Dásamlegt gönguland við Borgarfjörð eystri

 

Frásögn og myndir úr AB-ferð á Austurlandi eftir fararstjórann Hjörleif Guttormsson.

 

Það verður enginn vonsvikinn af því að verja nokkrum dögum til göngu frá Borgarfirði eystri. Umhverfið er afar fjölbreytt að formi og litum og kannski var það engin tilviljun að einn þekktasti listmálari þjóðarinnar, Jóhannes Sveinsson Kjarval, skyldi einmitt vaxinn upp í slíku umhverfi. Íbúar Borgarfjarðar sem nú telja innan við 200 manns eru sem óðast að búa í haginn fyrir nútímalega ferðaþjónustu. Hún miðast ekki síst við stuttar og langar gönguferðir og á þessu sumri vinna heimamenn að því að setja stikur við gönguleiðir austur í Víkur og umhverfis Dyrfjöll.

Alþýðubandalagið á Austurlandi hefur í tvo áratugi gengist fyrir skemmtiferðum innan fjórðungs og er komin hefð fyrir þeim fyrstu helgina í júlí. Ýmist er um að ræða eins eða tveggja daga ferðir og alltaf fitjað upp á nýbreytni í leiðavali. Ferðir þessar hafa frá upphafi notið vinsælda, enda fá menn þar kynni af náttúru og byggðasögu og reynt er að vanda til leiðsagnar. Ferðirnar eru öllum opnar og taka þátt í þeim ungir og aldnir.

Að þessu sinni varð Borgarfjörður eystri fyrir valinu og gönguferð í Víkur austan hans, nánar tiltekið í Brúnavík, Hvalvík og Kjólsvík. Milli þeirra síðartöldu er Glettingsnes og upp af því fjallið Glettingur. Í þessum víkum var búið áður fyrr, ekki færri en hundrað manns um aldamótin 1900, og því af nógu að taka fyrir áhugamenn um byggðasögu og ættfræði.

Vorið var svalt á Austurlandi og lá mikið í norðlægum áttum. Útlit var ekki gott vikuna fyrir ráðgerða ferð, þrálát norðaustanátt og rigning á þessu landshorni. Fjöldi fólks skráði sig þó í ferðina og reyndust þátttakendur yfir 80 þegar upp var lagt laugardaginn 6. júlí. Þrjár rútur fluttu fólk úr fjörðum og af Héraði til Borgarfjarðar snemma morguns. Þoka var í fjöllum fram eftir morgni, en það var eins og við manninn mælt að hún vék fyrir göngufólki og gerði brátt hið besta veður, stillt með sólarglætu öðru hvoru.

Við félagsheimilið Fjarðarborg bauð Helgi Arngrímsson framkvæmdastjóri aðkomufólk velkomið og síðan var lagt í gönguferð um Hofstrandarskarð áleiðis til Brúnavíkur. Hér er gengið inn í heim líparítsins milli Geitfells og Svartfells um stórfelld framhlaup úr því síðartalda beggja vegna skarðsins. Hér er að finna afurðir megineldstöðvar sem kennd hefur verið við Breiðuvík litlu sunnar, en ísaldarjöklar hafa grafið út Borgarfjörð milli hennar og Dyrfjallaeldstöðvar vestan fjarðar.

Gróðursælt er í Borgarfirði og Víkum nema hlíðar líparítfjallanna sem eru skriðurunnar og halda ekki raka. Hér finnast nokkrar fágætar plöntur eins og súrsmæra, bjöllulyng og ljósalyng. Ljósalyngið fannst fyrst hérlendis í Brúnavík vorið 1985 og nú var það í blóma. Í Brúnavík var lengst af tvíbýli en víkin fór í eyði 1944.

Það tókst að stikla Brúnavíkurá hjá Seli með góðra manna aðstoð og þaðan var gengið upp í Súluskarð þaðan sem Hvalvík og Glettingur blöstu við. Í Hvalvík var síðast búið 1842 en á Glettingsnesi 1952. Þokuslæðingur var á Glettingskolli og af þeim sökum og tímans vegna stytti hópurinn sér leið og gekk utan í Súlutindi um Suðurvarp til Kjólsvíkur. Á Suðurvarpi opnast mikið og fagurt útsýni suður yfir Breiðuvík, til Dalatanga, Barðsneshorns og Gerpis.

Í Kjólsvík var einn bær sem stóð á sjávarbakka sunnan undir Glettingi. Nafnið er dregið af kletti ofan bæjar sem Kjóll heitir og sagður merkja skip. Einn af Kjólsvíkurbændum snemma á þessari öld var Guðmundur Magnússon (dáinn 1923) faðir Sigurðar er um langt skeið var ritstjóri Þjóðviljans. Magnús Benónýsson afi Sigurðar bjó á Glettingsnesi til 1893 og langafi hans Benóný var síðasti bóndinn í Hvalvík. Systir Magnúsar hét Brandþrúður, var skáldmælt og stundaði sjóróðra frá Glettingsnesi með bróður sínum.

Úr innanverðri Kjólsvík var fylgt troðningum yfir Kjólsvíkurskarð og eftir Þrándarhrygg til Borgarfjarðar. Þar nutu menn kvöldsólar um hríð eftir sjö og hálfs tíma göngu, hresstu sig á kaffi í Fjarðarborg og sumir keyptu sér skrautsteina til minningar í verslun Álfasteins. Á heimleið um Njarðvík og Útmannasveit leysti þoku af Dyrfjöllum og allir náðu heim með minningar um góðan dag í ævintýrlegu umhverfi.

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 

Textar með myndum H.G. (samsvarandi númer er á bakhlið mynda):

1. Lagt upp frá Hofströnd í Borgarfirði; glittir í Dyrfjöll handan við.

2. Áning í Súluskarði milli Brúnavíkur og Hvalvíkur.

3. Berghlaup skapa víða tilbreytingu í landlaginu.

4. Gengið austan í Súlutindi fyrir botn Hvalvíkur.

5. Útsýni af Suðurvarpi til Breiðuvíkur og annesja.

6. Á heimleið úr Kjólsvíkurvarpi; vangi Staðarfjalls.

7. Úti fyrir verslun Álfasteins í kvöldsól.

8. Kvaddur Borgarfjörður með Staðarfjall uppljómað.

------------------

 

 


Til baka | | Heim