Hjörleifur Guttormsson:

 

Misrétti fer hvarvetna vaxandi

Eitt megineinkenni þjóðfélagsþróunar um þessar mundir er vaxandi misrétti milli þjóðfélagshópa innan þjóðríkja og milli einstakra svæða í veröldinni. Hér á landi kemur þetta fram í vaxandi tekjumun launafólks og ýmissa sjálftökuhópa í samfélaginu, að ekki sé talað um þá sem búa við atvinnuleysi. Við þetta bætast margháttaðar skerðingar á velferðarþjónustu sem ríkisstjórn og ráðandi meirihluti á Alþingi hefur beitt sér fyrir. Rökin eru þau sömu hér og víða erlendis: Ná verði niður fjárlagahalla með niðurskurði, því að ekki sé bætandi á skattheimtu. Skattbyrði launafólks hefur verið aukin og jaðarskattar eru svimandi háir, en skattlagning fyrirtækja og hlutafjárkaupenda lækkuð að sama skapi.

 

Óhugnanlegar tölur um ofsagróða

Í þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna 1996 eru dregnar fram óhugnanlegar staðreyndir um ofsagróða fyrirtækjabaróna, þar sem bakmenn upplýsingaiðnaðarins tróna á toppi. William Gates og Paul Allen sem stofnuðu Microsoft hugbúnaðarfyirtækið eru í hópi tíu auðugustu manna heims, sá fyrrnefndi nú fertugur og talinn ríkasti maður heims með 18 miljarða dollara í eignir. Á fjórða hundrað miljarðamæringa eru taldir eigendur í dollurum talið að upphæð sem svarar til samanlagðra tekna 45% jarðarbúa þeirra sem minnst bera úr býtum, þ.e. 2300 miljóna manna! Reiknað hefur verið út að ef þessi hópur miljarðamæringa léti sér nægja 5 miljarða dollara hver til lífsviðurværis væri fyrir mismuninn hægt að tvöfalda árlegar tekjur nær helmings jarðarbúa.

 

Þróunarlönd fara halloka

Það kemur einnig fram í skýrslu Sameinuðu þjóðanna að hallað hefur undan fyrir efnahag um 100 þjóðríkja síðustu ár og árartugi og í 70 löndum eru meðallaun lægri en þau voru 1980. Einnig innan þessara landa hefur bilið milli ríkra og fátækra breikkað til muna. Alþjóðavæðingin margrómaða hefur ekki fært fátækari hluta heimsins neina úrlausn nema síður væri. Erlendar fjárfestingar eru að miklum meirihluta milli hinna þróuðu efnahagssvæða innbyrðis, þ.e. Vestur-Evrópu, Bandaríkjanna og austanverðrar Asíu. Það er engin innistæða að baki slagorðinu að allir séu að gera það gott. Í efnahagsumhverfi sem byggir á harðnandi samkeppni og minnkandi opinberum afskiptum er bæði að finna sigurvegara og sigraða og þeim fjölgar stöðugt sem fylla síðari hópinn.

 

Frjálshyggjan endar með ósköpum

Frjálshyggjustefnan sem fór sigurför á 8. tug aldarinnar hefur leitt til ómælds tjóns fyrir heimsbyggðina og meirihluta mannkyns.Hún hefur síðan verið helsta leiðarljós Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þótt einnig á þeim bæjum fjölgi gagnrýnendum hennar. Óheftar fjármagnshreyfingar og útþensla markaðarins yfir á flest svið, m.a. við nýtingu náttúruauðlinda, getur ekki endað nema með ósköpum. Það er líka svo komið að þeir sem vöktu upp drauginn eru farnir að hafa áhyggjur af tiltektum hans. Eitt af því sem við blasir er að verðbréf í umferð eru nú nær þrefalt hærri að verðgildi en svarar til árlegrar heimsframleiðslu og raunverulegrar verðmætasköpunar. "Árangursrík alþjóðavæðing öllum til hagsbóta" var yfirskrift 22. leiðtogafundar sjö stærstu iðnveldanna í Lyon fyrir mánuði. Í texta ályktunar fundarins er hins vegar viðurkennt að þessari blessun fylgi margar hættur, m.a. í formi misskiptingar og áður óþekkts óstöðugleika á fjármálamörkuðum heimsins. Það þarf hins vegar aðra pólitíska sýn og einbeittari vilja til að kveða drauginn niður en nú er til staðar hjá þeim sem mestu ráða.

 

 

Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim