Hjörleifur Guttormsson:

Haltur leiðir blindan

Framkomnar hugmyndir um breytingar á kjördæmaskipan eru um margt afar slæmar. Myndun þriggja risastórra kjördæma á landsbyggðinni og tveggja á höfuðborgarsvæðinu samhliða tilfærslu þingsæta suður" eru vanhugsaðar og síst til þess fallnar að treysta stöðu dreifbýlisins. Sú hugmynd sem sagt er að efst sé á blaði um kjördæmamörk felur í sér að Austurlandi verði skipt upp um Lónsheiði, syðri hlutinn verði lagður til útvíkkaðs Suðurlandskjördæmis og nyrðri hlutinn settur undir Norðurland. Með þessu væri kollvarpað samstarfi og verkaskiptingu sem þróast hefur innan núverandi Austurlandskjördæmis frá árinu 1959 að telja. Einnig ganga slíkar hugmyndir gegn stjórnsýsluhefðum sem sögulega eiga rætur allt aftur á þjóðveldisöld. Í slíkum risakjördæmum í landfræðilegum skilningi væri útilokað að tryggja nánin tengsl á milli þingmanna og fólks í byggðarlögunum. Sú stækkun á Austurlandskjördæmi sem ég tel helst koma til álita er að fyrrum Vestur-Skaftafellssýsla yrði lögð til þess. Þannig yrðu kjördæmamörkin til vesturs við Fúlalæk.

Besta félagslega aðgerðin fyrir landsbyggðina nú væri hins vegar að gera alvöru úr því að koma á fylkjaskipan í landinu til að færa með samræmdum hætti umsýslu og störf í opinberri þjónustu frá höfuðborgarsvæðinu nær þeim sem þjónustunnar eiga að njóta. Í því sambandi ætti að skoða landfræðilega skiptingu sem svaraði til fjórðunganna fyrrum, og til viðbótar kæmi höfuðborgarsvæðið sem fimmta fylkið. Kjósa ætti með lýðræðislegum hætti til fylkisþinga og kveða á um verkefni þeirra og fjárráð í lögum. Ef á slíka skipan mála yrði fallist teldi ég koma til greina að gera landið allt að einu kjördæmi til Alþingis.

Því miður er fátt sem bendir til að ný og frjó hugsun ráði ferðinni um fyrirhugaðar breytingar á kjördæmaskipan í landinu. Þar virðist sem haltur leiði blindan. Um niðurstöðuna verður því að líkindum tekist á í komandi alþingiskosningum.

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim