Hjörleifur Guttormsson:

 

Hverju skilaði Ríó-ráðstefnan?

Eftir að undirritaður kom heim frá ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem lauk í Rio De Janeiro 14. júní sl., hafa margir spurt mig hvort hún hafi skilað einhverjum árangri. Ég svara spurningunni hiklaust játandi, ráðstefnan var gagnleg, eftir hana liggja samþykktir og sáttmálar um umhverfismál, sem eru einhvers virði og fyrirheit um fjármagn frá vel stæðum þjóðum til þróunarríkja. Allt ber þetta svip málamiðlunar milli þeirra fylkinga sem tókust á allt til síðasta dags í Ríó og enginn fór þaðan ánægður með sinn hlut, síst af öllu fulltrúar fátækari landa. Þeir eru hins vegar fáir sem telja að skárri kostur hefði verið að aflýsa ráðstefnunni, þegar sýnt þótti að uppskeran yrði minni en fremstu forgöngumenn höfðu gert sér vonir um.

Samþykktir ráðstefnunnar

Formlegar afurðir Ríó-ráðstefnunnar eru einkum eftirfarandi:

  1. Yfirlýsing í 27 liðum, sem hefur að geyma sameiginlegar heitstrengingar um umgengni við móður jörð, auðlindir hennar og samskipti þjóða á sviði umhverfismála.
  2. Framkvæmdaáætlun á sviði umhverfismála í fjórum þáttum og 40 tölusettum köflum á nálægt 800 blaðsíðum. Hún gengur undir heitinu Áætlun 21, og vísar talan til næstu aldar. Þættirnir bera eftirfarandi heiti: I. Félagsleg og efnahagsleg svið. II. Verndun og stjórnun auðlinda til þróunar. III. bætt staða stórra þjóðfélagshópa. IV. Stjórntæki til framkvæmda.
  3. Tveir alþjóðasáttmálar: Um verndun andrúmsloftsins og um verndun á líffræðilegum fjölbreytileika jarðar. Báðir þessir sáttmálar voru opnaðir til undirritunar á meðan á ráðstefnunni stóð, og verða skuldbindandi fyrir aðildarríki sem þá staðfesta.
  4. Samþykkt um skóglendi jarðar, verndun þess og nýtingu. Þetta er óskuldbindandi yfirlýsing, en getur orðið upphafið að öðru meira, eins og gildir um aðrar afurðir ráðstefnunnar.

 

Það má telja skýrslur þjóðríkja um stöðu umhverfismála í hverju landi, sem teknar voru saman sérstaklega fyrir ráðstefnuna. Þær eru upplýsandi, þótt efni þeirra sé afar misjafnt að umfangi og gæðum og í þeim sé almennt tilhneiging til að draga frekar fram bjartar hliðar en dökkar.

Vandamál heimsbyggðar

Eftir þessa ráðstefnu eru umhverfismál í brennidepli sem stærsta sameiginlega viðfangsefni mannkyns. Þátttaka nær 180 þjóðríkja í ráðstefnunni og heimsókn á annað hundrað þjóðarleiðtoga á lokafund hennar er einstæður viðburður og viðurkenning á þeim vanda sem við blasir: Fólksfjölgun, mengun, eyðingu auðlinda, misskiptingu og fátækt. Það er þetta sammæli um vandamálin, sem endurómaði í ræðum flestra í Ríó, og er það vissulega ótvíræður árangur. Orð eru til alls fyrst, og þótt eitthvað beri á milli í mati á því hvert þessara vandamála sé stærst og afdrifaríkast, er glíman við lausn þeirra næsta mál á dagskrá. Yfir 8 þúsund fréttamenn voru staddir í Ríó og ættu fregnir af því sem þar fór fram að hafa borist víða. Upplýsing og umræða er í mörgum tilvikum forsenda fyrir lausn vandamálanna, á sama hátt og ólæsi, fáfræði og einræði magnar þau upp.

Þetta á m.a. við um fólksfjölgunina, sem er ógnvekjandi vandamál á heildina litið og er langmest í þróunarríkjunum. Á degi hverjum bætist kvartmilljón við íbúatölu jarðar eða sem svarar til fjölda íbúa hérlendis. Allskýrt samhengi er á milli lestrarkunnáttu og fólksfjölgunar, ekki síst meðal kvenna. í Suður-Jemen eru 95% kvenna ólæsar og þar er fæðingartíðni 3,4%. Í Tælandi eru 15% kvenna ólæs og fæðingartalan 1,3%.

Vísindamenn telja sig hafa sýnt fram á ótvírætt samhengi milli mengunar og loftslagsbreytinga. Meðalhiti á jörðinni er nú talinn 0,7 gráðum hærri en fyrir röskum 100 árum, hitamunur milli svæða hefur vaxið, ferli lægða breyst o.s.frv. Koltvísýringur er talinn valda um helmingi svonefndra gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum og þar leggja iðnríkin langmest til með notkun kola og olíu í orkuframleiðslu. Ein afleiðing hitunar er bráðnun jökla og hækkuð sjávarstaða, sem talið er að geti numið allt að hálfum metra um miðja næstu öld. Með sáttmálanum um að hamla gegn loftslagsbreytingum er reynt að bregðast við þessum horfum, sem og með yfirlýsingunni um verndun skóglenda, en gróður bindur sem kunnugt er koltvísýring með tillífun.

 

Bandaríkin í slæmu ljósi

Það er kaldhæðnislegt, að Bandaríkin sem öflugasta iðnríki heims skuli hafa komið í veg fyrir að inn í sáttmálann um loftslagið yrðu tekin bindandi markmið og tímasetningar varðandi samdrátt í mengun af völdum gróðurhúsalofttegunda. Bandaríkin leggja til nífalt meira af slíkri mengun per íbúa en meðaltalið er yfir heiminn. Það þykir að vonum ekki trúverðugt þegar ríki sem ekki vill skuldbinda sig til að draga úr slíkri mengun krefst íhlutunar um nýtingu regnskóga hitabeltisins.

Framganga Bandaríkjastjórnar í Ríó varð til þess að draga verulega úr árangri af ráðstefnunni á mörgum sviðum. Fyrir utan neikvæða afstöðu við undirbúning loftslagssáttmálans skárust Bandaríkjamenn úr leik þegar kom að því að staðfesta sáttmálann um verndun lífríkis. Einnig þar réðu hagsmunir bandarískra fyrirtækja ferðinni. Sama varð uppi á teningnum, þegar kom að fjármögnun til þróunaraðstoðar. Bandaríkin voru tregust allra iðnríkja til að skrifa upp á skuldbindingu um að greiða árlega sem nemur 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu til þróunaraðstoðar og til að hrinda „Áætlun 21" í framkvæmd. Önnur iðnríki, þar á meðal Evrópubandalagið og Japan, gátu falið sig í skjóli þessarar afstöðu Bandaríkjamanna, þegar kom að skuldbindandi tímasetningu um fjárframlög. Gert er ráð fyrir að iðnríkin tilkynni á komandi Allsherjarþingi hvernig þau hyggjast ná settu marki um greiðslur. Þau framlög sem heitið var í Ríó voru aðeins örlítið brot af því sem þarf til að koma samþykktum ráðstefnunnar í framkvæmd.

 

Efnahagskerfi og sjálfbær þróun

Það er að koma æ betur í ljós, að gjörbreyta verður um stefnu í efnahagsmálum iðnríkja og samskiptum þeirra við þróunarríki, ef markmiðið um sjálfbæra þróun á að verða annað en nafnið tómt. Óheftur markaðsbúskapur er ekki til þess fallinn að bregðast við aðsteðjandi vanda af völdum mengunar og misskiptingar lífsgæða. Núverandi vistkreppa er fyrst og fremst afsprengi efnahagskerfis iðnríkjanna og miðstýrður ríkisbúskapur kommúnistaríkja hefur dæmt sig rækilega úr leik og skilur eftir sig sviðna jörð. Það er því fátt um svör þegar lýst er eftir leiðum í efnahagsmálum, sem staðist geti til frambúðar. Núverandi sóunarkerfi og neyslustig iðnvæddra ríkja leiðir fyrr en varir í strand og það þeim mun fyrr sem núverandi þróunarríki halda inn á braut iðnvæðingar og að vestrænni fyrirmynd.

Það er útbreidd blekking, að tæknilegar lausnir í formi mengunarvarna og endurvinnslu geti leitt heimsbyggðina í aðstæður, sem staðist geti til frambúðar. Þessi sjónarmið endurómuðu í ræðum leiðtoga ýmissa iðnríkja í Ríó, m.a. í máli Bush Bandaríkjaforseta, sem taldi land sitt um flest til fyrirmyndar í umhverfismálum. Við annað hljóð kvað hjá vísindamönnum og heimsþekktum baráttumönnum úr röðum umhverfissinna sem töluðu á óháðu málþingi (Global Forum) til hliðar við ráðstefnu stjórnmálamanna. Þar var lýst eftir nýjum og róttækum úrræðum og hugsjónum, sem væru þess megnugar að brjóta hlekki ríkjandi skipulags.

 

Verk að vinna hérlendis

Íslensk stjórnvöld áttu hlut að undirbúningi og ákvörðunum ráðstefnunnar í Ríó og forseti okkar kom þar fram í hópi leiðtoga landi og þjóð til sóma. Þótt benda megi á ýmsa veika hlekki í undirbúningi ráðstefnunnar af Íslands hálfu skilaði fámennt starfslið ráðuneytis okkar þar góðu verki og hafði áhrif á samþykktir hennar í rétta átt. Umræða í aðdraganda ráðstefnunnar sem snerist um ytri ramma hennar, fjölda þátttakenda héðan, hefur að líkindum valdið nokkru um það, að efnisleg umfjöllun fjölmiðla varð hér rýr og áhugasamtök um umhverfismál leiddu ráðstefnuna að mestu hjá sér.

Úr þessu þarf að bæta nú að fundi loknum með því að koma samþykktum ráðstefnunnar í Ríó á framfæri við almenning og hefja hér átak í umhverfismálum, sem brýn þörf er á. Árangurinn af þessu málþingi í Brasilíu er ekki síst undir því kominn, að hvert þjóðríki taki til í eigin garði og leggi af mörkum í alþjóðasamvinnu það sem þarf. Við Íslendingar þurfum m.a. að reka af okkur slyðruorð með því að tífalda framlag okkar til þróunaraðstoðar á árunum fram til aldamóta.

 

Höfundur er alþingismaður Alþýðubandalags
fyrir Austurlandskjördæmi.

 

 


Til baka | | Heim