Hjörleifur Guttormsson:

Kerfi Evrópusambandsins
vinnur gegn umhverfisvernd

 

Umhverfisvernd með sjálfbæra þróun sem mælistiku er af æ fleirum talið stærsta málið litið til næstu framtíðar að ekki sé talað um 21. öldina. Frá því sjónarhorni ætti að vera auðvelt að dæma kerfi Evrópusambandsins úr leik og það gera líka flestir þeir sem taka umhverfismálin alvarlega. Vaxtarhyggjan sem er æðsta boðorð ES gengur þvert á vistfræðilega hugsun og kröfuna um umhverfisvernd.

 

Vaxandi mengun vegna innri markaðar ES

Sérstakur vinnuhópur, svonefnd Task Force, sem settur var á laggirnar í tíð Evrópubandalagsins til að gera úttekt á áhrifum innri markaðarins á umhverfið, skilaði áliti haustið 1990. Niðurstöðurnar gera ráð fyrir gífurlega neikvæðum áhrifum sem vænta má af áætluðum efnahagsvexti í ES. Flutningar á vegum milli landa munu vaxa um 30-50% umfram það sem ella yrði og losun á brennisteinsdíoxíði og köfnunarefnisoxíðum aukast umtalsvert á næstu árum í stað þess að stefnt var að samdrætti í mengun frá slíkum efnum.

 

Náttúruverndarsamtök vara við ES-aðild

Það þarf talsvert til að gamalgróin náttúruverndarsamtök eins og t.d. norska Naturvernforbundet sem hefur innan sinna vébanda fólk úr ólíkum stjórnmálaflokkum og fjölda óflokksbundinna taki afstöðu í stóru og umdeildu máli eins og spurningunni um aðild að Evrópusambandinu. Þetta hafa þau hins vegar gert og flest ef ekki öll umhverfisverndarsamtök á Norðurlöndum telja ES-aðild neikvæða fyrir stöðu umhverfismála.

Þegar á árinu 1991 tók norska Naturvernforbundet á landsfundi sínum opinberlega afstöðu gegn ES-aðild Noregs og sú afstaða hefur síðan verið ítrekuð margsinnis. Frá þeim tíma hefur líka komið enn skýrar í ljós en áður, hvað ES í raun þýðir fyrir umhverfismálin á Norðurlöndum, m.a. að umhverfisstaðlar ES eru á mörgum sviðum lakari en giltu í EFTA-ríkjunum. Ýmsar undanþágur sem Noregur fékk í tengslum við EES-samninginn hafa síðan verið strikaðar út í samningi Noregs um ES-aðild, t.d. varðandi skordýraeitur og þungmálma.

 

Helstu rök umhverfissinna

Fulltrúar norrænna náttúruverndarsamtaka komu saman til fundar í Stokkhólmi í maíbyrjun 1994 og fjölluðu um afleiðingar ES-aðildar fyrir náttúru og umhverfi og minnkandi áhrif almannasamtaka. Skoðanir féllu í einn farveg, þ.e. að ES-aðild væri skaðleg fyrir náttúru og umhverfi og veikti möguleika til sjálfbærrar þróunar. Bent var m.a. á eftirfarandi til stuðnings þessum sjónarmiðum:

* ES-aðild mun leiða af sér aukinn efnahagsvöxt á kostnað umhverfisins.

* ES getur knúið aðildarríki til að taka upp lakari umhverfisstaðla en þau sjálf óska og ES-dómstóllinn hefur margoft dæmt umhverfinu í óhag.

* ES hefur reynst fara illa með náttúruauðlindir, m.a. í landbúnaði og fiskveiðum.

* Lýðræði á undir högg að sækja í ES og ákvarðanataka þess er fjarlæg almenningi og lokuð.

* ES tekur lítið tillit til fátækra ríkja og kemur í veg fyrir að einstök aðildarríki geti beitt sér jákvætt gagnvart þróunarlöndum.

 

Reynsla Dana lærdómsrík

Danir hafa slæma reynslu á sviði umhverfismála af langri veru sinni í EB og nú ES. Þannig hafa á árinu 1994 hrannast upp ágreiningsefni danskra stjórnvalda við stofnanir Evrópusambandsins. Dæmi um það eru reglur ES um aukefni í matvælum og meðferð á erfðabreyttum lífverum, þar sem gengið er þvert gegn áður viðtekinni stefnu á Norðurlöndum. Svonefnt "madsminke-mál" sem var mjög umtalað í Danmörku fyrr á árinu lýsir vel samskiptum danskra stjórnvalda við ES-dómstólinn og pólitískt ákvörðunarvald í Brussel. það varðaði ES-reglugerð sem leyfir íblöndun ýmissa aukefna og rotvarnarefna í matvæli, þar á meðal í barnamat. Eftir margra ára baráttu gegn reglugerðardrögum ES á þessu sviði voru Danir knúðir til uppgjafar vorið 1994.

Ákvæði um svonefnda "umhverfistryggingu" (miljøgaranti) var tekin upp í Rómarsamninginn 1986 um leið og efnt var til innri markaðarins en þau hafa reynst harla lítils virði. það var ekki síst gert að kröfu danskra stjórnvalda. ES-dómstóllinn kvað nýlega upp þann úrskurð að ekkert aðildarríki gæti beitt þessari tryggingu einhliða til að stöðva ákvarðanir innan Evrópusambandsins. Vilji ES-ríki viðhalda strangari umhverfiskröfum en samþykktar hafa verið þurfi þau fyrst að frá leyfi framkvæmdastjórnar ES!

Svipuð urðu örlög danskra tillagna í ES-þinginu um að skerpa reglugerð um endurnotkun umbúða, bann við PVC í plastumbúðum og tryggingu um að viðhalda beri skilakerfi á glerflöskum. Þannig hafa kröfur um herta umhverfisvernd undanfarið beðið lægri hlut í hverju málinu á fætur öðru innan ES. Þegar til kastanna kemur eru það reglur fjórfrelsisins um óhefta vörudreifingu sem gilda sem æðsta boðorð.

 

Der Spiegel: ES er ógnun við við umhverfið

Þýska tímaritið Der Spiegel gaf út sérhefti vorið 1992 um áhrif innri markaðarins fyrir umhverfið undir heitinu: "Europa ohne Grenzen: Alarm für die Umwelt" (Evrópa án landamæra: Ógnun við umhverfið). Þeir sem kynnu að treysta Der Spiegel betur en málflutningi umhverfisverndarsamtaka ættu að kynna sér þessa úttekt tímaritsins.

 

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim