Eysteinn Jónsson látinn

 

Eysteinn Jónsson lést 86 ára að aldri þann11. ágúst og fór útför hans fram frá Hallgrímskirkju í Reykjavík í liðinni viku. Með honum er genginn rismikill persónuleiki og einn af áhrifamestu stjórnmálamönnum aldarinnar. Eysteinn var Austfirðingur, fæddur á Djúpavogi 13. nóvember 1906, sonur Jóns Finnssonar prests þar og konu hans Sigríðar Hansdóttur Beck frá Sómastöðum í Reyðarfirði. Hann ólst upp á Djúpavogi fram að tvítugsaldri en var síðan búsettur í Reykjavík.

Eysteinn var kosinn alþingismaður 27 ára og sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn nær samfellt í 40 ár (1933-1974), sem þingmaður Sunnmýlinga til 1959 og eftir það var hann þingmaður Austurlandskjördæmis. Hann var ráðherra árin1934-1942 og 1947-1958, lengst af sem fjármálaráðherra. Þingferli lauk hann sem forseti Sameinaðs þings 1971-1974. Eysteinn var alla tíð í fremstu forystu Framsóknarflokksins, fór fyrir þingflokknum 1934 og 1943-1969 og var formaður flokksins 1962-1968.

Ég man vel eftir Eysteini Jónssyni frá æskuárum mínum á Hallormsstað þar sem hann kom ár hvert við á heimili foreldra minna á ferðum sínum um kjördæmið. Einnig var hann ætíð á sumarhátíðum Framsóknarmanna í Atlavík og flutti þar oft ræður. Stuðningur við hann var mikill og almennur á minni heimaslóð og voru þeir jafnvel litnir hornauga sem skipuðu sér annars staðar í flokk, ekki síst til vinstri. Sem unglingur taldi ég mig ótvírætt í stuðningssveit Eysteins, en afstaða hans og fleiri forystumanna Framsóknar í sjálfstæðismálunum 1949-51 þegar Bandaríkin voru að tryggja sér hér hernaðaraðstöðu bundu endi á þann trúnað.

Hér eystra voru það lengst af Eysteinn og Lúðvík Jósefsson sem tókust á um fylgið og urðu þeim eftirminnilegir sem álengdar stóðu. Gekk á ýmsu í þeirri viðureign. Hins vegar komu þau átök ekki í veg fyrir gott samstarf þeirra á þingi um brýnustu hagsmunamál kjördæmisins. Persónuleg tengsl þeirra áttu án efa þátt í myndun og árangri vinstri stjórna 1956 og aftur 1971, en Eysteinn kaus að taka ekki ráðherrasæti í þeirri síðari.

Síðasta hluta starfsæfi sinnar helgaði Eysteinn að drjúgum hluta náttúruverndarmálum. Á ferðum sínum í tengslum við stjórnmálin hafði hann kynnst landinu náið og um miðjan aldur varð útivist með gönguferðum og skíðaiðkunum helsta tómstundagaman hans og heilsubót. Eftir að Eysteinn lét af störfum sem formaður Framsóknarflokksins 1968 beitti hann sér á Alþingi í þágu náttúruverndarmála, sem þá hlutu vaxandi athygli innanlands og utan. Hann sat í nefnd sem endurskoðaði náttúruverndarlögin frá 1956, en tillögur hennar leiddu til að sett voru ný lög um náttúruvernd 1971. Þeim lögum fylgdi hann eftir sem formaður Náttúruverndarráðs 1972-1978. Á þeim vettvangi urðum við samstarfsmenn í 6 ár. Þetta var sóknartímabil í náttúruvernd hérlendis og mikils virði að hafa Eystein þar í forustu.

Mjög góð tengsl tókust á þessum árum milli áhugamannafélaga um náttúruvernd og Náttúruverndarráðs og Eysteinn hafði næman skilning á gildi þeirra til að ná árangri. Náttúruverndarsamtök Austurlands fengu Eystein til að tala á aðalfundi samtakanna á Djúpavogi haustið 1972. Í tengslum við fundinn fór fjölmennur hópur á mörgum bátum út í Papey. Eysteinn kom í fæðingarbyggð sína kvöldið fyrir aðalfundinn; það segir sína sögu að þá þegar dreif hann oddvita staðarins með sér niður í fjöru til að tína saman ruslið sem safnast hafði fyrir við voginn.

Síðari árin hitti ég Eystein stöku sinnum og bar þá eitt og annað á góma um náttúruvernd og þjóðmál. Síðast er við áttum tal saman höfðu hrannast upp blikur með samningi um Evrópskt efnahagssvæði, sem olli honum miklum áhyggjum. Mér þótti sem harla lítið skildi okkur lengur að það er máli skipti.

Eysteinn Jónsson skilaði miklu ævistarfi. Hann var eindreginn félagshyggjumaður, ósérhlífinn með afbrigðum, hlýr og raungóður í smáu og stóru. Sem kappsfullur stjórnmálamaður var hann eðlilega umdeildur en málafylgja hans var heiðarleg og laus við rætni. Af ferli slíkra manna má margt læra.

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim