Jónas Árnason - minningarorð

Fæddur 28. maí 1923 - dáinn 5. apríl 1998

 

Jónas Árnason skilaði miklu dagsverki. Fyrirferðarmest og það sem trúlega heldur nafni hans lengst á lofti í óstöðugum heimi eru ritverkin, leikrit, sögur, viðtalsbækur og söngvar, alls um 25 bókaheiti, nokkur þeirra í tveimur útgáfum. Jónas var alþýðlegur höfundur í þess orðs bestu merkingu. Sögur hans eru ljúfar og stutt í kímni og gáska, sem var ein af margslungnum eigindum hans . Söngvarnir við lög eftir Jón Múla bróður hans og ýmsa erlenda höfunda lyftu leikritum hans í hæðir og eiga lengi eftir að hljóma á sviði og gleðja á samkomum. Menn eru fullsæmdir af slíku ævistarfi, en þó voru ritstörfin oftast aukageta í dagsins önn og langt frá því að tryggja efnahaginn eða standa undir mannmörgu heimili. Jónas var vel kvæntur, kona hans Guðrún Jónsdóttir afar traustur förunautur og lífsakkeri í ólgusjó skáldsins, börn þeirra fimm með mikið og gott vegarnesti úr foreldrahúsum.

Fyrir utan skáldskapinn sem fylgdi Jónasi seint og snemma skiptist starfsferill hans aðallega í þrennt, blaðamennsku 1944-1952, kennslu aðallega á gagnfræðastigi í fjórum skólum í 14 ár og þingmennsku í tveimur lotum samtals í 16 ár. Öllum þessum verkefnum skilaði Jónas af sér á eftirminnilegan hátt. Greinar hans á ungum aldri í róttæk blöð eins og Þjóðviljann og Landnemann vöktu mikla athygli. Það þótti tímanna tákn að sonur Árna frá Múla væri genginn í lið með þeim rauðu og væri í fararbroddi gegn amerískri ásælni. Vegarnesti úr bandarískum háskólum spillti ekki fyrir og átti eftir að reynast Jónasi drjúgt til tengsla við engilsaxneskan menningarheim.

Það voru tíðindi þegar þessi kornungi blaðamaður var kosinn á þing 26 ára gamall hausið 1949 og sat þar í fjögur ár samfleytt sem þingmaður Sósíalistaflokksins. Þetta var á tímum þess skemmtilega kosningalagakerfis sem hér gilti 1942-59 og var enn óútreiknanlegra en það sem á eftir fylgdi. Kjördæmin voru mörg, hlutfallskosningar réðu kjöri og síðan voru 11 uppbótarsæti til að jafna metin milli flokka. Jónas komst inn sem 10. landskjörinn á 66 atkvæðum Seyðfirðinga. Ekki hefi ég kafað í þingstörf hans þetta fyrsta kjörtímabil hans, en eitt mál gagnlegt fékk hann altént samþykkt: Samræmingu á leturborðum ritvéla.

Þegar kom að seinna þingskeiðinu 1967-1979 var Jónas orðinn vel sjóaður og landsþekktur rithöfundur. Nú voru það kjósendur á Vesturlandi sem tryggðu honu þingsæti og eftir það var hann nátengdur þeim landshluta og búsettur þar síðasta skeiðið. Hann sótti fylgi sitt víða að úr kjördæminu, meðal annars frá sveitafólki, og naut vinsælda og viðurkenningar langt út fyrir hefðbundnar raðir stuðningsmanna. Oft réðu tilfinningar og hughrif miklu um málafylgju Jónasar, en kjölfestan var næm réttlætiskennd og baráttan fyrir varðveislu þjóðlegs sjálfstæðis. Á þá stengi kunni hann að leika og reyndist drjúgur liðsmaður við að bera fram og kynna íslenskan málstað heima og erlendis ekki síst í landhelgisdeilum okkar við Breta. Náin kynni hans af sjómennsku reyndust honum þar notadrjúg ekki síður en á ritvellinum.

Ég hitti Jónas Árnason fyrst á Akureyri vorið 1953. Hann var þar staddur í tengslum við 1. maí hátíðahöld verkalýðsfélaganna. Kalda stríðið var í hápunkti og tvö ár frá því bandaríski herinn hreiðraði um sig öðru sinni á Miðnesheiði. Ég tók þarna þátt í kröfugöngu í fyrsta sinn og hélt mig nærri Jónasi undir merkjum um brottför hersins. Eftir að ég settist að í Neskaupstað að námi loknu bar fundum okkar saman þar og á vettvangi herstöðvaandstæðinga og Alþýðubandalagsins. Jónas kom alloft á sumrum með fjölskyldunni í heimsókn til Norðfjarðar, átti þar marga kunningja og aðdáendur frá því hann var þar kennari og sótti þangað efni sem víða má finna stað í ritverkum hans. Sumarið 1965 skruppum við Kristín í ógleymanlegt ferðalag með þeim hjónum til Borgarfjarðar og í bakaleið var gengið út á Héraðssand. Þar brá Jónas á leik við bárur hafsins.

Um það leyti sem ég var kosinn á þing var Jónas að kveðja þann vettvang. Við sátum saman einn vetur í óvenju stórum þingflokki Alþýðubandalagsins. Það lá misjafnlega á Jónasi þennan vetur enda ekki allt honum að skapi um stjórnarathafnir og áherslur. Samt var grunnt á gleðinni og gáskanum og þar átti hann eftirminnilegan mótspilara í Stefáni Jónssyni rétt eins og í leikritinu Allra meina bót. Sem betur fer átti hann mörg góð ár eftir þar þingmennskunni lauk, jók við nýjum bókum og textum til söngs og fágaði eldri útgáfur.

Jónas var ekki haldinn fullkomnunaráráttu og hann setti sig sjaldan í dómarasæti.Yfirdrep og hræsni voru honum ekki að skapi. Undir gáskafullu yfirborði þessa mikla sviðsmanns bjó mikil alvara og skaphiti sem stundum gat verið erfitt að hemja.Hann hafði skoðanir og lagði þær undir. Þannig munaði um hann í blíðu og stríðu.

 

Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim