Hjörleifur Guttormsson:

 

Vaxandi atvinnuleysi afleiðing ES-samrunans

 

Yfir Vestur-Evrópu hvílir nú skuggi atvinnuleysis, dekkri en annars staðar í iðnvæddum ríkjum á OECD-svæðinu. Fjöldi skráðra atvinnuleysingja í Evrópusambandinu nálgast nú 20 milljónir, sem er 11-12% af vinnuafli. Fyrirheit ráðherra og framkvæmdastjórnar ES um að draga myndi úr atvinnuleysinu með tilkomu innri markaðarins hafa reynst innihaldslausar. Sama máli gegnir um tillögur fjármálaráðherra ES frá vorinu 1993 um "Vaxtarpakka fyrir Evrópu". Aðgerðirnar sem tengdust honum áttu að tryggja 450 þúsund ný störf, en niðurstaðan varð sú að atvinnuleysið hefur aukist jafnt og þétt síðan.

 

Hagvöxtur leysir ekki vandann

Þetta þarf ekki að koma á óvart þegar litið er á innviði ES og þá efnahagsstefnu sem fylgt er. Þessi stefna tekur mið af undirbúningi að efnahags- og peningasambandi Evrópusambandsins (Economic and Monetary Union = EMU). ES býður aðeins upp á eitt ráð við vaxandi atvinnuleysi: meiri efnahagsvöxt, þ.e. afkastameira atvinnulíf. Fyrirtækjum á að fækka stórlega og eftir standa aðeins þau sem lifa af harðnandi samkeppni innri markaðarins.

Ört harðnandi samkeppni sem fylgir þessum stóra markaði ógnar atvinnuöryggi fjölda fólks innan ES. Aukin samkeppni þýðir hraðari breytingar á vinnumarkaði, fleiri uppsagnir, fleira fólk á eftirlaun fyrr en ella og fleiri atvinnulausa. Jafnframt fjölgar fólki í ótryggum störfum. Þannig skapast stóraukin félagsleg vandamál og um leið breikkar stöðugt bilið milli ríkra og fátækra. Samfélagið sem heild veikist að sama skapi og verður verr í stakk búið að fást við þau vandamál sem hið óhefta markaðskerfi leiðir af sér.

 

Samdráttarstefna í forsjá ES-seðlabanka

Forskrift væntanlegs efnahags- og peningasambands ES felur m.a. í sér kröfu um að fjárlagahalli landanna verði undir 3% af vergri þjóðarframleiðslu (VÞF), ríkisskuldir séu minni en 60% af VÞF og verðbólga sé minna en 1,5% yfir meðaltali verðbólgu í þeim þremur löndum þar sem hún er lægst. Verði þessum mælistikum beitt eins og fyrirhugað er munu þær örugglega valda miklum þrengingum á einstökum svæðum og jafnvel hruni í heilum landshlutum. Flest ES-ríki munu þurfa að framfylgja harðri samdráttarstefnu um langt skeið sem þýðir aftur enn aukið atvinnuleysi.

Forsjá peningastefnunnar á að verða í höndum eins sameiginlegs seðlabanka, væntanlega með aðsetur í Frankfurt. Þessi banki á að starfa óháð hverskyns pólitískri íhlutun og sjá um að verðlag á öllu ES-svæðinu haldist sem stöðugast. Þannig eiga hvorki ríkisstjórnir einstakra landa eða stofnanir ES að geta haft áhrif á störf bankans, en stjórn hans verður í höndum 6 bankastjóra og seðlabankastjóra aðildarríkja ES.

Þessi spennitreyja sem sniðin er að þýskri forskrift gerir í raun ríkisstjórnir ES-landa ómyndugar á sviði efnahags- og peningamála og ófærar um að beita sjálfstæðri stefnu út frá forsendum einstakra landa, m.a. í glímunni við atvinnuleysið.

 

Þjónustustörf lenda í alþjóðlegri samkeppni

Í stað þess að árangursríkasta leiðin til að tryggja sem flestum atvinnu er að fjölga atvinnugreinum sem standa utan við harða og óvægna samkeppni, dregur Evrópusambandið vagninn í öfuga átt. Til viðbótar við hefðbundnar útflutningsgreinar opnar innri markaðurinn og EES-samningurinn fjölda nýrra sviða fyrir beinni erlendri samkeppni. Þar skipta mestu þjónustugreinar sem skapað hafa æ fleirum atvinnu á eftirstríðsárunum. Störf í bönkum og tryggingafélögum, á sviði fjarskipta og samgangna lenda í harðri samkeppni í stað verndar sem þau áður nutu. Jafnframt er stefnt að því að leggja niður opinber þjónustufyrirtæki eða opna þau fyrir samkeppni og draga um leið úr möguleikum á jöfnunaraðgerðum milli þéttbýlis og dreifbýlis.

Hér hefur verið búinn til vítahringur í þágu markaðsafla og alþjóðlegs fjármagns og afleiðingin er samfélag með sívaxandi vandamál vegna atvinnuleysis, óöryggis og mismununar. Ætlar almenningur á Norðurlöndum að láta loka sig af í þessum vítahring með því að segja já við ES-aðild? Er ekki skynsamlegt fyrir okkur Íslendinga að halda efnahagslegum stjórntækjum sem mest í eigin höndum í stað þess að lúta forskrift frá Brussel og Frankfurt?

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 

 

 

 


Til baka | | Heim