Hjörleifur Guttormsson:

Félagslegir þættir og lýðræði
hornrekur í Evrópusambandinu

 

ES-markaðinum er ætlað að taka til 360 milljóna manna, sem búa nú við gjörólíkar aðstæður, jafnt efnahagslega og að því er varðar menningu, hefðir og samfélagsgerð. Á þessu svæði eiga óheftar markaðslausnir að verða æðsta boðorð og þeim til stuðnings hefur verið settur saman dæmalaus frumskógur af reglugerðum. Á þessum markaði eru félagslegir þættir og umhverfi í þriðja og fjórða sæti á eftir samkeppni og hagkvæmnikröfum.

Á ES-svæðinu eru nú gífurlega ólíkar aðstæður á vinnumarkaði, jafnt hvað varðar starfsumhverfi, aðstæður og áhrif verkalýðsfélaga og launakjör. Með tilkomu innri markaðarins verður unnt að beita samkeppnisreglum til að nota lág laun og léleg vinnuskilyrði til ávinnings í samkeppni. Það er ekki síst í krafti þessara aðstæðna sem norræn viðmið og gildi lenda úti í kuldanum.

 

Verkalýðshreyfing í varnarstöðu

Nú þegar eru verkalýðsfélög á Norðurlöndum farin að finna fyrir þessum nýju aðstæðum vegna EES-samningsins og þær munu gera vart við sig með vaxandi þunga ef af ES-aðild verður. Áunnin réttindi launafólks eru nú dregin í efa af atvinnurekendum á þann hátt sem óhugsandi hefði verið á Norðurlöndum fyrir fáum árum. Innan ES er farið að tefla atvinnuleysinu blygðunarlaust fram til að lama og slæva baráttuþrek almennings gagnvart sókn auðmagnsaflanna.

Þann 22. september sl. fór fram uppgjör á aukaþingi norska alþýðusambandsins um afstöðuna til ES-aðildar Noregs. Niðurstaðan vakti að vonum mikla athygli, þar eð tillaga krataforystunnar í sambandinu um stuðning við ES-aðild að því tilskildu að Svíar og Finnar hafi áður samþykkt aðild var felld með 156 atkvæðum gegn 149. Þessi úrslit og umræðan sem fram fór í aðdraganda þeirra endurspeglar vaxandi ótta og efasemdir innan verkalýðshreyfingarinnar við þá stefnu gagnvart ES sem norrænir krataforingjar bera ábyrgð á ekki síður en hægrimenn.

 

ES stenst enga lýðræðislega mælikvarða

Stjórnkerfi ES er svo forneskjulegt að leita verður öld aftur í tímann til að finna hliðstæður utan einræðisríkja. Með ES og forverum þess allt frá 1957 hefur verið þróað kerfi sem snýr lýðræðislegri ákvarðanatöku og möguleikum almennings til áhrifa á haus. Löggjafar- og framkvæmdavald er flutt frá lýðræðislega kjörnum þjóðþingum og ríkisstjórnum sem starfa í umboði þeirra til yfirþjóðlegra valdastofnana þar sem lýðræðislegu eftirliti verður ekki við komið. Löggjafarvaldið er flutt til ráðherraráðs ES þar sem flestar ákvarðanir eru teknar með auknum meirihluta. Undirbúningur löggjafar og réttur til að leggja lagafrumvörp fyrir ráðherraráðið er eingöngu í höndum ES-framkvæmdastjórnarinnar sem styðst við um 14 þúsund embættismenn í Brussel. Í reynd er ógerningur að kveðja þá til ábyrgðar sem undirbúa og taka ákvarðanir í kerfi sem þessu.

Áhrif almannasamtaka á undirbúning og framkvæmd löggjafar sem fram til þessa hafa verið veruleg á Norðurlöndum mega sín lítils í risakerfi sem þessu. Slík áhrif eru hins vegar þeim mun meiri af hálfu fjársterkra aðila, samtaka atvinnurekenda og fjölþjóðafyrirtækja, sem halda uppi herskara af hagsmunagæsluliði, svonefndum lobbýistum í Brussel.

Í ágústmánuði 1994 kom út í Danmörku niðurstaða rannsókna sem gerðar voru af hópi innan danska verslunarháskólans og fjölluðu um áhrif innri markaðar Evrópusambandsins á danska stjórnsýslu. Hópurinn staðhæfir að með innri markaðnum hafi ekki aðeins fleiri pólitískar ákvarðanir verið fluttar frá Danmörku til Brussel heldur hafi þröngir atvinnurekendahagsmunir samtímis fengið áður óþekkt áhrif á samfélagsþróunina og embættismenn stórlega aukið áhrif sín á kostnað kjörinna fulltrúa. Vert er að hafa í huga að kerfi innra markaðarins hefur verið lögfest á öllu EES-svæðinu og þar með einnig hérlendis.

 

ES-þingið valdalítil stofnun

ES-þingið, sem kallar sig Evrópuþing, er afar sérstæð stofnun með mjög takmörkuð völd og áhrif, langtum minni en við erum vön frá þjóðþingum. Það er t.d. ekki löggjafarsamkoma og hefur ekki einu sinni rétt til að flytja hvað þá að afgreiða lagafrumvörp. Á þingið eru kjörnir 567 þingmenn og fer fjöldi frá hverju landi eftir íbúafjölda. Þannig kjósa Danir 16 fulltrúa á Evrópuþingið, eða um 3% og svipað hlutfall myndi gilda um Norðurlöndin þrjú sem sótt hafa um aðild. Á þessari samkundu skipa þingmenn sér ekki eftir þjóðlöndum heldur eiga aðild að mismunandi flokkahópum. Þingmenn kjörnir í Danmörku mynda þar t.d. ekki danskan hóp, heldur dreifast á marga flokkahópa eftir stjórnmálaviðhorfum.

Margir eru að átta sig á því, hversu vonlítið það er að ætla að koma á virku lýðræði á 360 milljón manna svæði ES, þar sem ekkert sameiginlegt tungumál er til staðar og engir opinberir aðilar til undir lýðræðislegu eftirliti. Það væri dýru verði keypt að knýja þjóðir Norðurlanda til að ganga inn í slíkan óskapnað og eyðileggja um leið tiltölulega öflug og lýðræðisleg þjóðríki heima fyrir.

Norrænt samstarf hverfandi í ES

Staðhæfingar um að norrænt samstarf muni blómstra innan ES eiga sér hvorki stoð í stofnunum eða starfsháttum Evrópusambandsins. Formlegt samstarf ríkjahópa er þar bannorð og mismunandi hagsmunir og ólík stjórnmálaforysta einstakra Norðurlanda á hverjum tíma munu toga í ólíkar áttir. Stöku fundir forsætisráðherra Norðurlanda eða embættismanna munu ekki koma í veg þann veruleika þótt reynt sé að gefa annað í skyn nú í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslna.

Afleiðingin af inngöngu fleiri Norðurlanda í Evrópusambandið verður óhjákvæmilega sú að norrænt samstarf veikist frá því sem verið hefur. Jafnframt verður erfitt að taka upp þráðinn að nýju við breyttar aðstæður eftir að löndin væru orðin hluti af stærri heild.

 

 

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim