Hjörleifur Guttormsson:

 

Aðild að Evrópusambandinu stríðir
gegn þjóðarhagsmunum Íslendinga

 

Umræða um tengslin við Evrópusambandið hefur blossað upp á ný í beinu framhaldi af því að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði gekk í gildi. Það hefur gengið eftir sem andstæðingar EES-samningsins héldu fram að þeir sem harðast börðust fyrir honum myndu fljótlega krefjast aðildar að Evrópusambandinu með þeim rökum að Íslendingar yrðu að fá áhrif innan þess. Sömu aðilar virðast ganga að því sem gefnu að Norðmenn, Svíar og Finnar muni samþykkja þá aðildarsamninga sem ríkisstjórnir landanna hafa gert. Þá muni EFTA-stoðin falla og Íslendingar geti ekki ásamt Lichtenstein staðið undir stofnanabákni EES. Þessi möguleiki blasti við strax og farið var að fitja upp á EES fyrir 5 árum. EES-samningurinn var af frumkvöðlum hans eins og Gro Harlem Brundtland hugsaður sem aðgerð til að brjóta í áföngum niður andstöðuna við aðild að EB.

Naumur meirihluti á Alþingi felldi tillögu um að Íslendingum gæfist kostur á að greiða atkvæði um EES-samninginn. Það var aðeins í Sviss sem slík atkvæðagreiðsla fór fram og þar var aðild að samningnum felld. Það er í senn ólýðræðislegt og siðlaust að ætla nú að nota EES-samninginn sem þannig er til kominn sem rök fyrir því að ganga enn lengra í fullveldisafsali.

Þrír íslenskir flokksformenn hafa heimsótt Brussel á þessu sumri eða eru á förum þangað, hver með sínar hugmyndir í farteskinu um framhald á samskiptum Íslands við Evrópusambandið.

 

Þriðju leið formanns Framsóknar vísað á bug

Á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í maíbyrjun boðaði nýkjörinn formaður að brýnt væri að efna til þingkosninga í haust og þyrftu Evrópumál að verða aðalkosningamálið. Halldór Ásgrímsson var sem kunnugt er í forystu fyrir þeim armi Framsóknar sem efnislega lýsti fylgi við EES-samninginn þótt hann veldi hjásetu á Alþingi við lokaafgreiðslu. Nú telur Halldór að treysta verði böndin enn frekar við Evrópusambandið vegna væntanlegra breytinga innan EFTA og boðaði í vor sem næsta skref það sem hann kallaði þriðju leið. Hún fælist í því að Íslendingar reyndu að tryggja sér áhrif innan Evrópusambandsins með því að fá áheyrnaraðild í æðstu stofnunum þess og helstu nefndum. Til að kanna undirtektir við þessa nálgun hélt Halldór utan til Brussel og átti fund með kommissar Bangemann 20. júní sl.

Ekki virðist formaður Framsóknarflokksins hafa fengið undirtektir við Þessa "þriðju leið". Í viðtali við Morgunblaðið eftir ferðina (24. júní 1994) sagði hann ljóst að ESB-ríkin sæktust ekki eftir því að koma upp einhverju sem héti auka- eða áheyrnaraðild að sambandinu. Það hefur þó vakið meiri athygli að Halldór Ásgrímsson útilokar ekki aðild Íslands að Evrópusambandinu í framtíðinni, þótt hann telji umsókn um slíka aðild ekki vera á dagskrá nú og telji "ómögulegt að ætla sér að leysa brýnustu hagsmunamál okkar í gegnum aðildarviðræður á þessari stundu." (Mbl. 24. júní 94, leturbr. HG). Það er ekki undarlegt að forsætisráðherra hefur líkt stefnubreytingu hinnar nýju forystu Framsóknar í Evrópumálum við "vinkilbeygju" miðað við þá stefnu sem Steingrímur Hermannsson hélt fast við sem formaður flokksins.

 

Formaður AlÞýðuflokksins vill sækja um aðild strax

Íslenski utanríkisráðherrann hleypti heimdraganum á dögunum og nú í þreföldu gervi: sem formaður AlÞýðuflokksins, ráðherra og formaður EFTA um stundarsakir. Jóni lá að þessu sinni mikið á að verða á undan forsætisráðherra, sem boðaði á útmánuðum án samráðs við utanríkisráðherra að hann hygðist heimsækja forystumenn í Evrópusambandinu. Þessir oddvitar stjórnarflokkanna hafa síðan viðrað ólík sjónarmið í Evrópumálum á Alþingi og í fjölmiðlum og forsætiráðherrann ítrekað lýst málflutning utanríkisráðherrans markleysu.

