Hjörleifur Guttormsson:

Vilja Íslendingar afsala sér forræði
yfir fiskimiðunum með ES-aðild?

 

Ráðum einir yfir helstu nytjastofnum

Með nokkurri einföldun er hægt að líkja efnahagsgrundvelli Íslendinga við Norður-Noreg, þar eð hann byggir að miklum hluta á fiskveiðum og fiskvinnslu. Svipuðu máli gegnir um nágrannana á vestursvæði Norðurlanda, Færeyinga og Grænlendinga. Íslendingar eru mjög háðir utanríkisviðskiptum og um 3/4 hlutar útflutningstekna fást fyrir sjávarafurðir. Sjávarútvegur okkar er tæknilega háþróaður og hefur síðustu áratugi á heildina litið staðið undir miklum efnahagsvexti. Fyrir norsku þjóðina sem heild skiptir sjávarútvegur hins vegar aðeins brot af því sem hann varðar Íslendinga, þar eð hann er hann stendur aðeins undir um 6% þjóðartekna og aðrir þættir vega langtum meira í efnahagsstarfseminni. Samt vegur umræðan um sjávarútveg þungt í umræðunni um aðild Noregs að Evrópusambandinu.

Íslendingar höfðu alþjóðlega séð frumkvæði að útfærslu landhelgi og fiskveiðilögsögu á eftirstríðsárunum og stefna okkar hafði mikil áhrif á þróun hafréttarmála. Eftir að 200 mílna fiskveiðilögsaga var almennt viðurkennd hafa Íslendingar ráðið einir yfir flestum nytjastofnum við landið og standa að því leyti betur að vígi en flestar aðrar fiskveiðiþjóðir. þessa sérstöðu verður þjóðin að varðveita því að í henni felst grundvöllurinn að tilvist okkar. Um skiptingu loðnustofnsins á Norður-Atlantshafi gildir samkomulag við Norðmenn og Grænlendinga og falla samkvæmt því 78% stofnsins í hlut Íslendinga. Réttindi okkar til annarra flökkustofna þarf að tryggja enn betur en nú er með samningum og þar er norsk-íslenski síldarstofninn gott dæmi..

 

Undanþágur um fjárfestingu hyrfu með ES-aðild

Vandséð er hvernig land í stöðu Íslands gæti gerst aðili að Evrópusambandinu án þess að hætta til efnahagslegri og stjórnarfarslegri framtíð sinni í enn ríkari mæli en aðrar Evrópuþjóðir. Aðild landsins að Evrópsku efnahagssvæði var umdeildari á Íslandi en í öðrum EFTA-ríkjum að Sviss frátöldu, sem hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu aðild að EES. þó fengu Íslendingar fram varanlega undanþágu frá reglum ES um frjálsar fjárfestingar í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða. Á því sviði gilda íslensk lög sem banna erlendar fjárfestingar og eignarhlut útlendinga í þessum atvinnurekstri.

Með ES-aðild yrði þessi fyrirvari að engu og erlend fyrirtæki gætu hömlulaust keypt upp íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og náð ráðstöfunarrétti yfir íslensku hráefni. þannig yrði stjórnun fyrirtækjanna í reynd komin í hendur útlendinga sem myndu ráðstafa aflanum út frá sínum hagsmunum. það er mikill misskilningur að ekki skipti máli hvort Íslendingar eigi hlutaféð í sjávarútvegsfyrirtækjum hérlendis eða taki erlend lán.

 

ES-aðild þýðir afsal forræðis yfir sjávarauðlindunum

Ef Íslendingar gengju í Evrópusambandið eins og fiskveiðistefnu þess er háttað jafngilti það því að þjóðin afsali sér yfirráðarétti sínum yfir sjávarauðlindum líkt og Noregur hefur gert.með samningi norsku ríkisstjórnarinnar um ES-aðild. Jafnframt yrði þessi aðalatvinnuvegur landsins háður leyfisveitingum frá Brussel og félli undir hafta- og styrkjastefnu sem einkennir meðferð sjávarútvegsmála innan bandalagsins.

Núverandi stjórnkerfi í fiskveiðum á Íslandi, sem vissulega er umdeilt, byggir á veiðistjórnun með framseljanlegum aflakvótum. Slíkt kerfi samrýmist ekki fiskveiðistefnu ES og svipuðu máli gegnir varðandi hugmyndir um veiðigjald. Aðstaða Íslendinga er að þessu leyti ekki sambærileg við Noreg, þar sem ekki er um að ræða framseljanlega aflakvóta.

Reglur Evrópusambandsins um svonefndan hlutfallslegan stöðugleika við úthlutun fiskveiðiheimilda hefur ekki komið í veg fyrir kvótahopp, þ.e. kaup útlendinga á fiskiskipum og um leið ráðstöfunarrétt á aflanum. Eftir dóm Evrópudómstólsins árið 1991 í deilu Breta og Spánverja um kvótahopp liggur fyrir að ekki má mismuna útgerðaraðilum eftir þjóðerni. Nú þegar eru yfir 10% af breska fiskveiðiflotanum komin í hendur útlendinga og það hlutfall fer vaxandi. Í aðildarsamningi sínum fékk Noregur aðeins þriggja ára undanþágu frá meginreglunni um frjáls kaup á fiskiskipum óháð þjóðerni og möguleikar þeirra til að setja skilyrði um löndun afla heima fyrir eru eftir það mikilli óvissu háðir.

 

Efnahagsstjórn og sveiflur í fiskistofnum

Fiskistofnar á norðlægum slóðum eru sem kunnugt er háðir miklum sveiflum vegna breytilegra umhverfisskilyrða. því skiptir öllu máli að við fiskveiðistjórnun sé beitt þekkingu og varúð og þannig tekið fullt tillit til aðstæðna í sjónum. Sé það ekki gert blasir við hrun einstakra stofna eins og mörg dæmi eru um og jafnvel vistkerfisins í heild um lengri tíma.

Af þessu ástæðum skiptir það þjóðir sem byggja efnahag sinn á fiskveiðum öllu máli að halda yfirráðum yfir náttúruauðlindunum og ráða sjálfar yfir efnahagslegum stjórntækjum sem gera kleift að bregðast við sveiflum í þjóðartekjum. Menn geta rétt ímyndað sér í hvaða stöðu Íslendingar væru komnir, ef þeir væru háðir spennitreyju efnahags- og peningasambands ES og lytu alveldi seðlabanka Evrópusambandsins.

 

Sjálfstætt Ísland í alþjóðlegu samstarfi

Hagmunum Íslendinga er best borgið með því að þjóðin standi utan við efnahagsbandalög og ríkjasambönd, þar sem stórveldi og hagsmunir stóriðnaðar og fjölþjóðafyrirtækja ráða ferðinni. þetta á bæði við um Evrópusambandið (ES) og Fríverslunarsamband Norður-Ameríku (NAFTA).

Íslendingar eiga ekki að láta loka sig af í tollabandalögum stríðandi markaðsblokka. Landfræðileg staða getur um langa framtíð gagnast Íslendingum í samskiptum til margra átta en því aðeins að þjóðin haldi sjálfstæði sínu, efnahagslega og pólitískt.

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim