Gerpisfriðland

(hugmynd HG að friðlýsingu Gerpissvæðisins haustið 1995)

 

Meðfylgjandi eru fyrstu drög að tillögu um friðlýsingu Gerpissvæðisins sem friðlands skv. 24. gr. laga nr. 47/1971 um náttúruvernd.

1. gr.

Samkvæmt heimild í 24. gr. laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, ásamt síðari breytingum, hefur Náttúruverndarráð fyrir sitt leyti ákveðið að friðlýsa Gerpissvæðið milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar á Austurlandi og er svæðið friðland.

2.gr.

Friðlýsingin tekur til Hellisfjarðar, Viðfjarðar, Suðurbæja, Sandvíkur og Vöðlavíkur. Einnig eru innan friðlandsins eyðibýlin Búlandsborgir (Borgir) í Norðfirði og Karlsskáli við Reyðarfjörð (í Eskifjarðarbæ) svo og Oddsdalur austan Norðfjarðarvegar og ofan gamla skíðaskálans.. Þess utan ráða vatnaskil og landamerki nefndra jarða til vesturs. [Sjá meðfylgjandi uppdrátt]

 

3. gr.

Náttúruverndarráð skal skipa 5 manna ráðgjafarnefnd um málefni friðlandsins. Sinn hvor fulltrúi komi frá sveitarstjórnum Neskaupstaðar og Eskifjarðarbæjar, tveir fulltrúar landeigenda á svæðinu og formaður tilnefndur af Náttúruverndarráði. Skipunartími fulltrúa Náttúruverndarráðs og landeigenda skal vera sá sami og kjörtímabil ráðsins og skipunartími fulltrúa sveitarfélaganna vera milli sveitarstjórnarkosninga.

 

4. gr.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda náttúru svæðisins, einkum landslag og jarðmyndanir, og gera það aðgengilegt til gönguferða og útivistar samkvæmt nánara skipulagi.

Náttúruverndarráð skal beita sér fyrir að gerð verði verndarskipulag fyrir svæðið í samvinnu við skipulagsyfirvöld og ráðgjafanefnd um málefni friðlandsins..

 

5. gr.

Um friðlandið gilda að öðru leyti eftirfarandi reglur:

 1. Mannvirkjagerð, jarðrask og breytingar á landi, vatnsborðshæð eða rennsli vatna er háð leyfi Náttúruverndarráðs að fenginni umsögn ráðgjafanefndar um málefni friðlandsins.

 2. Ákvæði auglýsingarinnar hagga ekki rétti bænda né landeigenda til hefðbundinna nytja á svæðinu, svo sem búfjárbeitar og veiði, og skerða ekki heimild þeirra til venjulegrar umferðar, dvalar eða athafna sem tengjast landnytjum.

 3. Akstur utan vega og merktra slóða er bannaður. Náttúruverndarráð getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstakar ástæður bjóða.

 4. Við gerð verndarskipulags skulu mótaðar í samráði við ráðgjafanefnd tillögur að reglum vegna skipulegra hópferða inn á svæðið, þar á meðal um hestaferðir og bátsferðir og um aðstöðu á viðkomu- eða áningarstöðum, m.a. um tjaldsvæði með snyrtiaðstöðu.

 5. Náttúruverndarráð skal í samvinnu við aðra hlutaðeigandi stuðla að vernd menningarminja og að haldið sé við eftir nánara skipulagi vegslóðum, göngubrúm, gömlum götum og vörðum. Á sama hátt skal ráðið í samvinnu við sveitarfélögin og landeigendur tryggja leiðbeiningar og lágmarksaðstöðu fyrir ferðafólk, m.a. með merkingu gönguleiða og afmörkun tjaldsvæða með hreinlætisaðstöðu. Þá skal Náttúruverndarráð sjá til að fylgst verði með umgengni um svæðið að sumarlagi og er ráðinu heimilt að semja við aðila heima fyrir um slíkt eftirlit.

 6. Skylt er að ganga þannig um friðlandið að hvorki sé spillt gróðri né dýralífi raskað. Um hreindýraveiðar á svæðinu verða settar sérstakar reglur í samráði við eftirlitsmann með hreindýraveiðum á Austurlandi.

 7. Óheimilt er að skilja eftir sorp á svæðinu nema sérstök aðstaða sé til þess ætluð.

 

6. gr.

Náttúruverndarráð getur með sérstöku samkomulagi falið Náttúrustofu Austurlands eða öðrum umboð sitt að hluta eða í heild með skriflegum samkomulagi, enda sé um það leitað samþykkis ráðgjafanefndar.

Ráðið getur veitt undanþágu frá ákvæðum skilmála þessara, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 47/1971 um náttúruvernd.

 

7. gr.

Brot gegn reglum þessum varða sektum eða varðhaldi samkvæmt lögum nr. 47/1971 um náttúruvernd.

 

8. gr.

Umhverfisráðuneytið er samþykkt friðlýsingunni sem tekur gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum.

 

------


Til baka | | Heim