Hugleiðingar við áramót 1995-96 Tíminn harður húsbóndi Áramót eru tilefni til að svipast um og taka sólarhæð. Sjónarhóllinn er einstaklingsbundinn hvort sem menn líta í eigin barm eða reyna að meta stöðuna fyrir stærri heildir, hóp manna, einstök svæði og þjóðríki, jafnvel hnöttinn allan. Víðtæk alþjóðleg tengsl eru tákn tímans, þar sem menn geta ferðast um á alneti tölvunnar og skimað inn í króka og kima. Fyrir stjórnmálamenn sem reyna að hafa áhrif og marga þá sem starfa í atvinnurekstri og viðskiptum eða vinna að rannsóknum eru alþjóðasamskipti hluti af hversdeginum. Fljótt komast menn hins vegar að því að slík samskipti krefjast ekki aðeins kunnáttu heldur líka tíma. Það á við um ferðir um tölvuheiminn og enn frekar um ferðir milli landa, eins og við Íslendingar fáum að reyna í samstarfi við grannþjóðir. Þegar allt kemur til alls er það tíminn sem er húsbóndinn og setur mannlegum athöfnum og seilingu okkar sín takmörk, einnig á tölvuöld. Það finnum við vel þegar litið er yfir farinn veg við áramót. Veðurfar og snjóflóð Ársins 1995 verður án efa minnst sem mannskaðaárs af völdum snjóflóða. Þrjátíuogsex manns sem fórust í snjóflóðum er hár tollur jafnvel á mælikvarða mun fjölmennari þjóða. Veðurfar á árinu var um margt óvanalegt: Afar snjóþungur vetur á Vestfjörðum og Norðurlandi og fylgdi kalt vor í kjölfarið, seinni hluti sumars með afar mildu veðri norðaustanlands, síðan norðanáhlaupið um veturnætur sem skilaði snjóflóðinu yfir byggðina á Flateyri. Þá eins og oft áður sýndi sig að ekki þarf nema fárra sólarhringa veðraham til að stór snjóflóð falli og það þótt enginn eða óverulegur snjór hafi verið fyrir. Þannig var líka aðdragandi snjóflóðanna í Neskaupstað í desember 1974. Seint og um síðir hefur íslenskt samfélag vaknað til vitundar um þá hættu sem þéttbýli getur stafað af snjóflóðum. Áhlaupið í Neskaupstað fyrir rúmum 20 árum dugði ekki til að vinna bug á afneitun manna og skammsýni. Svo seint sem á árinu 1994 gekk ráðherra í ríkisstjórn gegn tillögum skipulagsstjóra með því að heimila endurbyggingu sumarhúsa á Tungudal við Ísafjörð aðeins nokkrum mánuðum eftir að þeir eyðilögðust í snjóflóði. Slíkt myndi vart endurtaka sig nú. Vandinn sem við er að glíma vegna snjóflóðahættu í mörgum byggðarlögum á landinu er stór en ekki óviðráðanlegur. Miklu skiptir að sveitarstjórnum gefist ráðrúm til að enduskoða skipulag viðkomandi byggða og hafi góða ráðgjöf um slíka vá og hvernig megi bregðast við henni. Víða geta varnarvirki verið skynsamleg lausn, annars staðar getur þurft að flytja byggð frá ákveðnum svæðum. Hingað til hefur fjármagn ekki legið á lausu til að kosta gerð varnarvirkja. Á því þarf að verða breyting. Snjóflóð eru einn umhverfisþáttur af mörgum sem taka verður tilliti til í norðlægu og fjöllóttu landi. Að lifa á norðurslóð Það var ánægjulegt að Alþingi skyldi í fyrravetur samþykkja tillögu um sérstaka heimsskautastofnun á Akureyri sem á að bera nafn Vilhjálms Stefánssonar landkönnuðar. Markmiðið með henni er að samhæfa sem best norðurslóðarannsóknir hérlendis og tengja okkur betur en hingað til við alþjóðlegt rannsóknaumhverfi