Afdrifaríkur landsfundur framundan
Um aðra helgi verður haldinn í Reykjavík svonefndur aukalandsfundur Alþýðubandalagsins. Á þeim fundi getur ráðist, hvort Alþýðubandalagið lifir áfram sem sjálfstætt þjóðmálaafl eða hverfur af sjónarsviðinu. Til fundarins er boðað af flokksforystunni til að leggja mat á afrakstur viðræðna við Alþýðuflokkinn og það sem eftir stendur af Kvennalistann um aukið samstarf. Á fundinum verður að líkindum tekist á um það hvort Alþýðubandalagið eigi að standa að sameiginlegu framboði með þessum flokkum í alþingiskosningum vorið 1999. Slík niðurstaða mun í reynd hafa í för með sér endalok Alþýðubandalagsins. Undirritaður átti sæti í einum af fimm "málaefnahópum" sem nú hafa skilað af sér nema málefnaefnahópur um utanríkismál sem enn er að störfum. Ég var í hópi um umhverfis-, atvinnu- og efnahagsmál og skilaði þar séráliti. Rúmsins vegna eru ekki tök á að birta hér álitið í heild, en ég mun geta um nokkur ágreiningsefni sem dæmi um margt af því sem á milli ber. Einnig fjalla ég um afleiðingar þess ef Alþýðubandalagið fellir merki sitt og býður ekki fram í alþingiskosningunum innan árs.
Ólíkar forsendur og þröngur rammi Viðræður fulltrúa Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Kvennalista til að kanna möguleika á auknu samstarfi þessara flokka í landsmálum hófust ekki fyrr en í marslok 1998. Var ætlaður afar knappur tími til starfa. "Málefnahópur" um umhverfis-, atvinnu- og efnahagsmál, sem ég átti sæti í kom fyrst saman 26. mars 1998 og lauk störfum 10. júní 1998. Ég sat flesta fundi hópsins og tveggja undirhópa og lagði þar fram talsvert efni. Engin skrifleg leiðsögn eða erindisbréf frá formönnum eða talsmönnum þessara flokka var lögð fram í upphafi. Fljótlega varð ljóst, að fulltrúar flokkanna gengu á afar ólíkum forsendum til þessara viðræðna. Umboð fulltrúa Alþýðuflokksins var einskorðað við að um yrði að ræða sameiginlegt framboð flokkanna í næstu alþingiskosninum en af hálfu Alþýðubandalagsins skyldi litið á þetta sem könnunarviðræður án skuldbindinga fyrirfram um sérstakt form á samstarfi flokkanna. Forysta Alþýðubandalagsins setti flokkinn í mikinn vanda með því að fara út í könnunarviðræður sem þessar fyrst Alþýðuflokkurinn gerði fyrir sitt leyti sameiginlegt framboð í komandi alþingiskosningum fyrirfram að skilyrði. Margt í kringum vinnu þessara málefnahópa ber vott um að af hálfu forystumanna flokkanna sé ekki mikið lagt upp úr starfi þeirra. Sú leiðsögn fylgdi til hópsins sem ég starfaði í að álit hans skyldi ekki fara fram úr 2-3 blaðsíðum. Þegar um er að ræða stóra málaflokka eins og hér um ræðir leiðir slíkt óhjákvæmilega til þess að afurðin verður í símskeytastíl og ekki er kostur á að greina mál og skýra eins og þörf hefði verið á..
Ágreiningur um ýmis grundvallarmál Í málefnahópnum lagði undirritaður fram allítarlegar hugmyndir og tillögur um umhverfis- og efnahagsmál og um atvinnumál og atvinnuþróun. Var um þær tillögur fjallað í undirhópum. Um mörg atriði var skýr ágreiningur, þar á meðal um nokkra grundvallarþætti efnahagsmála, sem jafnframt hafa áhrif á umhverfismál og atvinnuþróun. Um aðra þætti tókst allgóð samstaða með fulltrúum flokkanna. Af ágreiningsefnum má nefna afstöðuna til Evrópusambandsins og EES, einkavæðingu, auðlindagjald, fjárfestingar í sjávarútvegi, orkumál og landbúnaðar- og byggðamál. Þetta þarf ekki að koma á óvart miðað við stefnu og afstöðu flokkanna, samstöðu um ýmis efni en ólíka afstöðu og sumpart harðan ágreining í mikilsverðum málum.
Afstaðan til Evrópusambandsins Það atriði á verkefnaskrá málefnahópsins sem vegur þyngst í ágreiningi Alþýðubandalags og Alþýðuflokks er afstaðan til Evrópusambandsins og samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Alþýðuflokkurinn hefur fylgt þeirri stefnu að Ísland eigi að stefna að aðild að ESB, en Alþýðubandalagið er því andvígt. Talsmaður Kvennalistans í hópnum segir skiptar skoðanir um þessi mál innan Kvennalistans, en meirihluti þar muni nú geta tekið undir stefnumið Alþýðuflokksins, einnig að því er varðar EES-aðild. Í hópnum höfnuðu fulltrúar Alþýðuflokks og Kvennalista m.a.eftirfarandi hugmyndum sem ég setti þar fram: * Að á meðan Ísland er nátengt réttarkerfi Evrópusambandsins með EES-aðild verði þess framvegis gætt að lögleiða ekki tilskipanir sem ganga gegn mikilsverðum þjóðarhagsmunum eða skerða frekar en orðið er fullveldi okkar. * Að sé slík afstaða af Íslands hálfu ekki virt af öðrum EES-ríkjum komi aðild okkar að Evrópsku efnahagssvæði til endurskoðunar og leitað verði í staðinn eftir tvíhliða samningi við Evrópusambandið. * Að því verði lýst yfir að ekki komi til greina að óska eftir samningum um aðild Íslands að Evrópusambandinu. * Að Íslendingar afsali sér ekki frekar en orðið er þeim stjórntækum sem þjóðin hefur í efnahagsmálum, þar á meðal eigin mynt með sjálfstæðri gengisskráningu og ákvörðun vaxta. Ákvæði EES-samningsins um fjórfrelsi, óskoraðan rétt til fjárfestinga og kaupa á fasteignum og landareignum með þeim réttindum sem fylgja, geta fyrr en varir orðið afdrifarík.
Sjávarútvegur Alþýðubandalag og Alþýðuflokk hefur greint á um mörg atriði sjávarútvegsmála og nægir þar að minna á tillögu krata um veiðileyfagjald. Við gerð EES-samningsins fékk Ísland undanþágu að því er varðar rétt annarra EES-aðila til fjárfestinga í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða. Sett voru lög hérlendis í krafti þessara undanþáguákvæða, en Alþýðuflokkurinn og Þjóðvaki vilja fella þau úr gildi. Hafa þingmenn jafnaðarmanna flutt beinar tillögur um að afnema með öllu takmarkanir á fjárfestingu útlendinga í fiskvinnslu. Í málefnahópnum fékkst ekki stuðningur við tillögu mína um "* Að lagaákvæði um fjárfestingu útlendinga í veiðum og frumvinnslu sjávarafurða verði á engan hátt rýmkuð." Alþýðubandalagið hefur ekki talið rétt að taka undir kröfuna um aðskilnað veiða og vinnslu og að mestallur fiskafli fari á markað. Við höfum hvorki talið skynsamlegt né réttarstöðu til að rjúfa samhengi hráefnisöflunar og úrvinnslu innan sama fyrirtækis. Hins vegar sé ekki óeðlilegt að fiskafli sem ekki nýtist þannig fari á fiskmarkað eftir því sem aðstæður leyfa. Um fleira var var ágreiningur, m.a. ekki tekið undir þá tillögu mína að skýr takmörk verði sett við framsali aflaheimilda.
Landbúnaður og byggðamál Ýmis ágreiningur kom upp í tengslum við landbúnaðar- og byggðamál. Ég taldi að ekki eigi að ganga lengra í innflutningi hefðbundinna landbúnaðarvara en nauðsyn krefur vegna samningsskuldbindinga samkvæmt GATT-samningum, en um það voru fulltrúar Alþýðuflokks og Kvennalista mér ósammála. Kvennalistinn kom meira að segja fram með þá hugmynd, að landbúnaður verði rekinn eins og hver önnur atvinnugrein sem taki mið af þörfum markaðarins og óskum neytenda. Ekki var heldur fallist á tillögu mína "að tryggja sem best félagsleg réttindi fólks í dreifbýli, þar á meðal sveitakvenna" né heldur var veitt rúm fyrir "að auðvelda samskipti þéttbýlis og dreifbýlis á sem flestum sviðum og nýta menningu og aðstæður sveitanna til uppeldi og lífsfyllingar".
Byggðamál Í atvinnumálum byggðanna tóku fulltrúar hinna flokkanna undir margar af þeim tillögum sem ég lagði fram. Þó mættu nokkur mikilsverð atriði andstöðu, m.a.: "Að við allar efnahagsaðgerðir og samningslegar skuldbindingar séu höfð í huga áhrif þeirra á dreifbýlið og þess gætt að Ísland afsali sér í engu rétti til jöfnunaraðgerða í þágu byggðar." Þá var ekki fallist á að það væri hlutverk hins opinbera "Að reka fjarskipti og póstþjónustu og tryggja jöfnuð í grunnþjónustu um allt land" né heldur "Að tryggja fjölþætta heilsugæslu og bráðaþjónustu sjúkrahúsa í öllum landshlutum án aðkomugjalda og sjúklingaskatta." Ekki var heldur fallist á tillögu mína "Að tryggður sé jöfnuður í flutningskostnaði á olívörum þannig að bensín og hráolía sé í boði á sama verði um allt land."
Ferðaþjónusta Í ferðaþjónustu lagði undirritaður til í samræmi við ferðamálastefnu sem mótuð var 1990 "Að ríkið veiti þróunarmiðstöðvum ferðaþjónustu á landsbyggðinni stuðning og tryggt verði með samvinnu hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) og samtaka ferðaþjónustuaðila að ferðamálafulltrúar starfi í öllum landshlutum." Á þetta var ekki fallist né heldur "Að móta langtímastefnu um markaðsstörf og kynningu á Íslandi sem ferðamannalandi og um val á markaðssvæðum." Einnig féll fyrir borð sú hugmynd mín "Að stórefla rannsóknir í þágu ferðaþjónustu með stuðningi sérstakrar rannsóknastofnunar og bæta upplýsingagrundvöll til að auðvelda stefnumörkun."
Iðnaður og orkumálNokkur atriði sem undirritaður lagði til urðu útundan, þar á meðal um þróunarátak í málmiðnaði og rafiðnaði, nýja sókn í textíliðnaði, nýtingu orkulinda til stuðnings ylrækt og fiskeldi, vistvænni matvælaframleiðslu, tómstundalífi og íþróttum. Þótt Alþýðuflokkurinn sýni nú viðleitni til að endurmeta afstöðu sína til "hefðbundinnar stóriðju" er langt frá því að menn þar á bæ séu samhljóma í áherslum. Verður fróðlegt að fylgjast með þeirri stefnumörkun til enda og undirtektum meðal annars frá forystu ASÍ sem leggst eindregið á sveif með samiginlegu framboði. er rétt að vekja athygli á mun sem er á tillögu minni um að hverfa frá hefðbundinni stóriðju og umskrift þeirrar tillögu í útgáfu meirihlutans: Í hópnum lagði ég til "Að leggja til hliðar allar ráðagerðir um hefðbundinn orkufrekan iðnað og endurmeta stöðu orkuiðnaðar eftir að sjálfbær orkustefna hefur verið mótuð, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga eins og loftslagssamninga." Í útgáfu meirihluta hópsins er þetta orðað þannig "Að öll áform um hefðbundna orkufreka stóriðju taki mið af sjálfbærri orkustefnu fyrir Ísland og alþjóðlegum skuldbindingum svo sem loftslagssamningum."
Opinber þjónusta Ekki var fallist á tillögu undirritaðs um "* Að hætta einkavæðingu opinberra þjónustufyrirtækja." né heldur "* Að tryggja fjölþætta heilsugæslu og bráðaþjónustu sjúkrahúsa í öllum landshlutum án aðkomugjalda og sjúklingaskatta." Þá var talið of sterkt að orði kveðið með tillögunni: "* Að undirstöðu þjónustufyrirtæki sem búa við fákeppnisaðstæður eins og fjarskipti (landsími sem eigandi grunnnets), póstþjónusta, orkuframleiðsla og orkusdreifing séu í eigu og undir forræði hins opinbera og tryggður sé jöfnuður í verðlagningu hvar sem er á landinu." Þá lagði ég til að því yrði slegið föstu "* Að grunnþættir samfélagsþjónustunnar, heilbrigðis- og menntamál, verði á opinberri hendi og njóti forgangs um leið og að tryggt sé jafnrétti óháð búsetu og kynferði." Þá lagði ég til "* Að taka til athugunar að skipta landinu í fylki (nýtt stjórnsýslustig) til að treysta byggð, samvinnu stórra svæða og æskilega stjórnsýslu ríkisins" , en sú hugmynd hlaut ekki undirtektir. Ég bendi á að ef farið verður út í róttækar breytingar á kjördæmaskipan eru enn ljósari rök en áður fyrir því að taka upp nýtt stjórnsýslustig til að skapa kjölfestu fyrir samstarf stórra svæða (gætu verið núverandi kjördæmi) og til að færa út stjórnsýslu og þjónustu ríkisins með skipulegum hætti nær fólkinu í landinu.
Umhverfisvernd Þótt ekki reyndist bera mikið á milli um einstök stefnumið í umhverfismálum, kom fram ágreiningur um vægi umhverfismála í samhengi efnahagsstefnu. Ég lagði fram sérstaka greinargerð um það efni á einni síðu, þar sem sett eru fram ákveðin "græn" sjónarmið, m. a. að "efnahagskerfi sem ekki lagar sig að strangri umhverfisvernd er ekki sjálfbært og endar með ósköpum. Niðurlagsorð greinargerðarinnar eru svohljóðandi: "Jafnframt því sem stutt skal við alla viðleitni til að styrkja stöðu umhverfismála, staðbundið og hnattrænt, þarf að þrengja svigrúm alþjóðlegs fjármagns og leitast við að endurheimta eitthvað af þeim lýðræðislegu stjórntækjum þjóðríkja [Íslands] sem kastað hefur verið fyrir róða síðasta áratuginn." Það er í samræmi við skiptar skoðanir um grundvallarviðhorf til umhverfismála að Össur og Guðný höfnuðu tillögu minni um "* Að lög og reglugerðir [ákvarðanir] um umhverfismál gangi framar reglum á viðskiptasviði, m.a. um frjálst vöruflæði, fjármagnsflutninga og fjárfestingar." Sömu aðilar gerðu fyrirvara við tillögu mína um "* Að tekið verði HÓFLEGT gjals fyrir afnot af náttúruauðlindum í þjóðareign." Þess í stað er þetta í tillögum meirihlutans orðað svo: "* Að tekið verði SANNGJARNT gjald af auðlindum í þjóðareign." Fyrra orðalagið er úr tillögu þingflokks Alþýðubandalagsins, sem samþykkt var á Alþingi nú í vor, en hún byggði á tillögu formanns flokksins með því orðalagi sem miðstjórn AB lagði blessun yfir eftir m.a. átök um ofangreint orðalag. Segir þetta sína sögu um í hvaða spotta er hér kippt! Í hugmyndum sem ég lagði fram í málefnahópnum var að finna orðalagið: "* Að við skipulag hálendissvæð og óbyggða, ekki síst miðhálendisins, verði gætt heildstæðra viðhorfa og náttúruverndar og almenningur hvar sem er á landinu hafi aðgang að skipulagstillögum og fullan rétt til athugasemda." Í tillögum meirihlutans er hins vegar komið orðalagið: "* Að stjórnsýsla hálendisins verði undir einni stjórn." Athyglisvert er að þar er enga áherslu að finna á náttúruvernd, en samkvæmt breytingartillögu þingflokks jafnaðarmanna á Alþingi við sveitarstjórnalög var gert ráð fyrir að sex ráðuneyti tilnefndu hvert sinn fulltrúa í tíu manna miðhálendisstjórn en Samband íslenskra sveitarfélaga fjóra. Þá vakti ég athygli á því í hópnum að óvarlegt væri að kveða ekki á um varfærni í þróun og hagnýtingu erfðavísinda, m.a. með vísan til yfirstandandi deilna um einkaleyfi til Íslenskrar erfðagreiningar ehf. Minni ég og á tillögu mína um "* Að leggja siðrænt mat á nýtingu nýrrar tækni, ekki síst á sviði líftækni, og móta almennar reglur með hliðsjón af alþjóðasamþykktum og íslenskum séraðstæðum", en lýst var stuðningi við hana í hópnum.
Ágreiningsefni og sammæli Eins og sjá má af framansögðu eru þau mál mörg sem ágreiningur var um í málefnahópnum og eru ástæða þess að undirritaður getur ekki fylgt meirihluta hans í afstöðu. Mörg þessara ágreiningsefna varða stórmál á vettvangi þjóðmála, sem skipta þjóðinni í fylkingar og stjórnmálaflokkar hljóta að þurfa að taka afstöðu til. Þarna er meðal annars um að ræða ágreining um grundvallarviðhorf eins og til umhverfismála og hlutverks hins opinbera í þjónustu við þegnana. Önnur mikilsverð atriði sem ágreiningur er um snerta undirstöðuþætti efnahagsmála og helstu atvinnuvegi landsmanna.- Ýmis atriði eru afar óljós eftir vinnu málefnahópsins, meðal annars vegna afar naums tíma sem hópnum var ætlaður og kröfunnar um símskeytastíl í framsetningu tillagna, sem ættuð er frá formönnum viðkomandi flokka. - Sammæli var í hópnum um ýmsa þætti, sem engum kemur á óvart, og endurspeglast það með líkum hætti og í störfum fulltrúa flokkanna á Alþingi, þar sem einnig ágreiningefni eru augljós og sýnileg. Raunar er ýmislegt af því sem meirihluti hópsins setur fram í sínum tillögum sótt í hugmyndir sem undirritaður lagði fram í málefnahópnum.
Sameiginlegt framboð = endalok Alþýðubandalagsins Undirritaður hefur oftsinnis á vettvangi Alþýðubandalagsins og í þingflokki AB og óháðra varað við hugmyndum um að leggja saman spilin á vettvangi landsmála með stjórnmálaflokkum sem standa fyrir allt aðra stefnu en Alþýðubandalagið í mikilsverðustu þjóðmálum og á heildina litið. Slíkt jafngildir því að hverfa frá stefnumiðum flokksins og fella merki hans. Í starfi málefnahópsins komu afleiðingar af "aðferðafræði hins minnsta samnefnara" berlega í ljós. Sérmál flokkanna, ekki síst Alþýðubandalagsins sem hefur til þessa haft skýra sérstöðu, verða gerð ósýnileg og er sópað undir teppið. Verði fallist á kröfu Alþýðuflokksins um sameiginlegt framboð í næstu alþingiskosningum jafngildir það því að flokkarnir sem að slíku framboði standa séu lagðir niður. Það verður þá aðeins formsatriði að ganga frá útförinni. Undirritaður er því algjörlega andvígur að fella merki og málstað Alþýðubandalagsins og telur að störf í málefnahópnum hafði berlega leitt í ljós hvað sameiginlegt framboð hefði í för með sér. Ég fæ ekki séð að milli Alþýðflokks og Alþýðubandalags sé að finna þá snertifleti í þjóðmálum sem gerðu slíkt samlag trúverðugt, hvað þá endingargott. Eins og gerist með stjórnmálaflokka eru ekki skörp skil í afstöðu þeirra á öllum sviðum. Það á ekki aðeins við um Alþýðubandalag, Alþýðuflokk og Kvennalista, heldur einnig um núverandi stjórnarflokka, ekki síst að því er varðar Framsóknarflokkinn og bakland hans. Stjórnmálaflokkarnir eru ásamt fjöldasamtökum almennings kjölfesta lýðræðis í landinu. Til að lýðræðið fái notið sín þurfa stjórnmálin að endurspregla þá meginstrauma sem til staðar eru á hverjum tíma. Ef Alþýðubandalagið hyrfi af vettvangi væri komin eyða í litróf stjórmálanna og horfinn málsvari sjónarmiða sem safnað hefur kjörfylgi sem oft hefur legið á bilinu 15-20 % síðustu ár og áratugi. Menn geta lagt niður flokka að formi til en málstaður hverfur ekki svo lengi sem hann hefur hljómgrunn meðal almennings.
Hjörleifur Guttormsson
|