Hjörleifur Guttormsson:

Við áramót
1992-93

Á þessum vetrarmánuðum er margt sem veldur áhyggjum í íslensku samfélagi. þar ber hæst afsal þjóðréttinda með samningnum um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði, vaxandi atvinnuleysi og misskipting í þjóðfélaginu, stefnuleysi í atvinnumálum og um verndun og nýtingu auðlinda svo og á mörgum fleiri sviðum sem miklu varða um framtíð þjóðarinnar. Flest tengjast þessi mál ríkjandi stjórnarstefnu og þeim meirihluta sem nú ræður ferðinni á Alþingi.

 

Atvinnuleysi og vaxandi misskipting

Atvinnuleysi er orðið hlutskipti þúsunda árið um kring og fer ört vaxandi. Lífskjör almennings hafa rýrnað verulega og ákvarðanir meirihlutans á Alþingi nú fyrir jólin auka enn verulega á vandann. Með þeim voru skattbyrðar fluttar frá fyrirtækjum yfir á launafólk og dregið úr stuðningi almannatryggingakerfisins. ASÍ telur að afleiðingar þessara ráðstafana verði að óbreyttu 7,5% rýrnun kaupmáttar til loka þessa árs. Skriða verðhækkana gengur nú yfir í kjölfarið. það eru lágtekjuhóparnir í þjóðfélaginu sem síst þola þessar aðgerðir. En það á einnig við um einstæða foreldra og fjölskyldur sem eru að koma upp börnum og greiða af húsnæðislánum jafnvel þótt aflað sé miðlungstekna. Með ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar er enn aukið á mismunun í íslensku samfélagi eftir búsetu manna og efnahag.

það eru ekki bara talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna sem kveða upp harða dóma um ríkisstjórnina um þessar mundir. Pétur Sigurðsson verkalýðsforystumaður úr röðum Alþýðuflokksins segir ríkistjórnina dæma sig sjálfa frá völdum með ákvörðunum sínum og Hrafnkell A.Jónsson varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins tók í svipaðan streng skömmu fyrir jól. Fjölmennir fundir verkalýðsfélaga samþykktu harðorðar ályktanir gegn ríkisstjórninni rétt fyrir jól. Ríkisstjórnin og atvinnurekendur hættu samráði við samtök launafólks í miðjum klíðum sl. haust og nú fylkja verkalýðsfélög liði til að reyna að rétta sinn hlut.

Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur verið haldið afar klaufalega á málum í samskiptum við aðila vinnumarkaðarins. því má búast við að átök á vinnumarkaði setji svip á þjóðlífið á næstu mánuðum. Stjórnarliðar sem heimta nú þjóðarsátt eftir að hafa greitt álögum ríkisstjórnarinnar atkvæði sitt á Alþingi búa yfir lítilli réttlætiskennd að ekki sé talað um sómatilfinningu.

 

Skerðing á sjálfsákvörðunarrétti

Oft áður hefur verið deilt um kaup og kjör í landinu og þótt slíkar deilur og vaxandi atvinnuleysi sé vissulega áhyggjuefni er það léttvægt í samanburði við samninginn um EES. Með honum er verið að gjörbreyta leikreglunum í íslensku samfélagi og varpa fyrir borð mikilvægum stjórntækjum í efnahags- og atvinnumálum Íslendinga. Stuðningsmenn samningsins sem staðhæfa eða hér sé á ferð ósköp venjulegur viðskiptasamningur mæla annaðhvort af vankunnáttu eða gegn betri vitund. Í samningnum og því ferli sem hann markar felst mikil skerðing á sjálfsákvörðunarrétti landsmanna bæði að formi og innihaldi. Gengið er gegn stjórnarskrárbundnum ákvæðum um að dómsvaldið sé innlent og eftir staðfestingu samningsins dregur stórum úr löggjafarvaldi Alþingis sem fær það hlutverk að stimpla ákvarðanir sem teknar hafa verið af framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins.

það er afar langt frá því að einhver nauður reki okkur til að gera þennan samning. Efnahagslegur ávinningur Íslendinga af samningnum til skamms tíma litið er afar óviss, svo vægt sé til orða tekið. Tollalækkanir á fiskafurðum eru m.a. keyptar því verði að hleypa skipum frá Evrópubandalaginu inn í íslenska fiskveiðilögsögu og samningsaðilar skuldbinda sig til árlegra viðræðna um fiskveiðiheimildir.

Enn afdrifaríkara er þó að með samningnum yfirtökum við meirihlutann af lögum og reglum Evrópubandalagsins og auðveldum þeim öflum hér á landi eftirleikinn sem keyra ætla Íslendinga alla leið að borðinu í Brussel. Forystumenn núverandi stjórnarflokka hafa talað nógu skýrt til þess að menn ættu að skilja að að EES-samningur verður ekki fyrr kominn í höfn en aðild að EB yrði af þeirra hálfu næsta mál á dagskrá. Ríkisstjórnin hefur nýlega ákveðið fyrir sitt leyti aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu sem er hernaðararmur Evrópubandalagsins og taldi sig ekki þurfa að leita álits Alþingis á þeirri ráðagjörð. Og þessa dagana segir forsætisráðherra landsins þjóð sinni að það sé sérstök fórn af Íslands hálfu að slást ekki í hóp þeirra EFTA-þjóða sem sótt hafa um aðild að Maastricht-samveldinu!

 

Auðlindir á uppboði

Kjarninn í EES-samningum felst í ákvæðinu um að ekki megi mismuna neinum á samningssvæðinu eftir þjóðerni. þar með fá allir Vestur-Evrópubúar hliðstæðan rétt til atvinnu og efnahagslegra umsvifa hér á landi og við Íslendingar höfum sumpart búið að einir um langan aldur. þetta á m.a. að gilda varðandi kaup á fasteignum og landi og ekkert er frágengið varðandi orkulindirnar í því samhengi. Verði orkufyrirtæki gerð að hlutafélögum eins og hugur ríkisstjórnarinnar stendur til getur enginn meinað útlendingum að eignast þar hlut. Aðeins fjárfesting í fiskiskipum og frumvinnslu sjávarafurða er undanskilin að íslenskum lögum, en þó ljóst að þungt mun reynast að halda þeirri gullkistu lokaðri til lengdar eftir að allt annað er komið á uppboð. Svo heilagt er ákvæðið um afnám mismununar eftir þjóðerni í samningnum að ríkisstjórnin hefur flutt sérstakt frumvarp til að fella niður einkarétt íslenskra ríkisborgara til fuglaveiða í almenningum á hálendi landsins!

 

Forysta Framsóknar sundruð

Hrakfallasaga EES-samningsins er orðin alllöng og ýmsir hafa lifað í þeirri von að málið dagaði uppi. þessa stundina er Alþingi að kröfu ríkisstjórnarinnar að fjalla um samninginn eins og hann leit út áður en Svisslendingar sögðu sig frá málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Utanríkisráðherra hefur á undanförnum vikum ítrekað sagt Alþingi ósatt um formlega stöðu málsins og nú er t.d. ljóst að ríkjaráðstefnan sem hann fullyrti að haldin yrði nú í janúar til að ganga frá breytingum á samningnum verður ekki kvödd saman fyrr en í mars. Að því búnu þarf á ný að leita staðfestingar Alþingis og 17 annarra þjóðþinga á samningnum. það kemur því úr hörðustu átt að utanríkisráðherra sé að skamma Alþingi fyrir að afgreiða ekki samning, sem enn er ekki frágenginn!

Lengi vel var ástæða til að ætla að tvísýnt gæti orðið um meirihluta á Alþingi fyrir samningnum. Stjórnarandstaðan á þar 27 atkvæði og vitað var að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru andvígir samningnum og von gat verið um að sá hópur stækkaði. þessi staða breyttist hins vegar ríkisstjórninni í vil eftir að Ingibjörg Gísladóttir þingmaður Kvennalistans lýsti yfir efnislegu fylgi sínu við samninginn þvert gegn mótaðri stefnu Samtaka um kvennalista og stuttu síðar varð ljós djúpstæður klofningur í þingflokki Framsóknarmanna í afstöðu til samningsins. Í forystu fyrir þeim þingmönnum Framsóknar sem styðja EES-samninginn efnislega og boðað hafa hjásetu við afgreiðslu málsins eru þingmenn flokksins í Austurlandskjördæmi.

Betri stöðu gat utanríkisráðherrann ekki óskað sér á úrslitastundu í EES-málinu, enda hefur Alþýðublaðið ekki linnt hólinu um þá Framsóknarþingmenn sem snúist hafa til fylgis við samninginn andstætt formanni flokksins. Vegna þessara bresta í stjórnarandstöðunni er ekki lengur meirihluta að vænta á Alþingi gegn samningnum og þarf annað til að koma að málið stöðvist. Alþýðubandalagið er eini flokkurinn sem í heild hefur tekið einbeitta afstöðu gegn samningnum bæði í miðstjórn og þingflokki. Sú afstaða er mikils virði í þeirri baráttu sem framundan er.

 

Baráttan fyrir óháðu Íslandi heldur áfram

Með átökunum um Evrópskt efnahagssvæði hefur þjóðinni verið skipt upp í andstæðar fylkingar um grundvallarmál sem varðar stjórnskipun landsins og framtíðartengsl þjóðarinnar út á við. Ábyrgð þeirra sem knýja þennan samning fram án þess að þjóðin fái að tjá hug sinn í þjóðaratkvæðagreiðslu er mikil svo ekki sé minnst á afstöðu þeirra þingmanna sem greiða götu þess með afstöðu sinni. Með aðild að Evrópsku efnahagssvæði afsala Íslendingar sér í raun heimastjórn á þeim sviðum sem heyra undir samninginn og færa okkur öld til baka í stjórnarfarslegu tilliti. Ráðuneyti Stjórnarráðsins keppast nú þegar við að koma sér upp útibúum í Brussel og sá straumur íslenskra embættismanna sem verður í förum til útlanda á eftir að verða stríður ef Ísland gerist aðili að EES.

Baráttan gegn þessum samningi og afleiðingum hans heldur hins vegar áfram og hún mun fyrr en varir snúast um það hvort Ísland verði hjálenda í Evrópubandalaginu eða standi óháð utan við bandalög stríðandi stórvelda beggja vegna Norður-Atlantshafsins. Hið síðartalda er sá kostur sem Íslendingar eiga bestan og sem einn samræmist því markmiði að halda hér uppi menningarsamfélagi og bærilegum lífskjörum. það gerist hins vegar ekki fyrirhafnarlaust nú fremur en áður og liður í því er að tryggja góð samskipti við nágranna- og viðskiptaþjóðir með gagnkvæmum samningum.

það var ánægjuefni að engin heildarsamtök launafólks hafa tekið undir áróðurinn um aðild að EES og forysta Alþýðusambands Austurlands hefur beitt sér af festu gegn samningnum. það var ekki síst verk Austfirðinga á þingi Alþýðusambands Íslands í nóvember sl. að kveða niður hugmyndir um stuðning við aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði.

 

Samdráttur þorskafla og nauðsyn hafrannsókna

Eitt af áhyggjuefnum landsmanna er samdrátturinn í þorskveiðum undanfarin ár. Á síðasta ári drógust þorskveiðar saman um 13% en vegna aukinna veiða m.a. á loðnu varð verðmæti sjávarafla þó ekki nema 4% minna á árinu 1992 en 1991. Á yfirstandandi fiskveiðiári er heimilaður hámarksafli í þorski aðeins 205 þúsund lestir og er það þó 50 þúsund lestum meira en vísindamenn töldu æskilegast miðað við það markmið að byggja stofninn upp á næstu árum.

þótt við höfum í margar tegundir að leita í fiskveiðum verður efnahagsleg staða íslensks þjóðarbús enn um langa framtíð mjög háð viðgangi þorskstofnins. það ætti því að vera ágreiningslaust að þjóðin þurfi að kosta nokkru til að auka þekkingu á sjávarauðlindunum í heild og þorskstofninum sérstaklega, m.a. til að við áttum okkur betur á þeim aðstæðum sem tengjast nýliðun hans. Svo fór þó við afgreiðslu fjárlaga 1993 að meirihlutinn á Alþingi studdi ekki ósk Hafrannsóknastofnunar og tillögu frá undirrituðum um 10 milljón króna fjárveitingu til áframhaldandi rannsókna á hrygningu og klaki þorsks á Íslandsmiðum; hafði þó sjávarútvegsráðuneytið lýst yfir áhyggjum ef þetta rannsóknaverkefni félli niður. Hér var ekki um stórar fjárhæðir að ræða en afstaðan til þessa máls ber vott um ótrúlegt skilningsleysi á gildi rannsókna og þekkingar á sjávarauðlindunum fyrir framtíðina í þessu landi.

Nýting sjávarauðlindanna og stjórnun fiskveiðanna er enn óleyst mál, þrátt fyrir málamyndasamkomulag stjórnarflokkanna í tvíhöfðanefnd sl. haust. þar er flestu enn ósvarað af stjórnvalda hálfu og látið vaða á súðum um fjárfestingar í frystiskipum á sama tíma og atvinnuleysi verður hlutskipti æ fleiri meðal fiskverkafólks í landi. Afstaða stjórnvalda til smábátaútgerðar er einnig sérstakt áhyggjuefni, en engir máttu þola viðlíka skerðingu þorskkvóta og smábátaeigendur á aflamarki. Nauðsynlegt er að á Alþingi verði hið fyrsta farið yfir stöðu smábátaútgerðar í heild, þar eð hún er gildur liður í atvinnu og afkomu fólks í sjávarplássum víða um land.

 

Umhverfismálin og hafið

Undirritaður átti þess kost í júní sl. að sitja ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sem talað er um sem ráðstefnu aldarinnar. þar var ég í senn fulltrúi þingflokks Alþýðubandalagsins á hinni opinberu ríkjaráðstefnu en einnig Náttúruverndarsamtaka Austurlands á hliðarvettvangi áhugamanna um umhverfisvernd. Víst kom margt umhugsunarvert fram á þessum fjölmenna vettvangi. Einna eftirminnilegast verður erindi sem franski haffræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Jacques Cousteau flutti í tengslum við ráðstefnuna. þar minnti þessi 82 ára vísindamaður á þær ógnvegkandi staðreyndir sem blasa við í umhverfismálum veraldar, fólksfjölgun sem nemur 50 milljónum manna á hverjum mánuði og ólæsi og fáfræði, sem er ein aðalhindrunin í vegi úrbóta. - En hann fjallaði einnig um hafið og minnti á að það er engin ótæmandi gullkista. Sjávarafli hefur aukist úr 20 milljónum tonna árið 1950 í nær 100 milljón tonn á síðasta ári. þetta hefur gerst í krafti gífurlegra fjárfestinga og tækni sem hefur viðhaldið tálsýninni um sjóinn sem ótæmandi nægtabúr. - Niðurlag ræðu Coutseaus var ákall og viðvörun. Hann benti á að óheftur markaðsbúskapur leiðir til hrikalegs misréttis. "Lögmál gullkálfsins er að gera út af við síðustu leifar siðrænna gilda sem ekkert þjóðfélag hefur hingað til geta verið án", sagði hann. þjóðarleiðtogar sem aðrir yrðu að gera sér grein fyrir að strax verði að grípa til róttækra og óhefðbundinna ráða. Hugsjónir þurfi til að komast yfir og ryðja burt hindrunum ríkjandi skipulags.

það gladdi mig að sjá í blaði fyrir fáum dögum að í heimalandi Cousteaus, Frakklandi, virðist hann nokkurs metinn, því að þar var hann kjörinn maður ársins 1992, raunar 5. árið í röð. Hvort þær vinsældir megna að breyta orðum í athafnir er önnur saga.

 

Staðan á Austurlandi

Sem hluti af landsbyggðinni geldur Austurland slakrar landstjórnar ekki síður en aðrir. Fólki hefur fækkað á liðnu ári í fjórðungnum sem heild meira en sést hefur um skeið. Íbúatalan er nánast hin sama nú og fyrir 10 árum. Einstökum byggðarlögum blæðir vegna þess að þau sjá á eftir fiskiskipum með kvóta burt og önnur leggja hart að sér til að kaupa fiskveiðiréttindi. Landbúnaðurinn einkum sauðfjárrækt á í miklum erfiðleikum vegna samdráttar á markaði og langvarandi skipulagsleysis. Iðnaður á erfitt uppdráttar vegna kostnaðar við flutninga og orku umfram það sem gerist á höfuðborgarsvæði. Verslun berst í bökkum vegna óhagræðis og samkeppni við stórmarkaði höfuðborgarsvæðisins.

Samt er hér ekki allt á fallanda fæti og möguleikar miklir ef rétt er að staðið. Aukið samstarf milli fyrirtækja og byggðarlaga felur í sér ónotuð tækifæri. Samstarf Seyðfirðinga og Norðfirðinga um útgerð er dæmi um slíka nýbreytni. Starfsemi Héraðsskóga er dæmi um nýbreytni í landbúnaði sem miklar vonir eru bundnar við og á sviði ferðaþjónustu er mikil gróska ekki síst í Austur-Skaftafellssýslu. Bygging nýrrar verslunar- og fyrirtækjamiðstöðvar á Egilsstöðum undir dugmikilli forystu Sveins Jónssonar er dæmi um hvað unnt er að gera með bjartsýni og samstillingu kraftanna. Vígsla nýs skóla á Breiðdalsvík á árinu eftir langa baráttu var eftirminnilegur áfangi sem minnir á að stöðugt þarf að hlúa að því starfi sem unnið er í hverju byggðarlagi í þágu æskufólks.

Á nýbyrjuðu ári verður fullbúinn nýr flugvöllur á Egilsstöðum sem í senn bætir öryggi í flugsamgöngum og opnar möguleika til beins flugs héðan með vörur og fólk til og frá útlöndum.

Austurland býr yfir miklum auðlindum til lands og sjávar og náttúrufegurð í byggð og óbyggð sem er í senn brunnur fyrir okkur sem hér búum og aflvaki í ferðaþjónustu. þessar auðlindir þurfum við að vernda og nýta skipulega og gæta þess að yfirráð þeirra haldist sem mest heima fyrir í höndum þeirra sem hér búa. Um það snýst ekki síst stjórnmálabarátta líðandi stundar og tilhögun samskipta við aðrar þjóðir.

Austfirðingum og landsmönnum öllum óska ég gleðilegs árs og þakka fyrir samstarf og stuðning á liðinni tíð.

 

Neskaupstað, á nýársdag 1993

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim