Hjörleifur Guttormsson:

 

Alþjóðamál og umhverfisvandi

Hugleiðing við áramót
1993-94

 

Að þessu sinni verður í áramótapistli aðallega fjallað um umhverfismál og hvernig horfir um þau miklu vandamál sem við mannkyni blasa á því sviði. þótt okkur Íslendingum finnist á stundum að mörg af hinum stóru vandamálum heimsins komi okkur harla lítið við eru þau að færast nær okkur, m.a. vegna aðildar að flóknum aðþjóðasamningum eins og EES og GATT og samningum á sviði umhverfismála. Fyrst skulum við þó líta á alþjóðaleg deilumál og hvernig íslensk stjórnvöld bregðast við lokum kalda stríðsins með því að leggja sig fram um að halda erlendri herstöð í landinu.

 

Flókin heimsmynd í stað einfaldra lausna

Í nokkrum stórum deilumálum sem heimsbyggðin hefur látið sig varða eru nú friðvænlegri horfur en fyrir ári. Samið hefur verið um frið og lögð drög að lausn á langvinnum deilum og misrétti í Suður-Afríku og milli Ísraela og Palestínumanna. Afstaðan til þessara deilumála hefur skipt ríkjum heims í fylkingar að ekki sé talað um hörmungar þeirra sem verið hafa fórnarlömb misréttis og valdbeitingar. Ófriður hefur hins vegar magnast í fyrrum Júgóslavíu og lausn deilumála virðist þar engu nær en fyrir ári. Önnur Evrópuríki standa ráðþrota gagnvart hjaðningavígunum á Balkanskaga og deilur af svipuðum toga ólga í Kákasus og víðar. Sú nýskipan heimsmála undir bandarískri forystu sem boðuð var af þáverandi Bandaríkjaforseta og nánustu bandamönnum hans eftir hrun Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins fyrir þremur árum hefur reynst skýjaborg. það sem Bandaríkin ætluðu að sanna með Persaflóastríði um ágæti alþjóðlegra refsiaðgerða og hernaðaríhlutun með stimpli Sameinuðu þjóðanna hefur breyst í andhverfu sína í Sómalíu.

Talið um nýja heimsskipan undir ægivaldi eins risaveldis hefur hljóðnað og vikið fyrir flóknari sýn til þróunar heimsmála. Komið hefur í ljós að Bandaríkin megna ekki að vera sú heimslögregla sem forysta þeirra lét í veðri vaka. Boðskapur hinna einföldu lausna sem gætti á Vesturlöndum við lok kalda stríðins hefur hljóðnað og ný vandamál sem tengjast kapítalískum markaðsbúskap hrannast upp, m.a. með sívaxandi atvinnuleysi.

þótt kjarnorkuógnin sé ekki jafn yfirþyrmandi eins og fyrir nokkrum árum ríghalda hernaðaryfirvöld stórveldanna í vopnabúr sín. Sérstakt áhyggjuefni er það fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir á norðlægum slóðum að engir alþjóðasamningar taka til kjarnorkuafvopnunar á höfunum. þar hafa Bandaríkjamenn ásamt Bretum staðið fastast á móti og skiptir engu máli þótt óvinurinn í austri sé horfinn eða orðinn bandamaður. Talið er að kjarnorkuvopnakerfum og vígtólum í Norður-Íshafinu hafi fremur fjölgað en hitt undanfarin ár á sama tíma og verið er að taka niður kjarnorkuflaugar á landi beggja megin Atlantshafs samkvæmt afvopnunarsamningum.

 

Ríghaldið í Keflavíkurherstöðina

Á nýliðnu ári voru málefni bandarískra herstöðva hér á landi mjög til umræðu og samningaviðræður hafa staðið yfir milli stjórnvalda Íslands og Bandaríkjanna um framtíð þeirra. þjóðin hefur orðið vitni að því undanfarið að íslenskir ráðamenn þrábiðja Bandaríkjamenn um að draga sem minnst úr vígbúnaði sínum á Keflavíkurflugvelli og í árslokin fullyrti Morgunblaðið að málstaður þeirra sem ríghalda vilja í orrustuflugsveitir hér á landi af efnahagslegum ástæðum hafi orðið ofan á.

Auðvitað er við tímabundinn aðlögunarvanda að fást hvarvetna þar sem herstöðvar eru lagðar niður og erlendir herir eru dregnir til baka til heimalanda sinna eins og gerst hefur í stórum stíl á meginlandi Evrópu eftir lok kalda stríðsins. Á vanda Suðurnesjamanna vegna samdráttar í herstöðinni verður auðvitað að taka, einnig af opinberum aðilum íslenskum sem borið hafa ábyrgð á herstöðvastefnunni.

Viðbrögð núverandi ríkisstjórnar eru hins vegar þau að vilja gera nærveru Bandaríkjahers að varanlegu ástandi. þau öfl hér innanlands sem halda vilja í herinn vegna gróða til nokkurra útvalinna leggjast nú á eitt með haukum i Bandaríkjunum sem um hálfrar aldar skeið hafa litið á Ísland sem æskilega útvarðstöð í öryggiskerfi Bandaríkjanna. Baráttan gegn herstöðvunum og að Ísland losi sig úr NATÓ og skipi sér utan hernaðarbandalaga er því brýnt baráttumál nú ekki síður en á tímum kalda stríðsins. Hið sama á við um viðleitni hérlendra stjórnvalda til að tengja Ísland við stækkandi hernaðararm Evrópubandalagsins í svonefndu Vestur-Evrópusambandi sem Ísland gerðist aukaaðili að í fyrravetur.

 

Umhverfismálin og harðnandi vistkreppa

Við þá ógn sem sem mannkyni stafar áfram af kjarnorkuvígbúnaði og hernaðarátökum víða um heim bætist í sívaxandi mæli sá vandi sem felst í mengun umhverfis og rányrkju náttúruauðlind. Harðnandi vistkreppa er afleiðing af samfélagsþróun og búskaparháttum sem ekki fást staðist til lengdar. Á næstu öld mun hún leiða til áður óþekktra erfiðleika og hörmunga fyrir jarðarbúa, - okkur Íslendinga ekki síður en aðrar þjóðir, - nema strax verði sveigt inn á nýjar sjálfbærar brautir. Slíkt kallar á nokkrar hömlur og breyttar áherslur í framleiðslu og neyslu til að koma í veg fyrir annað og verra í náinni framtíð. Váboðarnir eru margir og tengjast m.a. fólksfjölgun, vaxandi fæðuskorti og mengun heimshafa og andrúmsloft. Loftmengunin leiðir til hærri meðalhita og því fylgir m.a. bráðnun jökla og hækkandi sjávarstaða. Stöðugt gengur á skóga jarðar og ræktarland og sóknin í fiskstofna og aðrar sjávarlífverur harðnar stöðugt.

Um þetta liggja fyrir nægar upplýsingar og talnaefni sem ætti að geta fært hverjum sem er heim sanninn um að þannig má þetta ekki ganga áfram. Á síðasta áratug fjölgaði jarðarbúum um 840 milljónir eða hátt í miljarð; íbúatala jarðar er nú um 5 miljarðar en var aðeins 1,6 miljarðar um aldamótin 1900. Með sama áframhaldi stefnir fjöldi jarðarbúa í 9-10 miljarða um miðja næstu öld, þ.e. í tíð þeirrar kynslóðar sem nú er að stíga fyrstu sporin. Óhugsandi er að heimilið jörð geti staðið undir slíkum fjölda með viðlíka efnahag og ríkari þjóðir heims leyfa sér nú og jafnvel ekki þótt þær þjóðir sem nú búa við efnalega fátækt verði aðeins hálfdrættingar. Löngu áður væru komnar fram óheillavænlegar umhverfisbreytingar og upplausn í samfélögum víða um heim með átökum og þjóðflutningum í áður óþekktum mæli.

 

Hungur og eyðing náttúruauðlinda

Fæðuframleiðsla sem fyrr á öldinni hélt í við fólksfjölgunina eykst nú hægar en fyrr þrátt fyrir alla tækni og því fjölgar þeim sem vannærðir eru. Á sama tíma breikkar gjáin sem skilur að efnahag og kaupgetu ríkra þjóða og fátækra þannig að þær síðarnefndu ráða enn síður en áður við að greiða fyrir offramleiðslubirgðir ríku landanna. Ræktanlegt land er líka víða nær fullnýtt þar sem fólksfjölgun er hvað örust eins og í Asíu.

Skógaeyðing hefur verið gífurleg á þessari öld í fátækum ríkjum, þar sem viður er víða eina eldsneytið sem fólk hefur ráð á. Við Íslendingar horfum til baka á mikla skógeyðingu og rýrnun landgæða frá landnámi, þ.e á röskum ellefu öldum. Yfir helmingur Indlands var skógiklæddur á 19. öld en nú eru aðeins 14% af flatarmáli landsins vaxin skógi. Í sumum ríkjum Afríku er skógeyðingin langtum skelfilegri eins og í Etíópíu, þar sem þriðjungur lands var skógivaxinn fyrir 40 árum en nú er aðeins um 1% skóglendis eftir.

Fiskafli hefur nær fimmfaldast úr höfum heims frá því um 1950 og vaxið úr um 20 milljón tonnum í nær 100 milljón tonn. Heilu hafsvæðin eru nú ofnytjuð og rányrkt innan og utan lögsögu ríkja. Samt heldur fjárfesting í fiskiskipum áfram á fullu og tvöfaldaðist m.a. á síðasta áratug. Við það bætist æ fullkomnari tækni við veiðar sem gerir hvern fisk á veiðislóð sýnilegan. Fjárfestingin og samkeppnin um afla ýtir á stjórnvöld um rýmkun veiðiheimilda og sókn vex í úthafsveiðar þar sem takmörkunum hefur enn ekki verið komið á.

 

Vegið að lífi og lífshagsmunum

þannig mætti lengi telja hvernig rányrkja og umhverfisspjöll eru að eyða og ofbjóða vistkerfum jarðarinnar. Hrikaleg náttúruspjöll blasa nú við í Austur-Evrópu eftir að leyndarhjúp einræðisstjórna var svipt af. þar var iðnvæðing keyrð áfram með miðstjórnarvaldi og hvatt til aukins framleiðslumagns með öllum ráðum. Kjarnorkuiðnaðurinn fékk að fara sínu fram án aðhalds frá fjölmiðlum eða almannasamtökum. Kjarnorkuver eru allstaðar hættulegur nágranni, en flestum ber saman um að mörg kjarnorkuverin í Austur-Evrópu séu öðrum ótryggari. Áfram ríkir þar víða hættuástand vegna starfandi kjarnorkuvera og úrgangs frá þeim og hernum.

Nýlegt dæmi um það hvernig forystumenn þjóða hundsa alþjóðahagsmuni í umhverfismálum er ákvörðun breskra stjórnvalda á jólaföstunni um að veita kjarnorkuendurvinnslustöðinni THORP við Sellafield starfsleyfi. Losun mengandi geislavirkra efna í hafið tífaldast við þessa aðgerð frá því sem var frá eldri verksmiðju. Tölfræðiathuganir lækna benda til að um 2000 manns í næsta nágrenni látist úr krabbameini á næstu áratugum vegna starfsemi verksmiðjunnar. Hjá okkur Íslendingum er það hins vegar mengun hafsvæða á norðurslóðum sem mestum áhyggjum veldur vegna þessarar ákvörðunar grannþjóðar okkar.

Sá sem þetta ritar hefur margsinnis tekið þessi mál upp á Alþingi og í Norðurlandaráði og krafist gagnaðgerða af hálfu stjórnvalda. það var ánægjulegt að Alþingi skyldi taka undir og afgreiða samhljóða kröftug mótmæli sem umhverfisnefnd þingsins beitti sér fyrir vegna ákvörðnar Breta. Ekki var síður ánægjulegt að verða vitni að viðbrögðum almannasamtaka þann sama dag og þótt hópurinn sem safnaðist saman við breska sendiráðið í frostinu 17. desember með kyndla og orðsendingu væri ekki stór, skilaði boðskapurinn sér víða.

Ákvarðanir eins og starfsleyfið til THORP eru aðeins einn af fjölmörgum dauðadómum yfir framtíð mannkyns sem kveðnir eru upp og knúðir fram þessi árin af hagsmunagæslumönnum iðnaðar og stórfyrirtækja sem ráða ferðinni og ná að tryggja sér ítök allt of margra stjórnmálamanna. Gegn þessum dauðasveitum megna umhverfissamtök og raddir almennings sín enn lítils.

 

Ófullnægjandi viðbrögð

En er ekki alls staðar verið að taka á þessum vandamálum? Var ekki haldin heimsráðstefna um umhverfismál í Ríó 1992 þar sem flestir þjóðarleiðtogar veraldar söfnuðust saman og lýstu fylgi við málstað umhverfisverndar? Vissulega eru umhverfismálin á dagskrá innan þjóðríkja og á alþjóðavettvangi með allt öðrum hætti en þekktist fyrir 1-2 áratugum. Almenningur hefur vaknað til vitundar um aðsteðjandi hættur og atvinnulíf og stjórnmálaflokkar hafa reynt að aðlaga sig kröfunni um að tillit sé tekið til umhverfisins. Á vissum sviðum hefur nokkur árangur náðst og alþjóðasamningar verið gerðir til að stemma stigu við mengun, t.d. af völdum ósoneyðandi efna. Öll er þessi viðleitni hins vegar síðborin og óralangt frá því að nægja sem svar við þeim margþætta vanda sem steðjar að lífi á jörðinni.

Mengunin er afleiðing af framleiðslustarfsemi, samgöngum og heimilishaldi og orkunotkun sem þeim umsvifum tengist. Framleiðsla og rekstur samgöngutækja hefur margfaldast síðustu áratugi og notkun orku og efna sem til þarf. þar fara fyrir hin ríku iðnaðarþjóðfélög, en mörg lönd reyna nú að feta í fótspor þeirra eins og Indland og Kína þar sem búa nær 2/5 hlutar mannkyns. Mengunarvarnir í framleiðsluferlum hafa á heildina litið engan veginn stemmt á að ósi því að framleiðsluaukning hefur gert meira en vega upp á móti úrbótum. þar fyrir utan eru síðan stór svið þar sem lítið hefur verið aðhafst og ekki tekist neinir bindandi alþjóðasamningar. Dæmi um það er koltvísýringsmengun sem skapast vil allan bruna lífrænna efna, m.a. kola og olíu, og talið er að valdi gróðurhúsaáhrifum. Annað dæmi er sú allsherjarvá sem stafar af notkun geislavirkra efna hvort sem er til hernaðar eða í svokölluðum friðsamlegum tilgangi.

 

Efnahagskerfi á röngu spori

Stóri vandinn í umhverfismálum varðar sjálft gangverk efnahagslífsins og það kerfi sem liggur til grundvallar og tekur á sig stöðugt óvænlegri myndir. Hér er átt við það markaðskerfi sem stöðugt er að færa út kvíarnar og brjóta niður þær skorður sem því hafa verið settar. Alþjóðavæðingin svonefnda varðar fyrst af öllu það markaðstorg fyrir vörur og fjármagn sem teygir anga sína um allan heim. Með hugtakinu fríverslun var lengi vel á eftirstríðsárunum átt við lækkun eða afnám tolla í viðskiptum. Nú hafa bæst við óhindraðir fjármagnsflutningar heimshorna á milli og frelsi til fjárfestinga sem þeim tengjast óháð landamærum þjóðríkja. þetta opnar allar gáttir fyrir fjölþjóðafyrirtæki, - oft risavaxin og þrautskipulögð auðfélög - og stjórnendur þeirra hafa hámörkun gróða sem æðstu skyldu gagnvart hluthöfunum. þessir hluthafar tengjast nú í æ minna mæli einstökum þjóðríkjum heldur geta komið frá öllum heimshornum þar sem fjármagnseigendur eru á annað borð á kreiki. Um leið falla þær hömlur og viðmið sem áður voru bundin einu þjóðríki öðrum fremur.

Kröfur og hindranir settar af stjórnvöldum með vísan til umhverfissjónarmiða eru fjölþjóðafyrirtækjunum þyrnir í augum eins og hvað eina annað sem dregur úr svigrúmi til athafna út frá þeirra eigin forsendum. Í samningum sem gerðir hafa verið undanfarið og varða alþjóðaviðskipti og aukið athafnafrelsi fyrir fjármagn og fyrirtæki er umhverfið alls staðar á öðru farrými. þetta á t.d. við um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði og GATT-samningana. Norðurlöndin reyndu sum hver að spyrna við fótum í EES-samningunum og óskuðu eftir að fá að móta sjálf sína umhverfislöggjöf og viðhalda strangari kröfum á því sviði eftir eigin mati. Öllu slíku var hafnað utan fárra ára aðlögunartíma. Fjölþjóðafyrirtækin notfæra sér þar fyrir utan ásókn einstakra ríkja eftir erlendum fjárfestingum til að þau dragi úr kröfum til mengunarvarna. Skýrt dæmi um slíkt er samningurinn um Atlantal-álbræðsluna á Keilisnesi þar sem starfsleyfi gerir ráð fyrir um helmingi rýmri mengunarmörkum varðandi flúor en tíðkast í nýrri álframleiðslu í Noregi og víðar!

 

GATT, líftækni og þriðji heimurinn

Viðskipti með landbúnaðarafurðir er sem kunnugt er að verða hluti af GATT- samningunum og er látið í veðri vaka að það bæti stöðu fátækra ríkja sem byggi á útflutningi með landbúnaðarafurðir. þegar upp er staðið verða það hins vegar fjölþjóðafyrirtækin sem fleyta rjómann af breytingunum á kostnað ótölulegs grúa smábænda sem hafa engar forsendur til að standast þá samkeppni sem leiðir af þessum rómaða alþjóðasamningi. Í Indlandi einu saman gætu þeir skipt hundruðum milljóna sem flosna munu upp og bætast við atvinnulausan sultarlýð í eymdarhverfum svokallaðra borga. Mikið af því landi sem smábændur yrktu stendur eftir ónytjað og álagið vex því á akuryrkjulendur sem helst eru fallnar til fjármagnsfreks stórbúskapar. GATT er þannig allt annað en fagnaðarerindi í umhverfislegu tilliti og því skref í öfuga átt eins og EES.

Annað stórt svið sem varðar fæðuframboð, umhverfi og landbúnað er líftækni eða erfðatækni, þ.e. breytingar á lífverum, erfðavísum og afurðum þeirra. Fjölþjóðafyrirtækin keppast nú við að safna einkaleyfum, ekki aðeins á breyttum lífverum og afurðum þeirra heldur jafnvel á dýrum og plöntum í villtri náttúru. Hér er ósvarað fjölmörgum spurningum, bæði hvað snertir leyfisveitingar, öryggi og siðræna þætti í meðhöndlun lífræns efnis. þær beinast jafnframt að manninum sjálfum og afkomendum hans eins og við vorum rækilega minnt á á liðnu ári þegar greint var frá möguleikum á að búa til samstofna fóstur í tilraunaglasi, eins konar fjöldaframleiðslu á mönnum með sömu erfðaeigindir!

Fyrir fátækari hluta heimsins gæti líftæknibyltingin í höndum fjölþjóðafyrirtækja leitt af sér vaxandi hörmungar, þar eð tilbúnar afurðir kæmu í stað ýmissa útflutningsafurða þeirra og áhrifin á umhverfið eru mikilli óvissu háð. Einnig við Íslendingar gætum átt hér á brattan að sækja og enn sem komið er hefur hér lítið verið fjallað um lög og reglur á sviði erfðatækni.

 

Bágt ástand umhverfismála hérlendis

Í upphafi þessarar greinar var minnt á að við Íslendingar ættum ekki síður en aðrar þjóðir mikið undir því komið að dregið verði úr hættu á kollsteypum vegna umhverfisröskunar. það á við um áhrifin af hækkun sjávarborðs, breytingu á hafstraumum og lífríki sjávar vegna gróðurhúsaáhrifa. það á við um rýrnun ósonlagsins að ekki sé talað um svæðisbundna mengun og umhverfisslys á íslenskum hafsvæðum. Í þessum efnum hafa íslensk stjórnvöld lagt nokkuð af mörkum í alþjóðlegri umræðu, enda ekki þurft þar miklu til að kosta.

Frammistaðan er önnur og lakari þegar kemur að ýmsum séríslenskum þáttum heima fyrir, þar sem við þurfum að láta að okkur kveða með eigin aðgerðum, tilkostnaði og takmörkun umsvifa. Nokkur dæmi verða hér látin nægja þótt efni væri í langa upptalningu:

* Um margra ára skeið hafa stjórnvöld heimilað að veiða mun meira af þorski árlega en ráðgjöf segir til um;

* Fjárveitingar til hafrannsókna hafa verið skornar við nögl þannig að vitneskja um vistfræði íslenskra hafsvæða er mjög brotakennd.

* Haldið er áfram að ofbeita stór svæði á landinu þótt skýr vitneskja liggi fyrir um áníðsluna og hörmulegar afleiðingar blasi við.

* Ástand í sorpeyðingu og frárennslismálum er víða í megnasta ólestri.

* Á sama tíma og litið er á ferðamennsku sem vaxtarbrodd í atvinnulífi er litlu sem engu kostað til að forða vinsælum ferðamannastöðum frá niðurníðslu.

* Akstur torfærutækja utan vega á hálendi og hvar sem er um jökla landsins spillir í senn ásýnd og friðsæld óbyggðanna.

* Mörg friðlýst svæði eru vanhirt og jafnvel þjóðgarðarnir látnir drabbast niður vegna fjársveltis.

* Sumir af verðmætustu ferskvatnsgeymum landsins eins og þingvallavatn eru sett í hættu vegna mengunar.

þá er ekki síst þróun búsetunnar, þar sem mikill meirihluti þjóðarinnar safnast á eitt landshorn, óvænleg vegna álags á umhverfið og sú öfugþróun fer að virka takmarkandi á heildaríbúatölu og lífskjör á Íslandi.

 

Virkjanir og sæstrengur

Um skeið hefur verið rætt um útflutning raforku með sæstreng sem þjóðráð til að afla gjaldeyris og nú rétt fyrir jólin voru kynntar hugmyndir um að jafnvel væri unnt að hefja slíkan útflutning aldamótaárið eða eftir sjö ár. þetta eru loftkastalar sem fátt virðist á bak við annað en óskhyggja, enda fjölmargir þættir þessa máls lítið skoðaðir. Hér verða ekki ræddar tæknilegar eða viðskiptalegar forsendur slíks raforkuútfutnings, en aðeins drepið á umhverfisþátt málsins.

Framleiðsla orku til sölu um sætreng er ráðgerð í stórvirkjunum sem reistar yrðu á ofanverðum Jökuldal og í Fljótsdal með miðlunum og veitu frá Jökulsá á Fjöllum (Kreppu) og Jöklu um jarðgöng austur í Lagarfljót. Hugmyndir um þessar vatnaveitur hafa verið á kreiki hjá verkfræðingum allt frá árinu 1970 en stjórnvöld mér vitanlega aldrei verið beðin um að taka afstöðu til þeirra né heldur þær verið ræddar af alvöru við heimaaðila. Margir hagsmunaaðilar hér eystra svo og náttúruverndarsamtök og Náttúruverndarþing hafa gagnrýnt eða varað við þessum áformum. það þarf engan að undra því að hér væri á ferðinni meiri röskun á umhverfi og vatnakerfum en áður hefur komið til tals á Íslandi. það sætir furðu ef leggja á meira fjármagn í undirbúning slíks máls en orðið er án þess að skýr afstaða þar til bærra aðila sem og almennings til undirstöðuatriða liggi fyrir.

 

Umhverfisvernd og stjórnmálin

Góðir lesendur. Fyrir utan baráttuna fyrir friði til að forða heiminum frá ragnarökum kjarnorkuátaka eru umhverfismálin í allri sinni vídd stærsta viðfangsefni okkar tíma. Á farsælli lausn þeirra veltur ekki aðeins heill og hamingja einstakra þjóða heldur lífssskilyrði á allri plánetu okkar.

Flest teljum við okkur vilja varðveita óspillt umhverfi og komast hjá afleiðingum vistkeppu sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni. Vandinn er hins vegar sá að til þess að komast á rétta leið þurfa einstaklingar og þjóðir að leggja nokkuð á sig í þágu næstu kynslóða sem ella þurfa að glíma við afleiðingar gerða okkar sem nú lifum. Sæmilegur jöfnuður milli einstaklinga, þjóða og heimshluta er undirstöðuatriði til að takast megi að stöðva það feigðarflan sem nú stefnir í. Alvarlegustu þættir umhverfisvandans höfða því til framsýni og nokkurrar fórnarlundar í þágu alinna og óborinna. Jafnframt er alþjóðleg samstaða forsenda fyrir árangri, þar sem sem flestir þurfa að leggjast á eitt og þeir að kosta mestu til sem helst eru aflögufærir. Við verðum að vera reiðubúin að leiða að líkum hvað sé umhverfinu og framtíðinni fyrir bestu og láta náttúruna njóta vafans.

Í von um að slík gildi eigi vaxandi fylgi að fagna þakka ég Austfirðingum samfylgd og stuðning á liðnum árum og óska þeim og landsmönnum öllum gleðilegs árs.

Neskaupstað á nýársdag 1994

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 

 


Til baka | | Heim