Það er ekkert nýtt að forysta AlÞýðuflokksins vilji að Ísland gerist aðili að því bandalagi sem nú kallast Evrópusamband Gylfi Gíslason reið þar á vaðið eftirminnilega þegar árið 1963 fyrstur íslenskra ráðherra. Jón Hannibalsson sagði það skoðun sína á fundi í Kaupmannahöfn í mars 1990 að Ísland hlyti að fylgja á eftir Svíþjóð og Noregi inn í Evrópubandalagið. Síðan hefur hann öðru hvoru látið svipaðar yfirlýsingar út ganga og nú hefur hann fengið loðna uppáskrift fyrir stefnu sína frá flokksÞþngi Alþýðuflokksins. Fjálglegast talar ráðherrann um þetta hugðarefni sitt erlendis, nú síðast í Bonn. Að hans mati eiga Íslendingar að snara inn aðildarumsókn fyrir árslokin en eiga ella á hættu að liggja óbættir hjá garði sem þriðjaflokksjóð fram á næstu öld! Ekki sé útilokað að Íslendingar fái skjóta inngöngu í ESB, hugsanlega með Möltu og Kýpur.

 

Einangrunargrýlan enn á lofti

Sömu rökum er nú beitt af utanríkisráðherra og undirleikurum hans og þegar aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði var á dagskrá. Þá var það hættan á einangrun landsins frá Evrópu sem var stefið sem allir jábræður kyrjuðu. Þessum voða átti EES-samningurinn að þeirra sögn að bægja frá. En blekið var varla þornað á EES-undirskriftunum þegar sami söngur er hafinn og sem fyrr stendur ekki á sumum fréttamönnum ríkisfjölmiðlanna að spila undir að ekki sé talað um menn með lærdómstitla við Háskóla Íslands.

Þessi einangrunarsöngur er einhver mesta heimska og bábilja sem yfir landsmenn hefur gengið. Aldrei í sögu sinni hafa Íslendingar haft minni ástæðu til að óttast einangrun en nú um stundir og gildir einu hvort rætt er um efnahagsleg eða pólitísk samskipti. Við höfum átt góð viðskipti beggja megin hafsins allt frá því við náðum stjórn eigin mála í okkar hendur og höfum að undanförnu byggt upp ábatasamleg samskipti við fjarlæga heimshluta eins og Asíu austanverða. Við Evrópubandalagið gerðum við hagstæðan tvíhliða viðskiptasamning þegar árið 1972 og var leitun að öðrum slíkum, ekki síst í viðskiptum með sjávarafurðir. Á þessum grunni var og er unnt að byggja í samskiptum við Evrópusambandið og laga samskiptin að breyttum aðstæðum án Þess að binda þjóðina í EES eða leita eftir beinni aðild að ESB.

Það er ömurlegt að hlýða á málflutning manna sem telja að Íslendingar eigi út frá viðskiptahagsmunum, raunverulegum eða ímynduðum, að kasta frá sér stjórn eigin mála frekar en orðið er. Talsmenn EES-samningsins reyndu ekki síst að réttlæta hann með tollalækkunum á fiski inn á Evrópumarkað og var mikið gert úr ávinningnum. Veruleikinn ætlar að reynast öðru vísi og nú á að endurtaka þetta stef og sumpart "selja" sömu atriðin öðru sinni til að gylla ESB-aðild! Nú er talað um að með aðild fái Norðmenn betri stöðu á sjávarútvegssviði og geti átt þátt í að móta sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins sér í hag. Þagað er um að helsti grundvöllur þessarar sjávarútvegsstefnu er sameiginlegur aðgangur aðildarríkjanna að fiskimiðum landanna upp að 12 mílum. Jafnframt er áróðurstúlkun norskra stjórnvalda á inntaki sjávarútvegssamnings þeirra við bandalagið tekin góð og gild. Íslenski utanríkisráðherrann hefur í reynd gengið feti lengra en norskir ráðherrar við að gylla samningsniðurstöðu Norðmanna á sjávarútvegssviði; menn geta rétt ímyndað sér hvaða áhrif slíkur málflutningur hefði á samningsstöðu Íslands ef nú væri fylgt tillögu ráðherrans og sótt um aðild að Evrópusambandinu.

 

Formaður Sjálfstæðisflokksins gerist málamiðlari

Þau tíðindi urðu síðla vetrar að Davíð Oddsson gerðist málamiðlari milli stríðandi fylkinga innan Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum um leið og hann snerist öndverður gegn strekkingi utanríkisráðherrans. Innan Sjálfstæðisflokksins var sem kunnugt er kraumandi andstaða gegn EES-samningnum en jafnframt er þar að finna háværa talsmenn aðildar að Evrópusambandinu. Þar er Vilhjálmur Egilsson alþingismaður og framkvæmdastjóri Verslunarráðsins fremstur í flokki og fleiri þingmenn flokksins, þar á meðal m.a. varaformaður hans, hafa verið taldir hallir undir aðild eins og raunar Davíð áður en hann kom inn á þing.

Jákvæð veðrabrigði í fremstu forystu Sjálfstæðisflokksins gegn aðild að Evrópusambandinu eru í raun stærstu tíðindin í landsmálum það sem af er þessu ári. Ekki er gott að átta sig á hvort þar ráða ferðinni stjórnmálaleg klókindi og skammtímaviðhorf eða alvarlegt endurmat. Frá sjónarhóli þeirra Íslendinga sem andvígir eru aðild landsins að Evrópusambandinu hlýtur þessi afstaða að teljast góðra gjalda verð svo lengi sem við hana er staðið.

Á væntanlegum fundi forsætisráðherra með formanni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins 26. júlí næstkomandi mun sá fyrrnefndi væntanlega reyna að skýra afstöðuíslensku ríkisstjórnarinnar og afneita í leiðinni sjónarmiðum utanríkisráðherrans. Slíkt er ekki þægileg aðstaða en Davíð hefur m.a. við að styðjast ályktun Alþingis frá 5. maí 1993 um viðræður við ESB um tvíhliða samskipti fari svo að fjögur EFTA-ríki gerist aðilar að Evrópusambandinu.

Alþýðubandalagið hefur á þremur undanförnum landsfundum ályktað að aðild að Evrópusambandinu komi að mati flokksins ekki til greina. Vonandi fjölgar þeim stjórnmálaflokkum á næstunni sem taka svo eindregna afstöðu.

 

Norræn samvinna og Evrópusambandið

Því er ranglega haldið á lofti af talsmönnum ESB-aðildar, að miklu skipti að Norðurlöndin verði samferða inn í Evrópusambandið. Þar muni norræn samvinna ganga í endurnýjun lífdaganna og Norðurlöndin sameiginlega megna að sveigja til stefnu Evrópusambandsins. Það eru ekki síst forystumenn sósíaldemókrata á Norðurlöndum sem kyrja þetta stef enda í erfiðleikum með að tryggja stuðning eigin flokksmanna við aðild. Dönum sem læstir eru inni í Evrópusambandinu er af skiljanlegum ástæðum mikið í mun að draga úr einsemd sinni sem eina Norðurlandaþjóðin í Þeim félagsskap.

Fari svo að fleiri Norðurlönd en Danmörk hafni innan Evrópusambandsins mun það vissulega veikja norrænt samstarf. Gerist Norðurlöndin fjögur önnur en Ísland aðilar munu þau hins vegar ekki mynda neina norræna blokk innan ESB heldur dragast í aðra dilka úr frá margvíslegum og sundurleitum hagsmunum. Á vettvangi Evrópusambandsins sækjast sér um líkir, þar eð samskiptin fara í vaxandi mæli fram í flokkahópum, jafnt á vettvangi ráðherra sem og á hinu valdalitla EvrópuÞingi.

Framundan er þjóðaratkvæðagreiðsla í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi um aðild landanna að Evrópusambandinu. Þrátt fyrir það herbragð ríkisstjórna þessara landa að tímasetja atkvæðagreiðslurnar í þeirri röð sem andstaðan er talin veikust, eru góðar líkur á að niðurstaða verði fylgendum aðildar ekki allsstaðar að skapi. Styrkur andstæðinga aðildar er mestur í Noregi og á hann reynir af fullum þunga ef aðildin verður samþykkt í SvíÞjóð.

Við Íslendingar eigum að sjálfsögðu að meta stöðu okkar óháð því hvað gerist á öðrum Norðurlöndum. Andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu þurfa að gera sér ljóst, að af áhrifamiklum öflum er nú unnið markvisst að því að slæva vitund þjóðarinnar fyrir alvöru málsins. Með samþykkt samningsins um Evrópskt efnahagssvæði var stigið ógæfuspor, en sá samningur er þó uppsegjanlegur með einföldum meirihluta á Alþingi. Það spor má hins vegar ekki verða til þess að bætt verði gráu ofan á svart og þjóðin láti loka sig inni í Evrópusambandinu.

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim