Örlagamánuðir í sögu Norðurlanda. Framundan eru örlagamánuðir í sögu Norðurlanda. Þjóðaratkvæðagreiðslur í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi munu skera úr um það, hvort meirihluti fólks í þessum löndum kýs að gera Rómarsáttmála Evrópusambandsins með viðbótunum frá Maastricht að stjórnarskrá sinni eða velur að halda þjóðlegu sjálfstæði sínu. Höfundur þessarar greinar hefur fylgst náið með umræðunni á Norðurlöndum um þessi mál síðustu 5 ár. Það skiptir okkur Íslendinga miklu, hver verður niðurstaða grannþjóðanna þó að því fari víðs fjarri að hagsmunir okkar bjóði að við eigum að elta þær inn í Evrópusambandið. Hitt liggur fyrir að forysta Alþýðuflokksins knýr nú þegar á um aðild og nokkrir stjórnmálamenn í öðrum flokkum og talsmenn hagsmunasamtaka taka undir í þeim kór. Spurninguna um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu hlýtur að bera hátt í aðdraganda alþingiskosninga og frambjóðendur verða krafðir um svör. Í fáeinum greinum hér í blaðinu á næstunni mun ég fjalla um nokkra þætti þessa stóra máls og vona að einhverjir geti sótt í þær fróðleik. Rétt er að vekja athygli á að hér verður notuð skammstöfunin ES fyrir Evrópusambandið og tel ég það vænlegra en ESB. Hinn kosturinn væri að fylgja erlendri málvenju og tala um EU, þ.e. Evrópu-Union.
Hörð andstaða enn í Danmörku Danir sem hafa verið aðilar að Evrópubandalaginu (EF) og nú Evrópusambandinu (ES) í bráðum aldarfjórðung eru enn langt frá því að vera sáttir við sitt hlutskipti. Kosningarnar í Danmörku til þings Evrópusambandsins (EP) í júní 1994 staðfestu þetta rækilega, þar sem andstöðulistar við ES, óháðir hinum pólitísku flokkunum fengu um 25% atkvæða. Þetta gerist þrátt fyrir það að dönsku stjórnmálaflokkarnir reyna að segja kjósendum sínum að með undanþágunum frá Maastricht sem kenndar eru við Edinborg, hafi þeir tryggt Dönum fyrirvara við Maastricht-sáttmálanna á nokkrum sviðum. Ríkisstjórnir landanna þriggja geta ekki vísað til neinna slíkra undanþága. Þær hafa gengið að grundvelli EU eins og hann liggur fyrir eftir Maastricht og sérstaklega tekið fram að þær samþykki jafnframt þau stefnumið sem í sáttmálanum felst. Rómarsáttmálinn er óuppsegjanlegur Með því að segja já við aðildarsamningunum að ES væru þjóðirnar að binda sig ótímabundið inn í Evrópusamband sem hefur ríkisheild að markmiði. Rómarsáttmálinn er í reynd óuppsegjanlegur, þar eð sérstaklega er tekið fram að hann sé gerður til ótiltekins tíma (240.grein). Með atkvæðisrétti sínum er hver einstaklingur staddur á krossgötum og velur ekki aðeins fyrir sig, heldur börn sín og barnabörn. Um leið er fólk að ákveða hvort það með jái segi skilið við þjóðríkið með stofnunum þess og afhendi fjölþjóðlegu valdi án lýðræðislegs eftirlits að stjórna í stað þeirra. Í þessu er fólgið hið sögulega við uppgjör næstu mánaða. ES er ógnun við norræna velferðarríkið Norræn samfélög eins og við þekkjum þau frá síðustu áratugum eru ávöxtur lýðræðislegrar þróunar þar sem almenningur á kost á virkri þátttöku á öllum þrepum samfélagsins. Það er þetta sem við köllum norræna velferðarríkið eða norrænu samfélagsgerðina. Um þessa samfélagsgerð hefur til skamms tíma ríkt víðtækt samkomulag og viðleitnin beinst að því að bæta hana og treysta. Jafnvel hægri flokkar hafa með tilliti til kjósenda ekki beitt sér gegn henni af neinum krafti þótt innan þeirra hafi sótt á nýfrjálslynd viðhorf. Það eru helst flokkar eins og "framfaraflokkarnir" í Danmörku og Noregi sem hafa lagt til beinnar atlögu við velferðarþjóðfélagið með ómengaða frjálshyggju að leiðarljósi en fengið takmarkaðan stuðning. Það er einnig athyglisvert að nú í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslna um ES aðild, reyna talsmenn ríkisstjórnanna að telja fólki trú um, að einnig innan ES geti norræna samfélagsgerðin lifað af. Allir innviðir ES, stólpar innri markaðarins eins og við þekkjum þá af EES-samningnum svo og stjórnkerfi ES mæla hins vegar gegn því að þessi geti orðið raunin. Hvert leiðir óheft frelsi fjármagsins? ES þýðir frelsi fyrir markaðsöflin á kostnað samfélagslegra stofnana ríkis og sveitarfélaga. Með innri markaði ES hefur verið innleitt kerfi sem setur fyrirtæki sem í sívaxandi mæli eru fjölþjóðleg svo og fjármálastofnanir í öndvegi í samfélaginu í áður óþekktum mæli. Grundvöllur þessa markaðar sem nú spannar alla Vestur-Evrópu utan Sviss er að efnahagsstarfsemi skuli eiga sér stað þar sem hún er hagkvæmust. Óheft samkeppni og hagur fyrirtækjanna eins og hann mælist í bókhaldi þeirra á að verða ráðandi fyrir skipulag alls samfélagsins, og í þessu tilfelli er samfélagið ES-svæðið sem heild. Óheft samkeppni verður ráðandi um það hvaða fyrirtæki lifa af án tillits til samfélagslegra afleiðinga. Jafnframt er fjármagninu veitt óheft frelsi jafnt á sviði fjárfestinga og fjármagnsflutinga. Enga viðleitni er að finna innan ES til að stýra fjármagni, ef frá er talið sjóðakerfi sem tengist fjárlögum sambandsins. Þar er hins vegar um svo óverulegar upphæðir að ræða að þær hafa lítið að segja í efnahagslegu heildarsamhengi. Markaðsinngrip með fjármagnsstýringu stangast á við sjálfan grundvöll ES og viðleitni til afskipta takmarkast við eftirlit með sameiningu fyrirtækja, og hún hefur verið óveruleg til þessa. Það er því holur hljómur í þeim málflutningi talsmanna EU-aðildar að með aðild megi ná stjórn á fjármagni sem menn hafa misst tökin á í þjóðríkjunum í kjölfar eigin ákvarðana! Slíkur málflutningur heyrist ekki síst úr röðum sósíaldemókrata sem eiga í sívaxandi erfiðleikum með að skýra út fyrir eigin stuðningsmönnum, hvernig ES-aðild geti samrýmst hefðbundinni sósíaldemókratískri stefnu og varðstöðu um norræna samfélagsgerð. Hjörleifur Guttormsson
Hjörleifur Guttormsson: ES-aðild veikir félagslega ávinninga og norrænt samstarf ES-markaðinum er ætlað að taka til 360 milljóna manna, sem búa nú við gjörólíkar aðstæður, jafnt efnahagslega og að því er varðar menningu, hefðir og samfélagsgerð. Á þessu svæði eiga óheftar markaðslausnir að verða æðsta boðorð og þeim til stuðnings hefur verið settur saman dæmalaus frumskógur af reglugerðum. Á þessum markaði eru félagslegir þættir og umhverfi í þriðja og fjórða sæti á eftir samkeppni og hagkvæmnikröfum. Á ES-svæðinu eru nú gífurlega ólíkar aðstæður á vinnumarkaði, jafnt hvað varðar starfsumhverfi, aðstæður og áhrif verkalýðsfélaga og launakjör. Með tilkomu innri markaðarins verður unnt að beita samkeppnisreglum til að nota lág laun og léleg vinnuskilyrði til ávinnings í samkeppni. Það er ekki síst í krafti þessara aðstæðna sem norræn viðmið og gildi lenda úti í kuldanum. Verkalýðsfélög í varnarstöðu Nú þegar eru verkalýðsfélög á Norðurlöndum farin að finna fyrir þessum nýju aðstæðum vegna EES-samningsins og þær munu gera vart við sig með vaxandi þunga ef af að ES-aðild verður. Áunnin réttindi launafólks eru dregin í efa á þann hátt sem óhugsandi hefði verið á Norðurlöndum fyrir fáum árum. Innan ES er atvinnuleysinu nú þegar teflt fram blygðunarlaust til að lama og slæva baráttuþrek almennings gagnvart sókn auðmagnsaflanna. Það er von að margir spyrji hvernig það megi gerast að fremstu forystumenn sósíaldemókrata á Norðurlöndum skuli standa í fararbroddi við hlið hægri flokka og samtaka atvinnurekenda í viðleitni við að knýja fram meirihluta fyrir ES-aðild í löndunum. ES stenst enga lýðræðislega mælikvarða Stjórnkerfi ES er svo forneskjulegt að leita verður öld aftur í tímann til að finna hliðstæður utan einræðisríkja. Með ES og forverum þess allt frá 1957 hefur verið þróað kerfi sem snýr lýðræðislegri ákvarðanatöku og möguleikum almennings til áhrifa á haus. Löggjafar- og framkvæmdavald er flutt frá lýðræðislega kjörnum þjóðþingum og ríkisstjórnum sem starfa í umboði þeirra til yfirþjóðlegra valdastofnana þar sem lýðræðislegu eftirliti verður ekki við komið. Löggjafarvaldið er flutt til ráðherraráðs ES þar sem flestar ákvarðanir eru teknar með auknum meirihluta. Undirbúningur löggjafar og réttur til að leggja lagafrumvörp fyrir ráðherraráðið er eingöngu í höndum ES-framkvæmdastjórnarinnar sem styðst við embættismannaskarann í Brussel. Í reynd er ógerningur að kveðja þá til ábyrgðar sem undirbúa og taka ákvarðanir í kerfi sem þessu. Áhrif almannasamtaka á undirbúning og framkvæmd löggjafar sem nú eru veruleg á Norðurlöndum mega sín lítils í risakerfi sem þessu. Slík áhrif eru hins vegar þeim mun meiri af hálfu fjársterkra aðila, samtaka atvinnurekenda og fjölþjóðafyrirtækja, sem halda uppi herskara af hagsmunagæsluliði (lobbýistum) í Brussel. ES-þingið valdalítil stofnun ES-þingið, sem kallar sig Evrópuþing, er afar sérstæð stofnun með mjög takmörkuð völd og áhrif, langtum minni en við erum vön frá þjóðþingum. Það er t.d. ekki löggjafarsamkoma og hefur ekki einu sinni rétt til að flytja hvað þá að afgreiða lagafrumvörp. Á þingið eru kjörnir 567 þingmenn og fer fjöldi frá hverju landi eftir íbúafjölda. Þannig kjósa Danir 16 fulltrúa á Evrópuþingið, eða um 3% og svipað hlutfall myndi gilda um Norðurlöndin þrjú sem sótt hafa um aðild. Á þessari samkundu skipa þingmenn sér ekki eftir þjóðlöndum heldur eiga aðild að mismunandi flokkahópum. Þingmenn kjörnir í Danmörku mynda þar t.d. ekki danskan hóp, heldur dreifast á marga flokkahópa eftir stjórnmálaviðhorfum. Margir eru að átta sig á því, hversu vonlítið það er að ætla að koma á virku lýðræði á 360 milljón manna svæði ES, þar sem ekkert sameiginlegt tungumál er til staðar og engir opinberir aðilar til undir lýðræðislegu eftirliti. Það væri dýru verði keypt að knýja þjóðir Norðurlanda til að ganga inn í slíkan óskapnað og eyðileggja um leið tiltölulega öflug og lýðræðisleg þjóðríki heima fyrir. Norrænt samstarf hverfandi í ES Staðhæfingar um að norrænt samstarf muni blómstra innan ES eiga sér hvorki stoð í stofnunum eða starfsháttum Evrópusambandsins. Formlegt samstarf ríkjahópa er þar bannorð og mismunandi hagsmunir og ólík stjórnmálaforysta einstakra Norðurlanda á hverjum tíma munu toga í ólíkar áttir. Stöku fundir forsætisráðherra Norðurlanda eða embættismanna munu ekki koma í veg þann veruleika þótt reynt sé að gefa annað í skyn nú í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslna. Afleiðingin af inngöngu fleiri Norðurlanda í Evrópusambandið verður óhjákvæmilega sú að norrænt samstarf veikist frá því sem verið hefur. Jafnframt verður erfitt að taka upp þráðinn að nýju við breyttar aðstæður eftir að löndin væru orðin hluti af stærri heild. Fyrir löndin í útnorðri, Ísland, Færeyjar og Grænland er slík þróun ekki fagnaðarefni, því að fyrir þau hefur norrænt samstarf haft verulega þýðingu. Viðbrögðin eiga hins vegar ekki að vera þau að elta önnur Norðurlönd inn í ES heldur efla samstarf sitt innbyrðis, ekki síst á sviði hafrannsókna, sjávarútvegsmála og umhverfisverndar. Hafni Norðmenn aðild að ES verður staðan önnur og þá opnast möguleikar fyrir áframhaldandi og víðtækara samstarf landanna við norðaustanvert Atlantshaf. Núverandi deilur Íslendinga og Norðmanna mega ekki loka augum okkar fyrir nauðsyn á gagnkvæmu samstarfi þjóðanna um verndun og nýtingu sjávarauðlinda. Staðan á því sviði verður önnur og betri ef Norðmenn ásamt Íslendingum standa utan Evrópusambandsins. Hjörleifur Guttormsson
Hjörleifur Guttormsson: Vaxandi atvinnuleysi afleiðing ES-samrunans Yfir Vestur-Evrópu hvílir nú skuggi atvinnuleysis, dekkri en annars staðar í iðnvæddum ríkjum á OECD-svæðinu. Fjöldi skráðra atvinnuleysingja í Evrópusambandinu nálgast nú 20 milljónir, sem er 11-12% af vinnuafli. Fyrirheit ráðherra og framkvæmdastjórnar ES um að draga myndi úr atvinnuleysinu með tilkomu innri markaðarins hafa reynst innihaldslausar. Sama máli gegnir um tillögur fjármálaráðherra ES frá vorinu 1993 um "Vaxtarpakka fyrir Evrópu". Aðgerðirnar sem tengdust honum áttu að tryggja 450 þúsund ný störf, en niðurstaðan varð sú að atvinnuleysið hefur aukist jafnt og þétt síðan. Hagvöxtur leysir ekki vandann Þetta þarf ekki að koma á óvart þegar litið er á innviði ES og þá efnahagsstefnu sem fylgt er. Þessi stefna tekur mið af undirbúningi að efnahags- og peningasambandi Evrópusambandsins (Economic and Monetary Union = EMU). ES býður aðeins upp á eitt ráð við vaxandi atvinnuleysi: meiri efnahagsvöxt, þ.e. afkastameira atvinnulíf. Fyrirtækjum á að fækka stórlega og eftir standa aðeins þau sem lifa af harðnandi samkeppni innri markaðarins. Ört harðnandi samkeppni sem fylgir þessum stóra markaði ógnar atvinnuöryggi fjölda fólks innan ES. Aukin samkeppni þýðir hraðari breytingar á vinnumarkaði, fleiri uppsagnir, fleira fólk á eftirlaun fyrr en ella og fleiri atvinnulausa. Jafnframt fjölgar fólki í ótryggum störfum. Þannig skapast stóraukin félagsleg vandamál og um leið breikkar stöðugt bilið milli ríkra og fátækra. Samfélagið sem heild veikist að sama skapi og verður verr í stakk búið að fást við þau vandamál sem hið óhefta markaðskerfi leiðir af sér. Samdráttarstefna í forsjá ES-seðlabanka Forskrift væntanlegs efnahags- og peningasambands ES felur m.a. í sér kröfu um að fjárlagahalli landanna verði undir 3% af vergri þjóðarframleiðslu (VÞF), ríkisskuldir séu minni en 60% af VÞF og verðbólga sé minna en 1,5% yfir meðaltali verðbólgu í þeim þremur löndum þar sem hún er lægst. Verði þessum mælistikum beitt eins og fyrirhugað er munu þær örugglega valda miklum þrengingum á einstökum svæðum og jafnvel hruni í heilum landshlutum. Flest ES-ríki munu þurfa að framfylgja harðri samdráttarstefnu um langt skeið sem þýðir aftur enn aukið atvinnuleysi. Forsjá peningastefnunnar á að verða í höndum eins sameiginlegs seðlabanka, væntanlega með aðsetur í Frankfurt. Þessi banki á að starfa óháð hverskyns pólitískri íhlutun og sjá um að verðlag á öllu ES-svæðinu haldist sem stöðugast. Þannig eiga hvorki ríkisstjórnir einstakra landa eða stofnanir ES að geta haft áhrif á störf bankans, en stjórn hans verður í höndum 6 bankastjóra og seðlabankastjóra aðildarríkja ES. Þessi spennitreyja sem sniðin er að þýskri forskrift gerir í raun ríkisstjórnir ES-landa ómyndugar á sviði efnahags- og peningamála og ófærar um að beita sjálfstæðri stefnu út frá forsendum einstakra landa, m.a. í glímunni við atvinnuleysið. Þjónustustörf lenda í alþjóðlegri samkeppni Í stað þess að árangursríkasta leiðin til að tryggja sem flestum atvinnu er að fjölga atvinnugreinum sem standa utan við harða og óvægna samkeppni, dregur Evrópusambandið vagninn í öfuga átt. Til viðbótar við hefðbundnar útflutningsgreinar opnar innri markaðurinn og EES-samningurinn fjölda nýrra sviða fyrir beinni erlendri samkeppni. Þar skipta mestu þjónustugreinar sem skapað hafa æ fleirum atvinnu á eftirstríðsárunum. Störf í bönkum og tryggingafélögum, á sviði fjarskipta og samgangna lenda í harðri samkeppni í stað verndar sem þau áður nutu. Jafnframt er stefnt að því að leggja niður opinber þjónustufyrirtæki eða opna þau fyrir samkeppni og draga um leið úr möguleikum á jöfnunaraðgerðum milli þéttbýlis og dreifbýlis. Hér hefur verið búinn til vítahringur í þágu markaðsafla og alþjóðlegs fjármagns og afleiðingin er samfélag með sívaxandi vandamál vegna atvinnuleysis, óöryggis og mismununar. Ætlar almenningur á Norðurlöndum að láta loka sig af í þessum vítahring með því að segja já við ES-aðild? Er ekki skynsamlegt fyrir okkur Íslendinga að halda efnahagslegum stjórntækjum sem mest í eigin höndum í stað þess að lúta forskrift frá Brussel og Frankfurt? Hjörleifur Guttormsson
Hjörleifur Guttormsson: Stefna Evrópusambandsins gengur þvert á umhverfisvernd Umhverfisvernd með sjálfbæra þróun sem mælistiku er af æ fleirum talið stærsta málið litið til næstu framtíðar að ekki sé talað um 21. öldina. Frá því sjónarhorni ætti að vera auðvelt að dæma kerfi Evrópusambandsins úr leik og það gera líka flestir þeir sem taka umhverfismálin alvarlega. Vaxtarhyggjan sem er æðsta boðorð ES gengur þvert á vistfræðilega hugsun og kröfuna um umhverfisvernd. Náttúruverndarsamtök vara við ES-aðild Það þarf talsvert til að gamalgróin náttúruverndarsamtök eins og t.d. norska Naturvernforbundet og sænska Naturskyddsforeningen sem hafa innan sinna vébanda fólk úr ólíkum stjórnmálaflokkum og fjölda óflokksbundinna taki formlega afstöðu í stóru og umdeildu máli eins og spurningunni um aðild að Evrópusambandinu. Þetta hafa þau hins vegar gert svo og flest önnur umhverfisverndarsamtök á Norðurlöndum. Þegar á árinu 1991 tók norska Naturvernforbundet á landsfundi sínum opinberlega afstöðu gegn ES-aðild Noregs og sú afstaða hefur síðan verið ítrekuð margsinnis. Síðan hefur líka komið enn skýrar i ljós en áður, hvað ES í raun þýðir fyrir umhverfismálin á Norðurlöndum, m.a. að umhverfisstaðlar ES eru á mörgum sviðum langtum lakari en giltu í EFTA-ríkjunum. †msar undanþágur sem Noregur fékk í tengslum við EES-samninginn hafa verið strikaðar út í samningi Noregs um ES-aðild, t.d. varðandi skordýraeitur og þungmálma. Vaxandi mengun vegna innri markaðar ES Sérstakur vinnuhópur, svonefnd Task Force, sem settur var á laggirnar í tíð Evrópubandalagsins til að gera úttekt á áhrifum innri markaðarins á umhverfið, skilaði áliti haustið 1990. Niðurstöðurnar gera ráð fyrir gífurlega neikvæðum áhrifum sem vænta má af áætluðum efnahagsvexti í ES. Flutningar á vegum milli landa munu vaxa um 30-50% umfram það sem ella yrði og losun á brennisteinsdíoxíði og köfnunarefnisoxíðum aukast umtalsvert á næstu árum í stað þess að stefnt var að samdrætti í mengun frá slíkum efnum. Dýrkeypt reynsla Dana á þessu ári Sama máli gegnir um fjölmörg önnur efni, aukefni í matvælum og meðferð á erfðabreyttum lífverum, svo að fáein dæmi séu nefnd, þar sem gengið er þvert gegn áður viðtekinni stefnu á Norðurlöndum. Dæmigert fyrir stöðu umhverfisverndar í ES-sambandinu er hið umtalaða "madsminke-mál" í samskiptum danskra stjórnvalda við ES-dómstólinn og pólitískt ákvörðunarvald í Brussel. Það varðaði ES-reglugerð sem leyfir íblöndun ýmissa aukefna og rotvarnarefna í matvæli, þar á meðal í barnamat. Eftir margra ára baráttu gegn reglugerðardrögum ES á þessu sviði voru Danir knúðir til uppgjafar vorið 1994. Svonefnd "umhverfistrygging" (miljøgaranti) sem Danir fengu inn í samninga fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um breyttan EB-grundvöll 1986 reyndist einskisverð. ES-dómstóllinn kvað upp þann úrskurð að ekkert aðildarríki gæti beitt þessari tryggingu einhliða til að stöðva ákvarðanir. Vilji ES-ríki viðhalda strangari umhverfiskröfum en samþykktar hafa verið þurfi það fyrst að frá leyfi framkvæmdastjórnar ES! Svipuð urðu örlög danskra tillagna í ES-þinginu um að skerpa reglugerð um endurnotkun umbúða, bann við PVC í plastumbúðum og tryggingu um að viðhalda beri skilakerfi á glerflöskum. Þannig hafa kröfur um herta umhverfisvernd beðið lægri hlut í hverju málinu á fætur öðru innan ES. Þegar til kastanna kemur eru það reglur fjórfrelsisins um óhefta vörudreifingu sem gilda sem æðsta boðorð. Der Spiegel: ES er ógnun við við umhverfið Tímaritið Der Spiegel gaf út sérhefti vorið 1992 um áhrif innri markaðarins fyrir umhverfið undir heitinu: "Europa ohne Grenzen: Alarm fuer die Umwelt" (Evrópa án landamæra: Ógnun við umhverfið). Þeir sem kynnu að treysta Der Spiegel betur en málflutningi umhverfisverndarsamtaka ættu að kynna sér þetta rit. Hjörleifur Guttormsson
Hjörleifur Guttormsson: Efnahagsleg sérstaða Íslands og Evrópusambandið Með nokkurri einföldun er hægt að líkja efnahagsgrundvelli Íslendinga við Norður-Noreg, þar eð hann byggir að miklum hluta á fiskveiðum og fiskvinnslu. Svipuðu máli gegnir um nágrannana á vestursvæði Norðurlanda, Færeyinga og Grænlendinga. Íslendingar eru mjög háðir utanríkisviðskiptum og um 3/4 hlutar útflutningstekna fást fyrir sjávarafurðir. Sjávarútvegur okkar er tæknilega háþróaður og hefur síðustu áratugi á heildina litið staðið undir miklum efnahagsvexti. Það sem skilur á með okkur og Noregi sem heild er m.a. að þarlendis stendur sjávarútvegur aðeins undir um 6% þjóðartekna (ath.) og aðrir þættir vega þyngra í efnahagsstarfseminni. Ráðum einir yfir helstu nytjastofnum Íslendingar höfðu alþjóðlega séð frumkvæði að útfærslu landhelgi og fiskveiðilögsögu á eftirstríðsárunum og stefna okkar hafði mikil áhrif á þróun hafréttarmála. Eftir að 200 mílna fiskveiðilögsaga var almennt viðurkennd hafa Íslendingar ráðið einir yfir flestum nytjastofnum við landið. Um skiptingu loðnustofnsins á Norður-Atlantshafi gildir samkomulag við Norðmenn og Grænlendinga og falla samkvæmt því 78% stofnsins í hlut Íslendinga. Vandséð er hvernig land í stöðu Íslands gæti gerst aðili að Evrópusambandinu án þess að hætta til efnahagslegri og stjórnarfarslegri framtíð sinni í enn ríkari mæli en aðrar Evrópuþjóðir. Aðild landsins að Evrópsku efnahagssvæði var umdeildari á Íslandi en í öðrum EFTA-ríkjum að Sviss frátöldu, sem hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu aðild að EES. Þó fengu Íslendingar fram varanlega undanþágu við reglum ES um frjálsar fjárfestingar í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða. Á því sviði gilda íslensk lög sem banna erlendar fjárfestingar og eignarhlut útlendinga í þessum atvinnurekstri. ES-aðild fylgir afsal forræðis yfir sjávarauðlindum Ef við Íslendingar gengjum í Evrópusambandið að óbreyttri sameiginlegri fiskveiðistefnu ES jafngilti það því að þjóðin afsali sér yfirráðarétti sínum yfir sjávarauðlindum líkt og Noregur hefur gert.með samningi norsku ríkisstjórnarinnar um ES-aðild. Jafnframt yrði þessi aðalatvinnuvegur landsins háður leyfisveitingum frá Brussel og félli undir hafta- og styrkjastefnu sem einkennir meðferð sjávarútvegsmála innan bandalagsins. Núverandi stjórnkerfi í fiskveiðum á Íslandi, sem vissulega er umdeilt, byggir á veiðistjórnun með framseljanlegum aflakvótum. Slíkt kerfi samrýmist ekki fiskveiðistefnu ES og svipuðu máli gegnir varðandi hugmyndir um veiðigjald. Aðstaða Íslendinga er að þessu leyti ekki sambærileg við Noreg, þar sem ekki er um að ræða framseljanlega aflakvóta. Efnahagsstjórn og sveiflur í fiskistofnum Fiskistofnar á norðlægum slóðum eru sem kunnugt er háðir miklum sveiflum vegna breytilegra umhverfisskilyrða. Því skiptir öllu máli að við fiskveiðistjórnun sé beitt þekkingu og varúð og þannig tekið fullt tillit til aðstæðna í sjónum. Sé það ekki gert blasir við hrun einstakra stofna eins og mörg dæmi eru um og jafnvel vistkerfisins í heild um lengri tíma.Hið sama gildir um nauðsyn þess að koma í veg fyrir mengun hafsins á norðurslóðum, þar sem lífkerfið er sérstaklega viðkvæmt og tegundir tiltölulega fáar. Af þessu ástæðum skiptir það þjóðir sem byggja efnahag sinn á fiskveiðum öllu máli að halda yfirráðum yfir náttúruauðlindunum í eigin höndum og hafa sjálfar yfir að ráða efnahagslegum stjórntækjum sem gera kleift að bregðast við sveiflum í þjóðartekjum. Menn geta rétt ímyndað sér í hvaða stöðu Íslendingar væru komnir, ef þeir væru orðnir háðir spennitreyju efnahags- og peningasambands ES og lytu alveldi seðlabanka Evrópusambandsins. Sjálfstætt Ísland í alþjóðlegu samstarfi Hagmunum Íslendinga er að mínu mati best borgið með því að þjóðin standi utan við efnahagsbandalög og ríkjasambönd, þar sem stórveldi ráða ferðinni. Þetta á bæði við um Evrópusambandið (ES) og Fríverslunarsamband Norður-Ameríku (NAFTA). Íslendingar eiga ekki að láta loka sig af í tollabandalögum stríðandi markaðsblokka. Landfræðileg staða getur um langa framtíð gagnast Íslendingum í samskiptum til margra átta en því aðeins að þjóðin haldi sjálfstæði sínu, efnahagslega og pólitískt. Ef við gætum þess að varðveita yfirráð yfir náttúruauðlindum okkar og beitum okkur í alþjóðlegu samstarfi fyrir því að vernda umhverfi norðurslóða fyrir mengun og ofnýtingu verður unnt að halda á Íslandi uppi menningu og lífskjörum til jafns við það sem best gerist annars staðar. Hjörleifur Guttormsson Ísland er ekki á leið inn í EU Í blöðum á Norðurlöndum mátti í júní 1994 lesa fyrirsagnir eins og "Island vil med i EU" eða "Island på vej ind i EU". Ástæðan fyrir þessum fréttum var niðurstaða skoðanakönnunar sem gerð var á vegum Háskóla Íslands þar sem tæp 60% svöruðu játandi spurningunni, hvort æskilegt væri fyrir Ísland að sækja um aðild að EU en rúm 40% svöruðu nei. Þetta þóttu eðlilega nokkur tíðindi, einnig á Íslandi. Danski utanríkisráðherrann Niels Helveg Petersen skrifaði grein í BT 3. júlí 1994 undir fyrirsögninni "Island skal være velkommen i EU". Þar taldi ráðherran umrædda skoðanakönnun sýna "at 59 pct. af den islandske befolkning nu er tilhængere af islandsk EU-medlemskab." Margir stuðningsmenn EU aðildar á öðrum Norðurlöndum sem búið hafa við mikla andstöðu almennings við aðild tóku þessari skoðanakönnun eðlilega fagnandi og hafa reynt að nota hana áróðurslega. Þann 16. september birtist síðan önnur skoðanakönnun, gerð af sama aðila, sem sýndi verulega minnkað fylgi við aðildarumsókn. Eins og áður tók mjög stór hópur eða 38% aðspurðra ekki afstöðu til þess hvort sækja ætti um aðild, en hinn hlutinn skiptist jafnt milli já og nei. Íslendingar taka könnunum sem þessum með fyrirvara, þar á meðal íslenskir stjórnmálamenn sem vita að almenningur á Íslandi hefur mjög takmarkaðar upplýsingar um hvað felst í aðild að EU og málið hefur ekki verið á dagskrá af hálfu íslenskra stjórnvalda. Hins vegar voru íslenskir fjölmiðlar iðnir við það á fyrrihluta ársins að flytja fréttir af mati ráðamanna á öðrum Norðurlöndum um ágæti aðildarsamninga ríkisstjórna landanna við EU, ekki síst í Noregi. Undir þann áróður hefur tekið íslenski utanríkisráðherrann Jón Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins (sosialdemokratene),en flokkur hans nýtur nú aðeins stuðnings 5-10% kjósenda samkvæmt skoðanakönnunum. Utanríkisráðherrann er líka eini stjórnmálaforinginn á Íslandi sem mælir með að hið fyrsta verði send aðildarumsókn til Brussel. Þar gengur hann líka feti lengra en flokkur hans hefur samþykkt, en þing Alþýðuflokksins í júní sl. samþykkti að bíða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslna á öðrum Norðurlöndum áður en endanleg afstaða yrði tekin til umsóknar um aðild af hálfu flokksins. Málflutningur utanríkisráðherrans leiddi til nokkurs fjaðrafoks í ríkisstjórn Íslands, sem hefur haft þá stefnu að umsókn um aðild sé ekki á dagskrá. Þar styðst ríkisstjórnin ekki aðeins við samstarfssáttmála stjórnarflokkanna, heldur einnig við samþykkt Alþingis frá 5. maí 1993, þar sem því er lýst sem markmiði að gerður verði tvíhliða samningur milli Íslands og EU á grundvelli EES-samningsins, ef önnur EFTA-ríki gangi í Evrópusambandið. Forsætisráðherrann Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins (højre partiet), ræddi við ráðamenn í Brussel 26.-27. júlí 1994 og taldi sig þar hafa fengið góðar undirtektir við þá stefnu að ekki þurfi að taka langan tíma að ganga frá slíkum tvíhliða samningi Íslands við EU. Hann kallaði málflutning utanríkisráðherrans "sumarbólu" og "pólitíska leikfimi" og telur enga ástæðu til þess fyrir Íslendinga að endurmeta stöðu sína gagnvart EU fyrr en hugsanlega að lokinni ríkjaráðstefnu EU, en hún á að hefjast á árinu 1996. Tveir flokkar í stjórnarandstöðu, Alþýðubandalagið og Kvennalistinn, hafa þá stefnu að aðild að EU eigi ekki að koma til álita. Þriðji stjórnarandstöðuflokkurinn, Framsókn (senterparti) hefur einnig verið andvígur EU-aðild, en nýr formaður hans, Halldór Ásgrímsson, hefur þó lýst áhuga á einhverskonar áheyrnaraðild að stofnunum bandalagsins. Í viðræðum sem hann átti við Martin Bangemann í framkvæmdastjórn EU í Brussel 20. júní sl. fékk hann hins vegar ekki undirtektir við þá hugmynd. Eins og þetta yfirlit um afstöðu flokkanna ber með sér er langt frá því að nú sé til staðar pólitískur meirihluti á Íslandi fyrir því að sótt verði um aðild að EU. Ólíklegt er að á því verði breyting í náinni framtíð, t.d.í kjölfar alþingiskosninga, sem fram eiga að fara í apríl 1995. Sjálfstætt Ísland í alþjóðlegu samstarfi Ljóst er að fiskveiðistefna EU er af mörgum talin næg ástæða til þess fyrir Íslendinga að hugleiða ekki aðild að Evrópusambandinu. Íslenski utanríkisráðherrann er einn af fáum á Íslandi sem telja að norska ríkisstjórnin hafi náð góðum samningi á sjávarútvegssviði við EU. Eins og ljóst má vera af framansögðu telur undiritaður að hagmunum Íslendinga sé best borgið utan við efnahagsbandalög og ríkjasambönd, þar sem stórveldi ráða ferðinni. Þetta á bæði við um Evrópusambandið (EU) og Fríverslunarsamband Norður-Ameríku (NAFTA). Íslendingar eiga ekki að láta loka sig af í tollabandalögum stríðandi markaðsblokka. Landfræðileg staða getur um langa framtíð gagnast Íslendingum í samskiptum til margra átta en því aðeins að þeir haldi sjálfstæði sínu, efnahagslega og pólitískt. Ef íslenska þjóðin gætir þess að varðveita yfirráð yfir náttúruauðlindum sínum og beitir sér í alþjóðlegu samstarfi fyrir því að vernda umhverfi norðurslóða fyrir mengun og ofnýtingu verður unnt að halda á Íslandi uppi menningu og lífskjörum til jafns við það sem best gerist annars staðar. Hjörleifur Guttormsson
|