Hjörleifur Guttormsson skrifar frá Buenos Aires (2. grein)

3. nóvember 1998.

 

Brestur í samstöðu þróunarríkja

 

Loftslagsþingið í Buenos Aires hófst í gærmorgun í stóru sýningarhúsnæði skammt frá ósum La Plata árinnar. Ytra formið á þessu þingi, sem ber yfirskriftina COP-4 {fjórða aðildarríkja þing loftslagssamningsins} er kunnuglegt þeim sem sækja alþjóðaráðstefnur. Aðalfundur, ríkjahópar og nefndir skipta með sér fundaaðstöðu og tíma og þess utan eru áhugasamtök (NGOs) sem efna til funda í hádegishléi og síðdegis til að vekja athygli á sínum áherslum í loftslagsmálum. Maria Julia Alsogaray, ráðherra auðlindamála og sjálfbærrar þróunar í stjórn Argentínu, var kosin forseti þingsins. Veitti ekki af að lappa upp á kvenímynd ráðstefnunnar, en karlar eru hér yfirgnæfandi í hópi fulltrúa, íslenski hópurinn til dæmis algjörlega einlitur. Það er ekki að sjá af þessu sem umhverfismálin séu talin til mjúkra gilda!

 

Harðar deilur um dagskrá

Á þingfundinum í gær urðu afar harðar deilur um dagskrárdrög. Bitbeinið var tillaga Argentínu þess efnis að rætt yrði undir sérstökum dagskrárlið um frjálsar skuldbindingar einstakra þróunarríkja um losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta reyndist nú sem oft áður afar eldfimt efni, þar sem þróunarríkjahópurinn G-77 ásamt Kína brást við af fullri hörku. Allt frá upphafi loftslagssamningsins hafa staðið um það deilur milli iðnríkja og þróunarríkja hvort hin síðarnefndu eigi að taka á sig skuldbindingar samkvæmt samningnum. "Þróuð aðildarlönd" sem tilgreind eru í viðauka I með samningnum taka á sig aðrar og meiri kvaðir en þróunarríkin, enda menga þau fyrrnefndu flest hver langtum meira að magni til, að ekki sé talað um umreikning á íbúa. Í sjálfum samningnum er kveðið svo á, að "fullt tillit skyldi tekið til sérstakra þarfa og sérstakra aðstæðna þróunarlanda sem eru aðilar…" Deilur um þetta urðu meðal annars til þess að Bandaríkin undirrituðu ekki samninginn í Ríó á sínum tíma. Þegar ákveðið var á COP-2 þinginu í Berlín 1995 að stefna að því að herða ákvæði samningsins voru þróunarríkin undanskilin og í samræmi við það stóðu þau utan við lagalegar skuldbindingar í Kyótó-bókuninni.

 

Skarð í raðir þróunarríkja

Átökin í gær um dagskrá fundarins voru að mörgu leyti söguleg. Nú var það Argentína, ríki úr hópi þróunarlanda og G-77 hópsins, sem viðrað hafði tillögu um að þróunarríkin geti að eigin ósk tekið á sig lagalegar skuldbindingar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Talsmenn margra þróunarríkja höfðu um þetta hörð orð og heimtuðu að málið kæmi ekki á dagskrá. Fóru þar fyrir Indónesía, Saudi Arabía, Indland og Kína og munar um minna. Evrópusambandið kaus að þræða bil beggja og sagði talsmaður þess óráðlegt að reyna að taka málið á dagskrá nú. Nokkur þróunarríki tóku varfærnislega undir argentínsku tillöguna, meðal annars fulltrúi Samóa sem er talsmaður AOSIS-smáríkjahópsins. Þingforsetinn ákvað í ljósi umræðunnar að taka málið út af dagskrá en gerði ráð fyrir að um það yrði fjallað óformlega af fulltrúum einhverra ríkja á ráðstefnunni.

Þessi átök endurspegla skiptar skoðanir í hópi þróunarríkja, sem hafa ólíkra hagsmuna að gæta í sambandi við loftslagsbreytingar og líklegar afleiðingar þeirra. Þau sem lengst hafa náð í iðnvæðingu, eins og til dæmis Suður-Kórea og Singapúr, eru um margt komin í svipaða stöðu og iðnríkin og ekki óeðlilegt að þau taki á sig skuldbindingar um losun. Þorri þróunarríkja er hins vegar á allt öðru róli og ekki reiðubúinn að taka á sig kvaðir sem leggja hömlur á viðleitnina til að vinna bug á bágum efnahag og fátækt heima fyrir. Hitt er verra ef sú eðlilega viðleitni þeirra leiðir til þess að þorri mannkyns fer úr öskunni í eldinn vegna loftslagsbreytinga. Fráfarandi þingforseti orðaði það svo að í stað þess að leggja áherslu á fjöldaframleiðslu (mass production) þurfi nú að koma samstaða um fjöldavernd (mass protection).

 

Hætt er við því að átökin milli norðurs og suðurs á fyrsta þingdegi hér í Bueons Aires eigi eftir að segja til sín er kemur að öðrum efnum á fundinum. Heiti borgarinnar "Gott andrúmsloft" (Buenos Aires) er því miður engin trygging fyrir að málamiðlun takist hér milli andstæðra fylkinga.

Hjörleifur Guttormsson.

 

 

 

 


Til baka | | Heim