Risaálbræðsla algjör tímaskekkja

 

Hugmyndir um 500-700 þúsund tonna risaálbræðslu hérlendis, sem íslensk stjórnvöld ræða nú um við Norsk Hydro, bera vott um ótrúlega skammsýni. Skiptir þá ekki máli þótt rætt sé um minni áfanga í byrjun. Þegar er komið meira en nóg af mengandi málmbræðslum hérlendis og afar óskynsamlegt að ætla að byggja íslenskan þjóðarbúskap meira en orðið er á álframleiðslu.

Íslenskar orkulindir eru takmarkaðar. Harðnandi deilur um virkjanir og vatnsmiðlanir að undanförnu ættu að vera næg viðvörun til ráðamanna. Aðeins brot af tæknilega nýtanlegu vatnsafli verður hér til ráðstöfunar í reynd vegna umhverfissjónarmiða. Það er vel í lagt að gera ráð fyrir að vinna megi 25 teravattstundir í heild árlega úr vatnsafli og jarðvarma er fram líða stundir. Þar af eru nú þegar framleiddar 5,5 teravattstundir. Ekki veitir af afganginum til að mæta almennum vexti í raforkueftirspurn og koma hér á sjálfbærum orkubúskap í stað innflutnings á jarðefnaeldsneyti. Það væru hrikaleg mistök að úthluta Norsk Hydro eða öðrum 7-10 teravattstundum á næstu áratugum.

Við þetta bætast síðan alþjóðlegar skuldbindingar vegna loftslagsbreytinga. Ætla Íslendingar að segja sig úr lögum við alþjóða samfélagið þegar kemur að umhverfisvernd?

 

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim