Hjörleifur Guttormsson:

 

Kveðjuávarp á landsfundi,
4. júlí 1998.

 

Ung var ég gefin Njáli.

Ungur gekk ég leitandi til liðs við hreyfingu íslenskra sósíalista og hef átt með henni samleið í hálfan fimmta áratug.

Þetta hefur verið stórkostlegur tími og skipst á skin og skúrir svo sem vera ber.

 Heimurinn hefur í mörgu tekið á sig breytta mynd á ytra borði en viðfangsefni stjórnmálanna, mannlegs félags, eru að inntaki hin sömu og fyrr.

 Stjórnmálahreyfing okkar hefur fengið miklu áorkað í samfélaginu, með því að bæta jarðveg, hlúa að grasrót og skila uppskeru í hús. Saman höfum við skilað góðu dagsverki, hamlað gegn erlendri ásælni, tryggt þjóðinni yfirráð auðlinda hafsins, barist fyrir verndun lands og landsréttinda og fyrir jöfnuði þegnanna. Þessi viðfangsefni eru sígild og síst minni þörf á liðsinni við þau nú en fyrr á öldinni.

 Minnimáttarkennd er ástæðulaus. Alþýðubandalagið sem lengst af hefur mælst með 13-18% kjörfylgi hefur náð að hafa mótandi áhrif á þjóðfélagið, bæði með aðild að ríkisstjórnum en raunar ekki síður sem öflugt afl í stjórnarandstöðu.

 Hvers vegna eru menn að leggja af þennan vettvang, fella málstað og merki til að þókknast öðrum sem koma að stjórnmálum með allt öðru hugarfari og hafa önnur markmið. Þetta kann ekki lukku að stýra.

 Til þess er áttaviti að treysta honum. Hugmyndir og hugsjónir eru það sem farsælast er að ráði stefnu en ekki draumórar um vinning án innistæðu.

 Alþýðubandalagið er því miður frá þessum degi gagnslaust, bindiefnið í upplausn og dagar flokksins senn taldir. Forysta Aþýðubandalagsins getur ekki vænst þess að geta notað trosnuð flokksbönd til að flytja menn yfir í allt aðra vist. Þau vistaskipti höfða ekki til mín. Ég ætla heldur ekki að sitja um kyrrt á eyðibýli eftir ákvörðun þessa fundar. Hér skilja því leiðir við þau ykkar sem kjósið vistaskiptin. Önnur mun ég hitta fyrir á grænum grundum eða í þeim fjöllum sem framundan er að klífa.

 

Ég vil þakka ykkur öllum samfylgdina. Á þessari stundu er mér innanbrjósts líkt og manni sem misst hefur náinn ástvin.

Kannski líður mörgum ykkar ekki ósvipað og mér.
Lifið öll heil.

 

 

 

5. júlí 1998

 

Til stjórnar Alþýðubandalagsins í Neskaupstað
Katrín Sól Högnadóttir formaður
Víðimýri 5
Neskaupstað

 

 Efni: Úrsögn undirritaðs úr Alþýðubandalaginu

 

Undirritaður hefur ákveðið að ganga úr Alþýðubandalaginu sem stjórnmálaflokki og óskar eftir að verða tekinn af félagaskrá Alþýðubandalagsins í Neskaupstað.

Ástæða þessarar ákvörðunar er sú samþykkt sem gerð var á aukalandsfundi Alþýðubandalagsins í gær þess efnis að stefna skuli að sameiginlegu framboði með Alþýðuflokki og Kvennalista í næstu alþingiskosningum.

Það er sársaukafullt að segja sig nú úr félaginu eftir mikið og ánægjulegt samstarf í aldarþriðjung. Hið sama á við um samskipti mín við annað Alþýðubandalagsfólk og stuðningsmenn flokksins á Austurlandi.

Ég greindi formanni Kjördæmisráðs Alþýðubandalagsins í Austurlandskjördæmi, Sigurjóni Bjarnasyni, frá ákvörðun minni munnlega 4. júlí, áður en ég kunngerði hana á landsfundi flokksins.

Til fróðleiks læt ég fylgja með ræðu sem ég flutti á landsfundinum 3. júlí 1998 og kveðjuávarp á sama fundi. Það er ósk mín að þessi gögn verði varðveitt með gjörðabók félagsins.

Ég varð stofnfélagi að Alþýðubandalaginu í Neskaupstað árið 1965 og fyrsti formaður þess. Síðan hefur félagið sýnt mér margháttaðan trúnað og samstarf ætíð verið gott við forystu þess.

Ég harma þá þróun í Alþýðubandalaginu um alllangt skeið sem leiddi til ákvörðunar landsfundar í gær og úrsagnar minnar úr flokknum.

 

Með vinsemd og þökk fyrir samstarfið

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim