Hjörleifur Guttormsson:

 

Flokkakerfi og stympingarnar í Alþýðuflokknum

 

Uppgjör í formi alþingiskosninga er skammt undan hérlendis og skiptir úr þessu ekki öllu hvort það fer fram hálfu ári fyrr eða síðar. Stjórnmálaflokkarnir ættu að öllu eðlilegu að vera uppteknir við að skýra stefnu sína gagnvart kjósendum og fylla í eyðurnar þar sem á vantar á eigin bæ. Þess utan eru svo þeir sem ekki finna sér stað innan þeirra flokka sem fyrir eru, hvort sem það er af málefnalegum ástæðum eða þeir fá ekki stuðning við persónulegan metnað. Af slíkum rótum hafa sprottið framboð einstaklinga og nýir "flokkar", og er margs að minnast í þeim efnum frá síðustu áratugum. Slíkum hræringum fylgja ætíð umræður um að nú sé gamla flokkakerfið að syngja sitt síðasta. Kvennalistinn er hinsvegar eina dæmið um stjórnmálaafl sem náð hefur rótfestu meðal kjósenda og hann hefur smám saman verið að taka á sig hefðbundna mynd.

 

Stjórnmálaflokkar kjölfesta fulltrúalýðræðis

Fjölmiðlar sýna deilum, einkum persónubundnum, vaxandi áhuga samhliða harðnandi samkeppni um fréttaefni. Þeir ýta undir ryskingar innan flokkanna í góðri samvinnu við þá sem telja sig hafa hag af stympingunum. Inn í þetta spilar síðan fjármagn og bein ítök í fjölmiðlum í vaxandi mæli, eins og skýr dæmi eru um hérlendis.

Ekkert flokkakerfi er löggilt eða heilagt fremur en önnur mannanna verk. Stjórnmálaflokkar eru hluti af fulltrúalýðræðinu og eru þar í raun kjölfestan, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Lífseigja og þróttur stjórnmálaflokka er kominn undir því fólki sem skipar sér innan þeirra og þeim málstað sem það telur sig sameiginlega hafa að verja. Þetta á sérstaklega við um vinstri flokka, þar sem fjárhagslegir hagsmunir koma lítið við sögu. Því verður ekki haldið fram með vísun til Evrópulanda að fjöldi flokka sem hér hafa haft fótfestu á Alþingi sé mikill. Bretland er viss undantekning vegna kosningakerfis sem a.m.k. vinstrimenn hafa ekki talið til eftirbreytni. Samsteypustjórnir eru algengasta stjórnarformið og sums staðar er nokkur hefð fyrir minnihlutastjórnum í skjóli þingflokka.

 

Sviptingarnar í Alþýðuflokknum

Innan Alþýðuflokksins hafa orðið talsverðar sviptingar sem eiga sér nokkurn aðdraganda. Þær hafa birst mönnum sem mjög persónubundið uppgjör milli Jóns Hannibalssonar og Jóhönnu Sigurðardóttur. Enginn skýr málefnaágreiningur hefur komið fram í þessum átökum sem best sést á því að ályktanir á nýafstöðnu flokkþingi gengu fram samhljóða. Svo er að sjá sem Jóhanna hafi talið þær fullgóðan grundvöll til að starfa eftir, bara ef hún hefði náð kjöri sem formaður. Í umræðum eftir þingið hefur það heldur ekki komið fram, hvað það er sem Jóhanna gerir ágreining um við ráðandi forystu og hefur hún þó haft auðveldan aðgang að fjölmiðlum til að túlka sitt mál. Almennt tal um stuðning við félagshyggju segir harla lítið.

Óljós málatilbúnaður af hendi Jóhönnu er þeim mun sérkennilegri sem hún er enginn nýgræðingur í pólitík. Hún hefur verið ráðherra í þremur ríkisstjórnum og setið í sama ráðuneyti samfleytt í sjö ár. Slíkt hefði átt að auðvelda henni málefnalegt uppgjör og að sýna fram á í hverju sérstaða hennar sé fólgin. Það er ekkert nýtt eða óvenjulegt að ráðherra í fjárkræfu ráðuneyti telji sig fá ónóg fjármagn til sinna málaflokka frá ári til árs. En Jóhanna hefur ekki verið óánægðari með sinn hlut þar á bæ en svo að hún hefur setið sem fastast. Ekki hefur heldur borið á sérstökum ágreiningi hennar innan ríkisstjórna eða þings á öðrum málefnasviðum, t.d. í stærsta ágreiningsmáli síðustu ára sem var aðildin Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Sjálf hefur hún sem ráðherra keyrt á fullu með lagabreytingar til samræmis við löggjöf Evrópusambandsins og er margt af því tóbaki þó félagshyggju til lítils framdráttar.

 

Umdeild málafylgja Jóhönnu

Málafylgja Jóhönnu á sviði félagsmála hefur verið umdeild. Það á t.d. við um húsnæðismál og sveitarstjórnarmál, ekki síst í tengslum við sameiningu sveitarfélaga og nú síðast útfærslu á reynslusveitarfélögum. Þar hefur víða meira gætt kapps en forsjár. Í húsnæðismálum hefur hún nánast verið á stöðugum flótta undan eigin verkum og samskipti hennar við stjórn Húsnæðismálastofnunar eru kapítuli út af fyrir sig.

Þetta er ekki rifjað upp af neinni óvild í garð Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún hefur átt sína góðu spretti í pólitík og hefur eflaust gildar ástæður til gagnrýni á starfsstíl Jóns Hannibalssonar. Ferill hennar er hins vegar engin sérstök ávísun á nýjar áherslur til vinstri í stjórnmálum. Það er erfitt að sjá hvaða tilgangi það þjónar af hálfu Vikublaðsins sem málgagns Alþýðubandalagsins að ætla Jóhönnu meira en hún á eða gylla hana sem æskilegan "samnefnara félagshyggjuframboðs út fyrir núverandi flokkalínur". Jóhönnu er þess stundina líkt farið og halastjörnu að braut hennar er óráðin. Það er líka hygginna háttur að skoða innihaldið áður en farið er að auglýsa umbúðirnar.

Hjörleifur Guttormsson

 

 

 

 

 

 

 


Til baka | | Heim