Vegamál stefna í mikinn hnút

(Leiðari í Austurland 4. júní 1997)

 

Á síðustu starfsviku Alþingis voru mörg stór mál til umræðu og afgreiðslu og fengu sum hver harla lítið rúm og athygli í fjölmiðlum. Eitt af því var Vegáætlun ríkisstjórnarinnar. Í þingbyrjun lagði ríkisstjórnin fram tillögu að vegáætlun til fjögurra ára eins og lög gera ráð fyrir, þ.e. fyrir árin 1997-2000 og var henni að venju vísað til samgöngunefndar. Þegar stjórnarmeirihlutinn í nefndinni afgreiddi málið til þingsins var það í algjöru skötulíki. Í stað áætlunar til fjögurra ára var aðeins um að ræða tveggja ára tímabil, þ.e. endurskoðun fyrri áætlunar og allt með niðurskurði. Fyrir vinnubrögðum sem þessum eru engin fordæmi og ber ríkisstjórnin í heild á því ábyrgð, þótt spjótin standi eðlilega mest á samgönguráðherra. En þar með er ekki öll sagan sögð. Boðuð hafði verið langtímaáætlun til næstu tólf ára á liðnu þingi, en ekkert slíkt plagg kom fram. Það eina sem gerðist í vegamálum var að stjórnarmeirihlutinn innsiglaði verulegan niðurskurð í ár og á næsta ári frá því sem gert var ráð fyrir í áður gildandi vegáætlun.

Á Austurlandi nemur niðurskurður til vegaframkvæmda 46 milljónum króna á þessu ári og munar um minna eins og ástand vega er víða í kjördæminu. Hvarvetna blasa við stórfelld óleyst verkefni sem fara vaxandi vegna síaukinna þungaflutninga á þjóðvegum. Er þar bæði um að ræða uppbyggingu vega með bundnu slitlagi, endurbyggingu vega sem eru að sligast undan umferðarþunga og vöntun á eðlilegu viðhaldi svo og nýjar brýr og styrkingu brúa sem ekki standast lágmarkskröfur.

Örfá dæmi verða að nægja um malarvegi þar sem ekki hillir undir nýbyggingu: Suðurströnd Reyðarfjarðar inn af Eyrarhjalla, Vattarnesskriður, Breiðdalur og Breiðdalsheiði, Kambaskriður, innanverður Berufjörður, Álftafjörður um Melrakkanes og Suðursveit. Á svæðinu norðan Egilsstaða heyrir bundið slitlag til undantekninga. Dæmi um vegkafla þar sem endurbygging er knýjandi eru Mýrar í Hornafirði, Hamarsfjörður og vegurinn milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. Um ástand brúa mætti hafa mörg orð því að einnig þar er Austurland og Vestur-Skaftafellssýsla að verða að öngstræti miðað við kröfur til flutninga. Brúin á Jökulsá í Lóni stenst t.d. ekki kröfur um styrkleika og sama máli gegnir um brýrnar í Fljótshverfi. Löngu er brýnt að byggja nýja brú á Eskifjarðará, m.a. vegna skipulags kaupstaðarins, en ekkert fé er í sjónmáli til þeirrar framkvæmdar. Þá eru ótaldir fjölmargir tengivegir (áður kallaðir þjóðbrautir) í sveitum, sem lengi hafa verið í fjársvelti.

Það er við þessar aðstæður sem ríkisstjórnin knýr fram niðurskurð í vegaframkvæmdum og hirðir um 500 milljónir króna af sköttum á umferðina beint í ríkissjóð. Samgönguráðherrann sér aðeins svonefnt "stórverkefni" sem er bygging vegar yfir Fjöllin á sama tíma og vegir í byggðum standast ekki lágmarkskröfur.

 

Ríkisstjórnin hefur tekið jarðgöng af dagskrá

Í umræðum um vegáætlun í síðasta mánuði kom það enn skýrar fram hjá samgönguráðherra en áður að hann útilokar framkvæmdir við jarðgöng á Íslandi "í fyrirsjáanlegri framtíð" eins og hann orðar það og nefnir áratug eða meira í því sambandi. Austfirðingar vita hvernig ráðherrann hefur hagað orðum sínum þegar jarðgöng á Austurlandi ber á góma, en nú er það ríkisstjórnin í heild sem stendur að baki honum í algjöru ráðleysi þegar undirbúningur jarðganga er annars vegar. Á vegáætluninni er veitt 2 milljónum í "Austurlandsgöng" á árinu 1997 og 3 milljónum árið 1998, sem eitt sinn var reiknað með sem fyrsta framkvæmdaári við jarðgöng í fjórðungnum! Auðvitað eru þingmenn stjórnarflokkanna á Austurlandi eins og aðrir stjórnarþingmenn ábyrgir fyrir þessari ekki-stefnu í jarðgangamálum.

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim