Hjörleifur Guttormsson:

 

Hugleiðingar við áramót
1997-98

 

Minnisverðir atburðir

Fjölmargs er að minnast nær og fjær frá því ári sem nú er liðið. Árið var gjöfult til lands og sjávar, uppgangur í fiskveiðum, bæði þorsks og loðnu svo að um munaði. Árferði var með besta móti nema vorið rysjótt. Sumarið var milt og einstök veðurblíða ríkjandi nema þar sem þoka grúfði yfir vikum saman eins og varð raunin á suðaustanverðu landinu. Sameining sveitarfélaga var fyrirferðarmikil í austfirskri umræðu á seinni hluta ársins og stærri tíðindi urðu í þeim efnum en áður.

Af erlendum fréttum nefni ég tvær sem tímanna tákn. Einræktun sauðkindarinnar Dollý í skoskri rannsóknastöð kunngjörð í febrúar er dæmi um hraðafara en afar tvíbenta þróun í líftækni. Samkomulag í Kyoto fyrir fáum vikum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda getur orðið þýðingarmesta skref sem stigið hefur verið til þessa í umhverfismálum jarðar, en mörg skref og stærri þurfa að fylgja í kjölfarið.

Austurland og sjávarútvegur

Miklar og örar breytingar hafa orðið í sjávarútvegi og fiskiðnaði hér eystra síðustu ár. Mest fer fyrir fjárfestingum tengdum vinnslu uppsjávarfiska, loðnu og síldar, en hefðbundin frysting á bolfiskafurðum skipar lægri sess en áður. Þetta tengist bæði auknum afla uppsjávarfiska sem og afkomu og verðlagi. Hefðbundin landfrysting hefur ekki skilað viðunandi afkomu hjá fyrirtækjum hér frekar en annars staðar á landinu og því hafa þau eðlilega leitað annarra leiða. Þar hafa síld og loðna eins og oft áður komið að góðu gagni fyrir Austfirðinga. Á stærstu stöðunum hefur verið fjárfest í ríkum mæli í fiskimjölsverksmiðjum og tækjum sem tengjast frystingu afurða. Sum fyrirtæki eins og Borgey á Hornafirði hafa nær einvörðungu snúið sér að vinnslu uppsjávarfiska og önnur aukið hlut slíkrar vinnslu. Nýjar eða endurbyggðar loðnuverksmiðjur eru nú starfandi á Seyðisfirði, Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Norðfirði og að nokkru leyti á Vopnafirði og Djúpavogi. Knýjandi þörf er endurbyggingar fiskimjölsverksmiðja á Reyðarfirði og Höfn, m.a. vegna mengunar, sem þó er enn alls staðar nokkurt vandamál.

Fyrirferðarmest hefur uppbyggingin verið hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað sem tók í notkun nýtt og glæsilegt frystihús á árinu og hélt nýlega upp á 40 ára afmæli sitt svo eftir var tekið. Finnbogi Jónsson forstjóri Síldarvinnslunnar frá 1986 er vel að því kominn að vera sæmdur titlinum "maður ársins í viðskiptalífi", svo farsæl þróun hefur átt sér stað í fyrirtækinu undir hans forystu. Kemur það raunar ekki á óvart þeim sem kynntist hæfileikum hans og atorku sem deildarstjóra í iðnaðarráðuneytinu fyrstu árin eftir að hann kom frá námi erlendis en einnig þar glímdi hann við flókin og stór verkefni. Í sjávarútvegsfyrirtækjum hér sem víðar er fjöldi dugandi fólks að störfum og þeim fer fjölgandi sem hafa aflað sér góðrar menntunar sem nýtist fyrirtækjunum.

Þingmenn Alþýðubandalagsins hafa á yfirstandandi þingi flutt frumvarp um breytingar á núverandi lögum um fiskveiðistjórnun til að freista þess að sníða af umdeildustu agnúa kerfisins. Burtséð frá ágreiningi um fiskveiðistjórnunina verður ekki annað sagt en að þorra austfirskra sjávarútvegsfyrirtækja hafi á undanförnum árum tekist að laga sig að ríkjandi kerfi og náð árangri innan þess.

 

Atvinnuþróun og ráðgjöf

Í atvinnuþróun er þekking meira en nokkru sinni forsenda þess að vel takist til, bæði í uppbyggingu og þróun fyrirtækja og í rekstri þeirra. Þetta á jafnt við um fyrirtæki sem byggja á náttúruauðlindum eins og landbúnaður og sjávarútvegur sem og þau sem sinna þjónustu af margbreytilegu tagi. Í ferðaþjónustu nýta menn hvoru tveggja, náttúruna sem skapar aðal aðdráttaraflið og síðan fylgir vinna við þjónustu og sköpun afþreyingar fyrir ferðamanninn. Góð undirstöðumenntun og sérhæfing á ýmsum sviðum er orðin sjálfsögð forsenda í atvinnulífi og því eru skólar allt frá leikskóla til háskóla gildari hlekkur í samfélagsþróuninni en nokkru sinni fyrr.

Í fjórðungnum hafa smám saman verið að styrkjast þær stoðir sem þarf til að hlúa að nýsköpun. Drjúgur hluti þróunarstarfs gerist í fyrirtækjunum sjálfum, því meira því betra og í því efni er sígandi lukka oft best. En þess utan þarf ráðgjöf og aðgang að fjármagni, ekki síst til að stuðla að nýmyndun fyrirtækja og aðstoð við einstaklinga sem hefja vilja atvinnurekstur. Það var í því skyni að komið var af stað iðnráðgjöf í landsfjórðungunum með lögum árið 1980 en af henni og atvinnuþróunarsjóðum heima fyrir hefur nú sprottið víðtækt þróunarstarf. Við hafa bæst skrifstofur á vegum Byggðastofnunar sem og sjálfstæðar stofur verkfræðinga, skipulagsfræðinga og arkitekta. Nýjasti meiðurinn á þessum stofni eru náttúrustofur í kjördæmunum, þar á meðal ein hér austanlands. Allt eru þetta ánægjulegir vaxtarsprotar, og mikil breyting hefur orðið í þessum efnum síðustu áratugi. Mér er minnisstætt að þegar ég kom frá námi og settist að austanlands á sjöunda áratugnum voru engir háskólamenntaðir menn fyrir í fjórðungnum utan þeir sem sátu í opinberum embættum.

 

Háskólamenntun í fjórðunginn

Undirritaður flutti öðru sinni síðastliðið haust með tveimur öðrum þingmönnum tillögu til þingsályktunar um miðstöð háskóla- og endurmenntunar á Austurlandi. Tillögu þessari hefur verið vel tekið af umsagnaraðilum og nú er hún til skoðunar í menntamálanefnd þingsins. Tillagan gerir ráð fyrir að Alþingi feli menntamálaráðherra i samvinnu við háskólanefnd SSA og Atvinnuþróunarfélag Austurlands að stuðla að því að hið fyrsta verði komið á fót slíkri miðstöð í kjördæminu.

Það var gott skref í þessu máli að Alþingi samþykkti við fjárlagaafgreiðslu fyrir jólin átta milljón króna fjárveitingu til undirbúnings þessu máli. Verður þeirri upphæð væntanlega varið til að ráða starfsmann til að sinna frekari undirbúningi í samvinnu við háskólanefndina og menntamálaráðuneytið. Háskólamiðstöð hér eystra hefur að sjálfsögðu almennt gildi fyrir nemendur á Austurlandi hyggja á háskólanám. Tengsl við háskólastigið og aðgangur að fjölbreyttri endurmenntun er jafnframt mikil nauðsyn fyrirtækjum í fjórðungnum og starfsfólki þeirra. Í umsögn forystumanna Atvinnuþróunarfélags Austurlands kom meðal annars eftirfarandi fram í umsögn í mars 1997: "Það eykur gildi tillögunnar verulega að í henni felst aðgerð sem hefur allar forsendur til að vera einföld í framkvæmd, skilvirk og umfram allt skjótvirk." Vonandi reynast þetta orð að sönnu.

 

Kyoto-samkomulagið vegna loftslagsbreytinga

Áhyggjur af loftslagsbreytingum eru ekki nýjar af nálinni. Í ritinu Vistkreppa eða náttúruvernd, sem út kom árið 1974, segir í umfjöllun undirritaðs um mengun af brennslu lífrænna efna: "Talið er að koldíoxíðmagn andrúmsloftsins hafi aukist um 10% frá síðustu aldamótum, fyrst og fremst vegna orkunotkunar. Áframhaldandi þróun í þessa átt gæti haft stórfelld áhrif á veðurfar og vistskilyrði jarðar, þótt enn vanti okkur þekkingu til að kveða með vissu upp úr um afleiðingarnar."

Fyrir um áratug hóf sérfræðinganefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna störf við að meta afleiðingar vaxandi mengunar lofthjúpsins. Álit nefndarinnar leiddi til þess að gerður var alþjóðasamningur vegna loftslagsbreytinga 1992 og var Ísland 5. ríkið til að undirritaða hann á Ríó-ráðstefnunni það ár. Sá samningur hafði ekki að geyma lagalegar skuldbindingar en iðnríkin lofuðu að stefna að því að losa ekki meira af gróðurhúslofttegundum árið 2000 en var árið 1990. Aðeins fá ríki munu standa fyllilega við það stefnumið, Ísland til dæmis fara 16% yfir þessi mörk um aldamót. Eftir gerð samningsins hafa hrannast upp frekari vísbendingar sem knúðu iðnríkin nauðug viljug til þess í Kyoto að fallast á skuldbindandi aðgerðir um að minnka losun gróðurhúslofttegunda. Víðtækt sammæli er um nauðsyn slíkra aðgerða, en samt er skrefið sem nú er í sjónmáli afar stutt og langtum róttækari aðgerða þörf. Til að jafnvægi náist um miðja næstu öld er talin þörf á að losun gróðurhúslofttegunda hafi þá dregist saman um 60% á heildina litið, en samkomulagið í Kyoto felur aðeins í sér að meðaltali um 5% samdrátt hjá iðnríkjum á næstu 15 árum og á sama tíma bætist í mengun frá þróunarríkjum.

 

Hörmulegur málatilbúnaður íslenskra stjórnvalda

Fáar þjóðir eiga jafn mikið undir því og við Íslendingar að sammæli verði um róttækar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, því að í húfi getur verið hvort á Íslandi verði byggilegt í framtíðinni. Í ljósi þessa hefðu Íslendingar átt að vera fremstir í flokki þeirra sem áherslu lögðu á bindandi samning um niðurskurð í aðdraganda Kyoto-fundarins, þó svo að okkar sjónarmiðum væri að öðru leyti haldið til haga. Þessi var ekki raunin. Íslenska sendinefndin fór til Kyoto með bundnar hendur af hálfu ríkisstjórnarinnar að öðru leyti en því að henni var gjört að krefjast þar undanþága fyrir Íslands hönd. Reynt skyldi að fá allsherjar undanþágu fyrir mengun frá stóriðju hérlendis en að öðrum kosti heimild til stórfelldrar aukningar á losun á meðan öðrum er ætlað að draga saman! Forsætisráðherra nefndi allt að 60% aukningu í því sambandi á meðan á Kyoto-fundinum stóð. Niðurstaðan varð 10% aukning mengunar Íslandi til handa, meira svigrúm að tiltölu en nokkurt annað þróað ríki fékk í sinn hlut. Samt má skilja á ráðherrum ríkisstjórnarinnar að ekki sé nóg að gert og óvíst sé að Íslendingar standi að Kyoto-samkomulaginu nema mun meira mengunarsvigrúm komi í hlut Íslands.

Ljóst hefur verið frá því að Ísland staðfesti Ríó-samninginn um loftslagsbreytingar að hér væru ekki efni til mikillar hvað þá stórfelldrar aukningar orkufreks iðnaðar. Við þessu skellti ríkisstjórn Davíðs Oddssonar skollaeyrum og hugðist samkvæmt framkvæmdaáætlun sinni vegna Ríó-samningsins haustið 1995 taka sér einhliða rétt til aukinnar stóriðju. Þannig söfnuðust upp stóriðjuáform á borði iðnaðarráðherrans sem ef til framkvæmda kæmu þýddu nær tvöföldun í losun gróðurhúsalofttegunda á kvarða viðmiðunarársins 1990. Það eru þessi fáránlegu áform og væntingar sem ríkisstjórnin hafði vakið hjá ýmsum í þjóðfélaginu, sem ollu því að umhverfisráðherrann var settur út í horn og aðrir ráðherrar gáfu forskrift um kröfugerðina fyrir Kyoto.

Málflutningur íslenskra stjórnvalda til að réttlæta kröfugerð sína er í meira lagi skothentur. Því er meðal annars haldið fram að Íslendingar losi langtum minna af gróðurhúsalofttegundum en gerist og gengur hjá vel stæðum ríkjum. Sannleikurinn er sá að losunin hérlendis var samkvæmt nýlegri skýrslu umhverfisráðherra talin nema 8,6 tonnum á mann árið 1995 sem er nálægt meðaltali á íbúa í ríkjum Evrópusambandsins. Sú þjóð ESB sem minnst losar, Portúgalar, eru með 4,3 tonn á íbúa og 40% viðbót til þeirra innan heildarramma Evrópusambandsins gefur þeim aðeins 6,0 tonn á íbúa. Danmörk sem hefur hvorki vatnsafl eða jarðvarma losar litlu meira en Ísland eða 10,1 tonn á íbúa. Noregur losar ámóta og Ísland eða 8,5 tonn á íbúa og fékk í Kyoto 1% í meðgjöf, væntanlega sem olíuframleiðsluríki. Bandaríkin með um 20 tonna losun á íbúa leggja langmest til heildarmengunar eða ámóta mikið og öll ríki þriðja heimsins til samans. Bandaríkin og fleiri ríki eins og Kanada og Ástralía toga upp meðaltalið.

Það er alrangt og fjarri öllu lagi sem forsætisráðherra þrástagast á að væri mengunin í heiminum almennt ámóta mikil og hér miðað við íbúa hefði enginn talið ástæðu til að halda ráðstefnu eins og þá í Kyoto. Sannleikurinn er sá að ef þróunarríkin losuðu á íbúa talið eitthvað í líkingu við Ísland færi fyrst að kárna gamanið og því þurfa einnig þau að koma með inn í heildarsamkomulag um takmarkanir fyrr en seinna. Slík mörk hljóta hins vegar að veita þeim svigrúm til að bæta sinn efnahag að nokkru marki á sama tíma og iðnríkin verða að laga sína framleiðslu að breyttum aðstæðum og skera niður sína mengun. Grunnur allsherjarsamkomulags í þessum efnum getur ekki byggst á öðru í framtíðinni en að hver jarðarbúi hafi jafnan aðgang að sameiginlegu andrými.

 

Stóriðjumál í uppnámi

Umræða um stóriðjuframkvæmdir er ekki ný af nálinni hérlendis, en hefur þó orðið fyrirferðarmeiri en oftast áður eftir að Framsóknarflokkurinn tók við þessum málaflokki í ríkisstjórn. Fyrst var lagt mikið undir í samningum um stækkun verksmiðju Alusuisse í Straumsvík, boðið afar lágt orkuverð og slegið af í mengunarvörnum. Þessum framkvæmdum var ekki lokið þegar næsti samningur var gerður um álbræðslu á Grundartanga í eigu bandarísks fyrirtækis og sömu kostaboð þar endurtekin til að draga að fjárfestana. Við útgáfu starfsleyfa til beggja þessara fyrirtækja beitti sjálfur umhverfisráðherrann grófum bolabrögðum til að koma í veg fyrir að almenningur gæti látið reyna á rétt sinn til athugasemda.

Síðan hefur bæst við fjöldi annarra og meiri stóriðjuáforma. Stærst er þar í sniðum hugmyndin um að heimila Norsk Hydro að koma upp risaálbræðslu sem fullbyggð myndi nýta þriðjung af hagkvæmu vatnsafli á Íslandi! Samanlagt afl jökulánna norðan Vatnajökuls hrykki ekki einu sinni til í það púkk. Þetta mál varðar þjóðina alla eins og önnur stóriðjuáform. Með þeim er ætlunin að ráðstafa til langs tíma stórum hluta af orkuforða landsins og ganga á umhverfisgæði. Ég er ósammála þeim sem af Íslands hálfu beita sér fyrir slíkum hugmyndum. Kemur þó margt fleira til en stærðin, ekki síst gífurleg umhverfisröskun af raforkumannvirkjum, virkjunum og háspennulínum. Er þá ótalin mengun, staðbundin og almenn, svo og efnahagslegir þættir svo sem orkuverð og áhættan af að auka miklu við álframleiðslu hérlendis.

Stóriðjuáformin sem nú eru á borði ríkisstjórnarinnar eru hið mesta óráð á heildina litið. Mikið skortir á að Íslendingar hafi mótað heildstæða stefnu um, hvernig skynsamlegt sé að haga áframhaldandi nýtingu orkulinda landsins. Álitamálin er varða umhverfishagsmuni og náttúruvernd eru ófrágengin og um leið magn þeirrar orku sem líklegt er að verði til hagnýtingar í framtíðinni. Við þurfum svigrúm til að koma hér upp sjálfbærum orkubúskap með innlendu eldsneyti og raforku í samgöngum og atvinnulífi í stað innflutts eldsneytis. Hálendisskipulag er í mótun en frágangur þess er forsenda fyrir ákvörðunum um orkumannvirki. Með Kyoto-samkomulaginu hefur verið lagður grunnur að nánari útfærslu alþjóðasamningsins vegna loftslagsbreytinga og hann leggur Íslendingum sem öðrum skyldur á herðar og takmarkar frekari losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum frá Íslandi sem og öðrum þróuðum ríkjum. Ósennilegt verður að ætla að erlendir fjárfestar teldu ráðlegt, er þar að kæmi, að binda fjármuni í stóriðju í ríkjum sem veldu þann kost að standa utan Kyoto-samkomulagsins.

Í þessu samhengi ganga áformin um risaálbræðslu á Íslandi engan veginn upp og fyrir austfirskar aðstæður eru þau þess utan alltof stór í sniðum. Það þarf sérstakt hugmyndaflug til að ætla sér að setja upp við Reyðarfjörð álframleiðslu sem að magni svarar til heildarframleiðslu áls í Noregi. Rifja má upp að undirritaður átti fyrir bráðum tveimur áratugum þátt í ákvörðunum um kísilmálmverksmiðju við Reyðarfjörð sem þá var talin af hóflegri stærð. Mannaflaþörf þess fyrirtækis hefði numið innan við 1/10 hluta og raforkuþörf aðeins um 1/25 hluta af raforkuþörf þeirrar álbræðslu sem nú er um rætt. Þess má geta að athugaðir voru möguleikar á að nota innlent kurl í stað kola og að framleiða methanól-eldsneyti í tengslum við kísilmálmverksmiðjuna og nýta þannig það koldíoxíð sem losnar við framleiðsluna. Svo fór að framkvæmdir við þessa verksmiðju króknuðu í höndum þeirrar ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem við tók.

Stjórnarandstaðan sokkin í sameiningardrauma

Ríkisstjórnin má vel við una gengi sitt eins og það hefur birst í skoðanakönnunum þetta árið. Af stjórnarflokkunum hefur Sjálfstæðisflokkurinn fleytt rjómann og formaður hans náð ótrúlega sterkri stöðu gagnvart samstarfsaðilum sínum. Góðæri að því er varðar ytri aðstæður hefur hjálpað ríkisstjórninni en einnig háttalag forystu stjórnarandstöðunnar sem hefur verið upptekin við sameiningardrauma og að þess utan heldur atburðalítil. Um árabil hefur verið alið á óljósum hugmyndum um samfylkingu stjórnarandstöðu og/eða félagshyggjufólks á vettvangi landsmála. Samstarf í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem Framsóknarflokkurinn á hlut að máli hefur óspart verið notað sem eins konar leiðarvísir um það sem koma skal og um gildi þess "að taka völdin". Samstarf flokka í sveitarstjórnum á fullan rétt á sér og er viðfangsefni á hverjum stað. En það er langt á milli samvinnu að sveitarstjórnarmálum og sameiginlegs framboðs eða sameiningar stjórnmálaflokka um landsmálin. Það er óheiðarlegt af stjórnmálaforingum að reyna að líkja þessu saman því að þeir eiga að vita betur, og ekki farsælt að ætla að byggja landsmálapólitík á slíkum grunni.

Kvennalistinn lenti í hremmingum vegna togstreitu um samstarf við aðra flokka á liðnu ári og klofnaði niður í rót. Flestar reyndari forystukonur listans sögðu skilið við hann og höfnuðu með því samlagi með krötum. Sá hluti sem eftir stendur hefur enga málefnalega fótfestu og mun að líkindum skríða saman við Alþýðuflokkinn og skyldulið hans fyrir alþingiskosningarnar vorið 1999.

Alþýðubandalagið heldur enn velli en veruleg hætta er á að þar fari á sama veg og með Kvennalistann ef forysta flokksins gætir ekki að sér. Uppgjöri í þessum efnum var skotið á frest á landsfundi flokksins í nóvember síðastliðnum og vísað til aukalandsfundar næsta sumar. Verði þar þröngvað fram samþykkt sem fæli í sér að Alþýðubandalag og óháðir hætti að bjóða fram á eigin vegum má ljóst vera að Alþýðubandalagið klofnar og heyrir brátt sögunni til sem flokkur. Út af fyrir sig er ekkert athugavert við það að þeir sem eru hugmyndalega á sömu slóð og Alþýðuflokkurinn gangi til liðs við hann. Þjóðvaki Jóhönnu Sigurðardóttur er úr sögunni og hefur nú runnið saman í þingflokk með Alþýðuflokknum, enda þar aldrei um sýnilegan málefnaágreining að ræða. Ef marka má málflutning Guðnýjar Guðbjörnsdóttur sýnist sem leifarnar af Samtökum um kvennalista geti fallið prýðilega inn í þetta samhengi. Það ætti hins vegar að vera umhugsunarefni fyrir þá Alþýðubandalagsmenn sem sjá í hillingum "stóran jafnaðarmannaflokk", hvaða verði eigi að kaupa þá hugmynd.

 

Flokkar með gerólíka stefnu

Sá sem þetta ritar hefur tveggja áratuga reynslu af samstarfi við Alþýðuflokksmenn á Alþingi. Sú reynsla er æði misjöfn, en þó síst undan að kvarta þegar um samskipti ólíkra stjórnmálaflokka er að ræða. Á þessum tíma finnst mér Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag ekki hafa nálgast málefnalega nema síður sé, og þó ekki væri litið nema til þess tíma sem liðinn er frá því kratar voru í ríkisstjórn með Davíð Oddssyni. Forysta Alþýðuflokksins boðar nú ákafar en nokkru sinni inngöngu í Evrópusambandið og hefur þar enga fyrirvara. Þar tala Sighvatur Björgvinsson og Össur Skarphéðinsson einum rómi. Kratar sjá allsherjar bjargræði í óheftum markaði, vilja opna sjávarútveginn að fullu fyrir fjárfestingum útlendinga og styðja í meginatriðum þá stefnu í reynd að einkavæða þjónustufyrirtæki ríkisins eins og Pósts og síma og ríkisbankana.

Stóriðjustefnan á nú sem fyrr stuðning vísan hjá krötum og í umhverfismálum hefur flokkurinn verið haltrandi, nú síðast varðandi afstöðu til samkomulagsins í Kyoto. Alþýðuflokkurinn nærist enn sem fyrr af þröngri neytendahyggju sem til dæmis sést af því að hann boðar óheftan innflutning landbúnaðarafurða. Hugmyndir hans um sérstaka skattlagningu á sjávarútveg og þar með landsbyggðina í formi einhvers konar veiðileyfagjalds eru af svipuðum toga. Þegar til kastanna kemur eiga landsbyggðarsjónarmið sér fáa formælendur í röðum krata. Lýðræðinu á Íslandi væri síður en svo greiði gerður með því að Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur gengju í eina sæng að ekki sé talað um þau málefni sem skapað hafa Alþýðubandalaginu sérstöðu til þessa. Það stoðar lítið að reisa Potemkin-tjöld fyrir kjósendur og ætla sér að sópa ágreiningi um stærstu þjóðmálin undir teppið. Litið til ýmissa stórmála sýnist raunar í mörgum þeirra vera langtum styttra á milli sjónamiða krata og Framsóknar annars vegar en Alþýðubandalagsins, meðal annars um meginþætti utanríkisstefnunnar, Evrópumálin og stóriðjustefnuna.

Alþýðubandalagið hefur á komandi hausti að baki þrjátíu ár sem stjórnmálaflokkur. Árið 1968 var Alþýðubandalagið gert að formlegum flokki eftir afar erfiða siglingu flokka og flokksbrota sem þá stóðu að kosningabandalagi undir sama nafni. Þeir sem muna þá tíma geta vart verið ginkeyptir fyrir að efna til viðlíka sambúðar og hrossakaupa. Nýbyrjað ár mun leiða í ljós hvort Alþýðubandalagið heldur merki sínu áfram á lofti eða fellir það. Verði hið síðara ofan á má búast við að ýmsir þeir sem fylgt hafa flokknum að málum, óháðir kjósendur og margir fleiri reisi málefnin í nýju samhengi og efni til sjálfstæðs framboðs til Alþingis.

Svo fráleitar sem ég tel hugmyndirnar um sameiginlegt framboð með Alþýðuflokknum gegnir öðru máli um að stjórnarandstöðuflokkanir stilli saman strengi sína í aðdraganda kosninga með samstarf í huga um stjórnarmyndun að kosningum loknum. Slík samstilling gæti skilað öllum hlutaðeigandi flokkum ávinningi í kosningum á kostnað núverandi ríkisstjórnarflokka í stað úlfúðar og sundrungar sem leiða mun af frekari tilraunum til sameiginlegs framboðs.

 

Verkefni nýbyrjaðs árs

Fjöldi úrlausnarefna bíður einstaklinga og þjóðar á nýbyrjuðu ári. Úrbætur í þágu landsbyggðarinnar eiga að vera meðal verkefna í fremstu röð. Sem flestir þurfa að leggjast á eitt við að stöðva það öfugstreymi fólks á eitt landshorn sem við blasir. Það getur kallað á breytingar og aðlögun á ýmsum sviðum.Við eigum að nýta og leggja rækt við þá kosti sem felast í fámennu samfélagi þar sem jafnréttisviðhorf hafa til skamms tíma staðið föstum fótum. Umhverfi lands okkar og auðlindir bjóða upp á heillandi möguleika og gott mannlíf um langa framtíð, ef rétt er á haldið. Strjálbýli og þéttbýli geta hér þróast hlið við hlið og eflt hvort annað. Sjálfbær þróun hérlendis getur fyrr en varir orðið meira en orðin tóm, en til þess verður að beita mælistiku umhverfisverndar á sem flest viðfangsefni. Tunga okkar og þjóðmenning er ásamt náttúru landsins það sem gefur okkur sérstöðu meðal þjóða og þeim fjársjóðum ber okkur að halda á lofti og vernda þá um ókomin ár.

Austfirðingum og landsmönnum öllum óska ég gleðilegs árs.

 

Neskaupstað, á nýársdag 1998

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim