljósra afleiðinga af Norðlingaölduveitu eru ýmsir óvissuþættir sem valdið gætu víðtækari, ófyrirsjáanlegum og skaðlegum áhrifum á umhverfi Þjórsárvera. Má þar ekki síst nefna áhrif af setmyndun, aurburði og áfoki, sbr. kafla 13 í matsskýrslu.
  5. Rofhætta af völdum lónsins er viðurkennd en vanmetin í matsskýrslu, kafla 14, og mótvægisaðgerðir ekki sannfærandi auk þess sem nefndar tæknilegar lausnir gætu haft umtalsverð neikvæð áhrif á umhverfið.
  6. Áhrif á landslagsheildina í Þjórsárverum yrðu umtalsverð og tilfinnanleg. Með veitunni myndu m. a. skerðast jökulminjar og rofna það samhengi sem nú blasir við um framrás og hörfun jökla á svæðinu.
  7. Umtalsverð áhrif yrðu á fossaröðina í Efri-Þjórsá til viðbótar því sem þegar er fram komið vegna Kvíslnaveitna.
  8. Neikvæð áhrif á ferðamennsku og útivist yrðu önnur og meiri en fram kemur í kafla 23 í matsskýrslu.
  9. Huglæg áhrif af Norðlingaölduveitu yrðu mikil og til stórtjóns fyrir friðlandið, sem brýnt er að stækka í stað þess að skerða með slíkri framkvæmd.
  10. Framkvæmdin gengur gegn anda alþjóðlegra samþykkta sem Ísland er aðili að og myndi óhjákvæmilega verða orðstír Íslands til stórtjóns um langa framtíð.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða undirritaðs að tvímælalaust beri að hafna umræddri framkvæmd.

Virðingarfyllst
Hjörleifur Guttormsson