Hjörleifur Guttormsson:

 

Frá Hallormsstað í Egilsstaði

Minningar og hughrif frá æskuárum.

 

Þegar ég var að slíta barnsskónum á Hallormsstað um og eftir 1940 voru Egilsstaðir enn útvörður í Vallahreppi, bærinn tengdur nöfnum barna Jóns og Margrétar, systkinanna er þar bjuggu í firnastóru húsi sem Jón Bergsson reisti árið 1914. Margrét Pétursdóttir kona Jóns og móðir þeirra Egilsstaðasystkina var þá enn á lífi, ern fram undir andlátið 1944 og hafði þá verið ekkja í 20 ár. Heima á Hallormsstað lá gott orð til Egilsstaðafólksins, daglegt samband milli símstöðva, þar sem Sigríður Jónsdóttir var stöðvarstjóri Egilsstaðamegin og hafði undramargar tengingar í símaborði miðað við það sem ég átti að venjast í stóru stofunni heima. Um þá Egilsstaðabræður, Svein og Pétur, voru á stundum sagðar sögur í léttum dúr, einkum um deilur þeirra í millum sem á stundum enduðu með áflogum að fullyrt var. Fyrir strák sem lá í Íslendingasögum var þarna komin ljóslifandi hliðstæða fornkappa, að ekki sé talað um forsögn Völuspár: Bræður munu berjast....

Sveinn á Egilsstöðum, eins og hann var jafnan nefndur, var oddviti Vallahrepps um langt árabil (1919-46), en faðir minn hreppstjóri og sat jafnframt í hreppsnefnd. Þeir áttu því mikil samskipti, en voru að mér fannst ekki sérstakir mátar, enda aldursmunur nokkur, og einhverju kunna ólíkar stjórnmálaskoðanir að hafa ráðið. Sveinn var athafnamaður svo af bar, rak tæknivæddan stórbúskap og hafði vinnufólk, m.a. sérstaka fjósamenn. Hreppsnefnd Vallahrepps kom fram til 1942 að jafnaði saman á Ketilsstöðum, en eftir það víðar nær miðri sveit eða utar, og ekki man ég eftir fundum hennar heima. Hins vegar sá ég rithönd Sveins á bréfum hjá föður mínum og fannst hún nær ólæsileg, helst að jafna til skriftar Gunnars Gunnarssonar skálds á Skriðuklaustri sem var okkur börnum ráðgáta. Föður mínum og fleiri eldri hreppsnefndarmönnum var steypt af stóli í sveitarstjórnarkosningum í Vallahreppi vorið 1946. Þeirri hallarbyltingu veitti forystu Hrafn á Hallormsstað, studdur af Karli á Gunnlaugsstöðum, Nikulási í Arnkelsgerði og fleiri yngri bændum í hreppnum. Sveinn hélt hins vegar velli, og varð ári síðar oddviti hins nýstofnaða Egilsstaðahrepps.

Í ársbyrjun 1944 þegar ég var á níunda ári brann spítalinn á Brekku í Fljótsdal. Við börn heyrðum tíðindin í morgunsárið og eftir að hafa brætt þykka hélu af gluggum í skrifstofu föður míns blasti eldhafið við í fjarska. Í kjölfarið var mikið rætt um hvað yrði nú um Ara lækni og þá þjónustu sem menn höfðu sótt í Brekku. Okkur systkinum var þó ofar í huga, hvað um dæturnar yrði, þær systur Ernu og Ragnheiði. Þetta skýrðist þó fljótt, því að sama ár var Egilsstaðalæknishérað stofnað, sjúkraskýli reist þar út frá og læknisbústaður byggður sumarið 1945 á Gálgás, og annar bústaður yfir dýralækni tekinn í gagnið ári síðar þar handan götu. Fyrir var aðeins Nilsenshús, sem Ósvald Nilsen og Friðborg Einarsdóttir reistu 1944. Árið 1945 hóf Steinþór Eiríksson rekstur búvélaverkstæðis og 1946 opnaði útibú Kaupfélags Héraðsbúa verslun sína nálægt vegamótum. Þar afgreiddi lengi í vefnaðardeildinni ein Egilsstaðasystirin, Ólöf Jónsdóttir sem bjó með Sigríði systur sinni miðskips í bænum. Hún var skrafreifin og gat af þeim sökum á stundum teygst úr afgreiðslu. Um þetta leyti spruttu upp íbúðarhúsin eitt af öðru, fyrst við Laufás-götu og brátt víðar. Þorpið á ásnum var að breytast í myndugt samfélag og naut til þess fulltingi Alþingis vorið 1947; tapaði þá Vallahreppur útverði sínum.

Rétt áður en það gerðist gekk ég í barnaskóla á Egilsstöðum í 2-3 vikur á útmánuðum 1947 með Gunnari tvíburabróður mínum. Það var eftirminnilegur tími. Farskóli var þá enn í Vallahreppi og höfðum við bræður áður verið í mánaðartíma í skóla í Beinárgerði með fáeinum krökkum öðrum, flestum af nágrannabæjum. Guðlaug Sigurðardóttir á Útnyrðingsstöðum var kennarinn og flutti hún sig nú um set með skólahaldið í Egilsstaði þar sem kennt var í stofu í kjallara nýreists dýralæknisbústaðar. Þetta var stærsta kennslustofa sem ég kom í á stuttum barnaskólaferli og nemendurnir voru að sama skapi margir, trúlega 15-20 talsins. Í þeim hópi var Vilhjámur Einarsson Stefánssonar, síðar skólameistari, árinu eldri en við Gunnar; foreldrar hans höfðu þá nýverið reist sér hús á Gálgás. Þarna var líka Ragnheiður Aradóttir læknis, glæsileg stúlka sem átti eftir að verða bekkjarsystir mín í MA og ein af þeim sem fengu hjartað til að slá hraðar.

En fleira en ný andlit gerði þessa dvöl okkar spennandi. Okkur var komið fyrir hjá Pétri Jónssyni og Elínu Ólafsdóttur Stephensen niðri á Egilsstaðabæ. Við vorum teknir inn í heimilið hjá þessum yndislegu hjónum og leið brátt eins og heima hjá okkur. Pétur var mjög barngóður og talaði við okkur eins og fullorðna. Hann var svo fljóthuga og hraðmæltur að við máttum í fyrstu hafa okkur alla við til að skilja hann, enda talandinn ólíkur því sem við áttum að venjast hjá föður okkar sem velti fyrir sér hverju orði. Elín var afar eftirminnileg kona, nærgætin, hlý og brosmild. Jón sonur þeirra var þá í menntaskóla en Ólafur og Margrét heima og Áslaug sú yngsta. Margrét var fjórum árum yngri en við bræður, rólynd og föst fyrir. Ólafur var þremur árum eldri en við Gunnar og ótvíræður leiðtogi okkar, mikill fjörkálfur og léttur í lund. Með honum fórum við á skíði uppi í Hríshólum, stunduðum jafnvel stökk, enda snjór nægur, kalt í veðri og norðangarrinn beit í kinnar þá gengið var í skólann. Ólafur vígði okkur inn í leyndardóma hins þrískipta Egilsstaðabæjar, þar sem hægt var að laumast á milli höfuðbólanna innanhúss um ranghala og skúmaskot og endaði leiðangurinn inni á efri hæðum gistihússins í ríki Fanneyjar. Mörgum árum seinna átti ég oft eftir að njóta hvíldar í þeim enda hússins og blanda geði við húsráðendur, Svein, Fanneyju og síðar Ásdísi Sveinsdóttur. Eftir að Ásdís gerðist skólastýra Húsmæðraskólans á Hallormsstað og ég var kominn með bílpróf ók ég henni oft í Egilsstaði á blæjujeppa föður míns. Í þeim ferðum sem tóku klukkutíma aðra leið á hlykkjóttum malarvegi ræddum við margt og kynntumst allvel. Ásdís var traust kona, fordómalaus og glettin á bak við dökk gleraugun; hún hefur alltaf verið mér hugstæð, einnig nú eftir að hún er horfin af sviðinu.

Þegar skólavistinni lauk á Egilsstöðum var Stefán Jónsson á Freyshólum fenginn til að sækja okkur Gunnar. Kom hann með einn hest lausan þannig að við tvíburar tvímenntum eins og við vorum raunar alvanir. Riðum við heim í grimmdarfrosti undir stjörnubjörtum himni. Þetta var um mánaðamót mars-apríl 1947, stórbrotið Heklugos nýlega byrjað og hafði eldfjallið þá ekki bært á sér í 102 ár. Við heyrðum Sigurð Þórarinsson jarðfræðing lýsa fyrstu stundum gossins úr flugvél í fréttatíma útvarpsins, sitjandi í stofunni hjá Pétri á Egilsstöðum. Það var mikill atburður. Hvort sem það var ímyndun eða ekki töldum við okkur sjá bjarma á suðvesturhimni er komið var á Vallanesháls og við nálguðumst Strönd. Þá vissi ég lítið um öræfi landsins, en lýsing Sigurðar lyfti barnshuganum og kallaði fram sýnir sem ekki voru síður ljóslifandi en sjónvarp nú á dögum.

Um vorið fórum við tvíburabræður í Ketilsstaði til að taka fullnaðarpróf þá aðeins ellefu ára gamlir. Ekki veit ég hvernig það kom heim og saman við lög og reglur en faðir okkar sem var formaður skólanefndar og Guðlaug kennari tóku sér að líkindum sjálfdæmi í málinu. Í öllu falli þótti ekki ástæða til að halda okkur lengur í barnaskóla. Þarna á Ketilsstöðum var stór hópur saman kominn á sveitarinnar vísu, einnig börnin sem við höfðum kynnst á Egilsstöðum. Í þeim hópi var vinur okkar Ólafur. Leiðir okkar lágu sjaldan saman eftir þetta, en hann fórst af slysförum annan dag jóla 1955. Eftir það vissi ég að æskufjör er engin trygging langra lífdaga.

Fyrir Vallamenn var lítið tilefni að halda lengra út á Hérað en í Egilsstaði, það væri þá helst í Eiða. Um Egilsstaði lá leiðin til annarra landshluta: Í veg fyrir skip á Reyðarfirði um Fagradal, stundum á skíðum. Með Norðurrútu KHB að sumarlagi af hlaðinu hjá Sveini. Stundum með flugvél upp af Lagarfljóti úr víkinni neðan bæjar. Upp af Fljóti hófst mín fyrsta ferð til Reykjavíkur með Katalínavél haustið 1952, og fylgdi í kjölfarið allsöguleg millilending á Fáskrúðsfirði. Á sama stað lenti ég a.m.k. einu sinni með flugvél á heimleið úr MA og byrjaði sú ferð á Pollinum við Akureyri. En nú kom brátt flugvöllur á Sléttanesi, kallaður Egilsstaðaflugvöllur, byggður 1953-54. Egilsstaðabærinn var eftir það ekki lengur sú miðstöð fyrir ferðalanga sem löngum fyrr, þótt enn leituðu þangað margir gistingar og greiða. Systkinin, börn Jóns og Margrétar, héldu enn um skeið áfram að veita vaxandi þorpi skjól og kjölfestu og afkomendur þeirra láta nú víða til sín taka í kaupstaðnum sem spratt upp með undrahraða í túnfætinum.

 

Í byrjun jólaföstu 1996

 

Hjörleifur Guttormsson

 

Kafli í Egilsstaðabók - riti í tilefni 50 ára afmælis Egilsstaðabæjar.
Ritstjóri Björn Vigfússon. 1997

 


Til baka | | Heim