á þessu sviði. Sérstök stjórnskipuð nefnd vinnur nú að því að móta lagafrumvarp um stofnunina og eru til undirbúnings veittar 3 milljónir króna á fjárlögum 1996. Rannsóknir þessarar norðurstofnunar eiga bæði að beinast að þurrlendi og hafsvæðum norðurslóða og geta raunar snert flest svið vísinda, einnig mannfræði og húmanísk fræði. Við Íslendingar þurfum að átta okkur vel á þeim tækifærum og takmörkunum sem tengjast norðlægri legu landsins. Náttúra norðurslóða einkennist af miklum sveiflum og lífríkið er viðkvæmt fyrir breytingum á ytri aðstæðum. Við þurfum að laga fiskveiðar sem og aðra nýtingu náttúrugæða að þessum sveiflum, vinna með náttúrunni en ekki gegn henni. Vilhjálmur Stefánsson dró í verkum sínum fram hina jákvæðu þætti norðursins og sýndi menningu frumbyggja heimsskautssvæðanna skilning og virðingu. Ekkja hans Evelyn snart hjörtu þeirra sem sáu hana í sjónvarpsþætti nýlega að ekki sé talað um þá sem hittu hana að máli í heimsókn hennar hingað til lands sl. vor. Við eigum að láta ævistarf Vilhjáms í Vesturheimi og rannsóknir hans á norðurslóðum verða okkur hvatningu til dáða í glímunni við óblíð náttúruöfl. Deilurnar við Norðmenn Enn eigum við Íslendingar í deilum við Norðmenn um hagnýtingu fiskistofna á Norðaustur-Atlantshafi og í Íshafinu. Þar höfum við átt undir högg að sækja, sérstaklega í Barentshafi, enda Norðmenn búnir að koma sér vel fyrir á norðurslóðum með markvissum aðgerðum um nær aldarskeið. Nægir þar að minna á fótfestu þeirra á Jan Mayen snemma á öldinni og Jan Mayen samninginn við Íslendinga 1981, Svalbarðasamninginn frá 1920 og fiskveiðisamninga við Rússa og fleiri ríki. Heimsskautaferðir Norðmanna með Roald Amundsen og Fridtjof Nansen í fararbroddi studdu óbeint landvinninga þeirra í norðurátt. Norska heimsskautastofnunin (Norsk Polarinstitutt ) hefur nú á þriðja hundrað starfsmenn í sinni þjónustu. Við Íslendingar þurfum að átta okkur sem best á stöðu Norðmanna um leið og við leitumst við nú seint og um síðir að tryggja okkar hagsmuni. Af hálfu íslenskra stjórnvalda hafa aðgerðir til þessa verið fálmkenndar og mikið hefur skort á að litið væri heildstætt á hagsmuni okkar utan 200 mílna lögsögu og þeir ræddir opinskátt. Fátt sýnir betur sofandaháttinn en sú staðreynd að íslenska utanríkisþjónustan hafði engan gaum gefið Svalbarðasamningnum fyrr en eftir að veiðar íslenskra togara hófust í Smugunni sumarið 1993. Hefði þó Jan Mayensamningurinn fyrir 15 árum m.a. átt að beina sjónum að þeirri stöðu sem Norðmenn höfðu þá fyrir löngu náð á Svalbarðasvæðinu. Stefnumörkun vantar utan 200 mílna Leggja verður sem raunsæjast mat á möguleika okkar Íslendinga þegar um er að ræða fiskveiðiréttindi í Barentshafi og víðar. Við höfum margháttaðra hagsmuna að gæta utan 200 mílna ekki síst í norsk-íslenska síldarstofninum og veiðunum á Reykjaneshrygg. Miklu skiptir að vanda sem best stefnumótun af okkar hálfu og velja eftir því sem það er í okkar valdi réttan tíma til samninga. Enn er stefna íslenskra stjórnvalda í þessum málum óskýr og þjóðinni hefur ekki verið gerð grein fyrir möguleikum okkar í framhaldi af úthafsveiðisamningi Sameinuðu þjóðanna, sem undirritaður var á árinu 1995. Æskilegt væri að þjóðirnar við norðanvert Atlantshaf sem standa utan Evrópusambandsins gætu samræmt stefnu sína í fiskveiðimálum og varist að láta ESB deila og drottna þegar kemur að fiskveiðum á Norður-Atlantshafi. Til að það sé unnt þurfa m.a. Norðmenn og Íslendingar að leysa viðkvæm deilumál og snúa bökum saman um hóflega nýtingu fiskistofna og umhverfisvernd í víðu samhengi á norðurslóðum. Kaflaskil í byggðamálum Á árinu 1995 hafa orðið óheillavænleg kaflaskil í byggðamálum. Fólki fækkaði alls staðar annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu, mest á Vestfjörðum um hvorki meira né minna en 435 íbúa eða 4,6%. Á Austurlandi eru íbúar 131 færri en fyrir ári sem er um 1% fækkun. Íbúar Austurlands eru nú taldir vera 12.780 og hafa ekki verið færri síðan 1979. Athygli vekur að fækkunin hér eystra er ekki aðeins bundin við strjálbýli heldur fækkar um 0,8% á þéttbýlisstöðum með 200 íbúa og fleiri. Á sama tíma og þetta er að gerast er ekki að sjá neina marktæka viðleitni hjá stjórnvöldum að hamla gegn byggðaröskuninni. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem hér sat að völdum 1991-95 ruddi óheftum markaðsöflum brautina með því m.a. að gera Ísland að þátttakanda í Evrópsku efnahagssvæði. Óheftir fjármagnsflutningar eru nú meginregla inn og út úr landinu og hömlur gegn fjárfestingum útlendinga aðeins að finna í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafla. Þessar breytingar og framsal veiðiheimilda draga úr möguleikum stjórnvalda til sjálfstæðrar efnahagsstjórnar og að hamla gegn byggðaröskun. Ýmsir hefðu reiknað með að einhver breyting yrði til hagsbóta fyrir landsbyggðina þegar Framsóknarflokkurinn tók sæti Alþýðuflokks í ríkisstjórn landsins sl. vor. Þess sér hins vegar ekki merki nema síður sé. Á það bæði við um stefnuna í hefðbundnum atvinnugreinum, landbúnaði og sjávarútvegi, og þó enn frekar í opinberum fjárfestingum og stóriðjumálum. Ákvarðanir ríkisstjórnar og ráðandi meirihluta á Alþingi í þessum efnum hlýtur að hafa mjög óheillavænleg áhrif á stöðu landsbyggðarinnar og ýta undir enn frekari fólksflutninga þaðan. Stóriðjuæði í uppsiglingu við Faxaflóa Það sem mestum tíðindum sætir í atvinnumálum hérlendis er sú stefna ríkisstjórnarinnar undir forystu iðnaðarráðherra úr röðum Framsóknarflokksins að bæta við hverju stóriðjuverinu á fætur öðru á höfuðborgarsvæðinu eða í næsta nágrenni þess. Samningur um stækkun álbræðslu Alusuisse í Straumsvík var undirritaður í nóvember sl og staðfestur af meirihluta á Alþingi rétt fyrir jól. Með honum er ISAL heimilað að tvöfalda í áföngum álframleiðslu sína . Stækkunin er dýru verði keypt. Landsvirkjun veitir stórfelldan afslátt á raforkuverði fram til ársins 2004, skattar á fyrirtækið eru á sama tímabili lækkaðir um helming miðað við framleiðslumagn og með starfsleyfi gengið gegn eðlilegum lágmarkskröfum um mengunarvarnir. Tillögur þingmanna Alþýðubandalagsins um mótvægisaðgerðir vegna atvinnumála landsbyggðarinnar voru felldar af stjórnarliðum á Alþingi. Um leið og þessi ákvörðun um stækkun í Straumsvík er tekin liggur fyrir vilji íslenskra stjórnvalda til að heimila Columbia Aluminium endurbyggingu á þýskri álbræðslu á Grundartanga í Hvalfirði þegar á árinu 1996. Í byrjun er talað um 60 þúsund tonna álframleiðslu þar svipað og í upphafi hjá ISAL en gert ráð fyrir þreföldun eða 180 þúsund tonna framleiðslu síðar. Þá er að vænta ákvörðunar af hálfu Íslenska járnblendifélagsins um þriðjungs stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, og gæti slík ákvörðun legið fyrir innan fárra mánaða. Virkjunarframkvæmdir til orkuöflunar vegna þessara þriggja stóriðjuvera eru allar sunnanlands ef frá er talin stækkun Blöndulóns og gufuaflsstöð í Bjarnarflagi. Auk þessara stórframkvæmda er áfram á dagskrá bygging um 200 þúsund tonna álbræðslu á Keilisnesi sunnan Hafnarfjarðar á vegum ATLANTAL, en ákvörðunum um hana var slegið á frest fyrir nokkrum árum. Í svari frá iðnaðarráðherra við fyrirspurn frá undirrituðum í síðasta mánuði var auk ofangreidra stóriðjukosta tilgreint að "nokkrir aðrir iðjukostir svo sem kísilmálmvinnsla, magnesiumvinnsla og zinkframleiðsla eru til athugunar". Allir hafa þessir iðnaðarkostir að því er staðsetningu varðar verið tengdir við Faxaflóasvæðið, meira að segja kísilmálmvinnsla sem fyrir 15 árum var ákveðið að skyldi rísa við Reyðarfjörð. Enn verður að nefna jarðgöngin undir Hvalfjörð sem fengu sérstaka náð ríkisstjórnarliðsins með veitingu ríkisábyrgðar upp á heilan miljarð nú rétt fyrir jól. Það sætir furðu hversu hljóðir landsbyggðarmenn hafa setið undir þessum boðskap stjórnvalda. Í honum felast þó skýr skilaboð til þess hluta þjóðarinnar sem enn býr utan höfuðborgarsvæðisins að pakka saman og gerast þátttakendur í því stóriðjuæði sem landsfeðurnir ætla að efna til syðra með sérstakri blessun Framsóknarflokksins. Umhverfismálin afgangsstærð Það er áhyggjuefni allra sem af alvöru velta fyrir sér framtíð mannkyns, hvernig umhverfisvernd er sett til hliðar þegar ákvarðanir eru teknar um efnahagsmál og framvindu til lengri tíma litið. Þetta stangast vissulega á við skrúðmælgi stjórnmálamanna og viljayfirlýsingar í alþjóðasamningum um hið gagnstæða eins og samningnum um loftslagsbreytingar sem tengdur er við Ríó-ráðstefnuna 1992. Allt það mikla gangverk sem tengt er svonefndri alþjóðavæðingu á sviði fjármála og heimsviðskipta einkennist af því að umhverfismál eru þar afgangsstærð. Þetta gildir um svæðisbundna skilmála eins og innri markað Evrópusambandsins og EES-samninginn og ennþá víðtækari samninga um heimsviðskipti eins og GATT og Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO). Þau huggunarorð sem mælt voru um væntanlega "græna GATT-lotu" um það leyti sem verið var að ljúka Úrúgvæ-lotu GATT árið 1993 hafa reynst innistæðulaus fagurgali. Óheft vöruflæði undir merkjum fríverslunar og frjálsir fjármagnsflutningar heimshorna á milli hafa algjöran forgang óháð þeim afleiðingum sem það mun hafa á umhverfi jarðarbúa. Efnahagsvöxturinn í Kína sem nú iðnvæðist að vestrænni fyrirmynd er lofsunginn, (hvað sem líður stjórnarfarinu að öðru leyti!), þótt ljóst sé að sú viðbótarmengun sem af þeim umsvifum og öðrum viðlíka hlýst stefnir umhverfisskilyrðum á jörðinni í bráða hættu á meðan ekki er dregið samhliða úr heildarmengun af völdum þeirra sem á undan fetuðu slóð iðnvæðingar. Gróðurhúsaáhrif af völdum koldíoxíðs og fleiri efna veldur hækkandi hitstigi á jörðinni og búist er við verulegri hækkun sjávarborðs af þeim sökum á næstu öld. Heilu þjóðríkin munu sökkva í sæ og sjór ógna strandbyggðum ef svo fer sem horfir. Í þessum efnum eru íslensk stjórnvöld ótrúlega metnaðarlaus. Þótt við höfum verið með þeim fyrstu til að undirrita samning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar bólar ekkert á aðgerðum til að standa við ákvæði hans. Í nýlegri framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna samningsins er tekið fram að ekki standi til að taka koldíoxíðmengun af völdum stóriðjuframkvæmda með í dæmið af Íslands hálfu! Alþýðubandalagið - staða og hlutverk Alþýðubandalagið starfar nú í stjórnarandstöðu annað kjörtímabilið í röð. Það er mikilvægt hlutverk þótt æskilegt hefði verið að flokkurinn hefði í alþingiskosningunum sl. vor fengið aukinn styrk og orðið mótandi um landsstjórnina. Mjög hallar á þá lakast settu í þjóðfélaginu vegna stjórnvaldsaðgerða og stuðnings ríkisvaldsins við láglaunastefnu. Þetta hefur komið berlega í ljós á Alþingi að undanförnu við fjárlagagerð og lagabreytingar sem henni tengjast. Þar er um að ræða grófar árásir á ýmsa þætti velferðarmála, sem beinast að þeim sem síst geta borið hönd fyrir höfuð sér svo sem fatlaðir og aldraðir, atvinnulausir og þolendur afbrota. Sérstaka athygli hefur vakið hvernig stjórnarmeirihlutinn hefur höggvið í bótagreiðslur og önnur velferðarmál aldraðra við afgreiðslu fjárlaga og "bandorms" sem henni tengdist. Alþýðubandalagið og aðrir í stjórnarandstöðu beittu sér hart gegn árásunum á velferðarkerfið og tókst að ná fram nokkrum breytingum sem draga úr því höggi sem hér átti að greiða og er niðurstaðan þó nógu slæm samt. Fólk víða á landsbyggðinni býr nú við mikla erfiðleika og öryggisleysi vegna ytri aðstæðna, stefnu og skeytingarleysis stjórnvalda. Þrengingar í hefðbundnum atvinnugreinum, sjávarútvegi og landbúnaði, með niðurskurði á aflaheimildum og framleiðslurétti bitnar mun harðar á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu auk þess kerfisbundna óréttlætis sem innleitt hefur verið í þessum greinum. Við þetta bætist hærra verðlag á nauðsynjum og víða margfalt hærri kostnaður við húshitun. Alþýðubandalagið hefur alla tíð beitt sér fyrir jöfnuði í kjörum fólks óháð búsetu og sótt fylgi sitt til landbyggðarinnar ekki síður en höfuðborgarsvæðis. Á þessu sviði er nú meiri þörf fyrir einbeittan málflutning og pólitískan styrk til varnar og sóknar en nokkru sinni í sögu lýðveldisins. Því er brýnt að rödd Alþýðubandalagsins heyrist og fái undirtektir. Forsendur ekki til sameiningar Talsvert hefur verið rætt um það að sameina ætti þá flokka sem nú eru í stjórnarandstöðu til að tryggja sterkt mótvægi til vinstri í landsmálum. Vissulega er þörf á að efla áhrif vinstri stefnu sem fái risið undir nafni, en sameining við Alþýðuflokkinn eða þá sem þar ráða ferðinni er ekki líkleg til að skila slíkri niðurstöðu. Alþýðuflokkurinn hefur ekki sýnt það með stefnu sinni eða verkum í áratugi að hann sé vinstri flokkur eða jafnaðarmannaflokkur, þótt hann skreyti sig með fölskum fjöðrum. Flokkurinn hefur lengi skorið sig úr öðrum sósíaldemókrataflokkum á Norðurlöndum sem sérstaklega hægri sinnaður markaðshyggjuflokkur. Alþýðuflokkurinn hafði forystu um það að tengja Íslands við Evrópusambandið með EES-samningnum og gengur nú öðrum flokkum lengra í að boða aðild að Evrópusambandinu sem sérstakt fagnaðarerindi. Alþýðubandalagið var eitt flokka óskipt í andstöðu við EES-samninginn og hefur alla tíð lagst eindregið gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Á slíkum málflutningi og árvekni er nú meiri þörf en áður, því að bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur bíða átekta og bera kápuna á báðum öxlum í Evrópumálum. Alþýðubandalagið er eini vinstri flokkurinn í landinu og hefur sem slíkur sérstöðu í mikilsverðum málum sem skipta sköpum um þróun íslensks samfélags. Mikil þörf er nú á að efla slíkan flokk, auðvitað með samvinnu við þá sem þar eiga málefnalega samleið eins og t.d. gerðist með samstarfi við óháð vinstrafólk fyrir síðustu kosningar. Kostir Austurlands og atorka fólksins Austurland hefur landkosti og hér eru aðstæður til að dafnað geti gróandi þjóðlíf og traust búseta. Á austfirskum miðum er fjölþættara sjávarlíf og nytjastofnar en víðast annars staðar. Orkulindir eru miklar og skilyrði til skógrækar og annars landbúskapar víða góð. Ferðaþjónusta á hér mikla möguleika samhliða verndun umhverfis og stórbrotinnar náttúru. Það er því eitthvað meira en lítið að þegar íbúum fækkar á heildina litið í okkar landshluta. Fólk vinnur hér hörðum höndum og stöðugt er verið að búa í haginn fyrir betra mannlíf. Nefna mætti mörg dæmi um ávinninga sem komust í höfn í fjórðungnum á nýliðnu ári. Í Hornafirði var lokið við mikla fyrirhleðslu á Austurfjörutanga til viðbótar garði á Suðurfjörum til að tryggja innsiglinguna um Hornafjarðarós. Á Fáskrúðsfirði er að ljúka byggingu myndarlegrar loðnubræðslu. Á Egilsstöðum var tekin í notkun glæsileg sundlaug. Í Neskaupstað var um jólaleytið vígt stórt og fallegt íþróttahús og Náttúrustofa Austurlands hóf þar starfsemi. Á sögu- og menningarsviði bar hátt veglega dagskrá á 100 ára afmæli Seyðisfjarðarkaupstaðar og aldarafmæli verslunar á Borgarfirði eystra, hvorutveggja með veglegum sýningum og bókaútgáfu. Á Vopnafirði var haldið uppi sérstakri menningarstarfsemi þriðja árið í röð. Ríkharðssafn var afhent á Djúpavogi og tengist varðveislu Löngubúðar. Þjóðarathygli vakti einstæður fornleifafundur í Skriðdal þar sem sérmenntað starfslið austfirskra safna sá um uppgröft. Á nýbyrjuðu ári færast Austfirðingar áfram margt í fang og gera hið besta úr því sem þeir sjálfir hafa ráð yfir. Þörfin á aukinni samvinnu milli byggðarlaga blasir við á mörgum sviðum og auðvitað ætti ríkið að örva þá þróun með því að flytja verkefni í auknum mæli út í fjórðungana. Austfirðingum og öðrum landsmönnum sendi ég árnaðaróskir í upphafi nýs árs og þakka samstarfið á liðinni tíð. Hjörleifur Guttormsson |