Björn Björnsson á Bakka
(25. des.1912 - 5. sept. 1994)

 

Sá sem þetta ritar hafði ekki verið marga daga í Neskaupstað þegar leiðin lá í Bakkabúð til að kaupa sitthvað smálegt til viðbótar því sem fékkst í kaupfélaginu. Fljótlega komst ég að því að kaupmaðurinn handan við búðarborðið lumaði á ýmsu fleiru en því sem fór í gegnum handsnúnu reiknivélina og hugarheimur hans náði langt út fyrir fjölbreyttan lagerinn.

Björn Björnsson var náttúruunnandi og bjó yfir þekkingu á sínu umhverfi langt umfram það sem algengt getur talist. þar naut hann föður síns sem var landsþekktur ljósmyndari og áhugamaður um fugla. Einnig nýttist Birni vel skólagangan til gagnfræðaprófs á Akureyri og vetrarlangt í Samvinnuskóla. Hann tók fljótlega að miðla mér fróðleik úr athugunum sínum í Norðfirði í stuttum hléum sem gáfust frá afgreiðslu í búðinni. "Það er aldrei tími" var viðkvæði hans þegar slíta þurfti góðu samtali eða "Við tölum um það næst".

Eftir að bæjarstjórn tók ákvörðun um að setja á fót náttúrugripasafn í Neskaupstað sýndi Björn því máli strax áhuga. Byrjað var með tvær hendur tómar en frá Birni kom fyrsti aðsendi gripurinn til safnnefndarinnar, samsettur steinn með hraunáferð sem hann hafði fundið úti í Haga og í brotinu.var fólgin vatnsnúin steinvala. Úr þessu sýnishorni mátti lesa talsverða sögu. Þeir urðu fleiri gripirnir sem hann gaf til safnsins sem og ágæt sýnishorn fuglamynda eftir föður sinn.

Björn átti um árabil sæti í Náttúruverndarnefnd Neskaupstaðar og lagði þar gott til mála. Hann átti m.a. drjúgan þátt í að stöðva grjótnám innst úr Hagaklettum, þegar ráðist var í stóra viðlegubryggju í miðbænum 1964-65. Síðar áttum við eftir að leggjast saman á árar í nefndinni þegar kom að stofnun fólkvangs Neskaupstaðar.árið 1971.

Við stofnun NAUST, Náttúruverndarsamtaka Austurlands, árið 1970 stóð ekki á liðveislu Björns á Bakka sem og fleiri áhugamanna af hans kynslóð í Neskaupstað. Björn átti um skeið sæti í stjórn NAUST og lagði samtökunum ætíð gott til. Sérstaklega er mér minnisstæð aðild hans að dagskrá Sambands íslenskra náttúruverndarfélaga í Norræna húsinu fyrrihluta árs 1976. Það var stór og óvænt stund að fá þarna troðfullt hús áheyrenda og Björn sýndi litskyggnur og sagði frá fuglalífi í Norðfirði við ágætar undirtektir. Fyrir mig sem nokkuð kappsfullan náttúruverndarmann var ekki ónýtt að eiga að menn eins og Björn Björnsson, einnig til að efla tengsl við þann hóp manna sem hann átti samleið með í stjórnmálum.

Um pólitík deildum við Björn aldrei og bæri slík umræðuefni á góma var það oftast með gamansömu ívafi. Kannski bar líka minna á milli en flokksböndin gáfu tilefni til að ætla. Fyrir kom að hann ræddi við mig málefni Sparisjóðs Norðfjarðar, en þeirri stofnun helgaði hann mikið af takmörkuðum frítíma sínum í marga áratugi.

Heimili .þeirra Björns og Guðlaugar Ingvarsdóttur var stórt og börnin urðu níu talsins. Tvær dætra þeirra voru í hópi nemenda minna í gagnfræðaskólanum þau ár sem ég kenndi og önnur þeirra hefur síðan verið í góðu nábýli við okkur Kristínu í Neskaupstað. Þótt Guðlaug væri stoð og stytta heimilisins innanstokks veit ég að einnig kaupmaðurinn gaf börnum sínum talsvert af þeim tíma sem lengst af var minni en enginn frá daglegu amstri. Nú er hann genginn á vit þeirrar náttúru sem veitti honum lífsfyllingu. Við þökkum samfylgd hans og vottum Guðlaugu og öðrum aðstandendum samúð.

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim