Hjörleifur Guttormsson skrifar
grein frá Buenos Aires (3. grein)

4.nóv.1998.

 

Mikil óvissa um "íslenska ákvæðið"

í Buenos Aires

 

Á öðrum degi loftslagsráðstefnunnar í Buenos Aires var á dagskrá í undirnefnd um vísinda- og tækniráðgjöf (SBSTA) tvennt sem íslensk stjórnvöld bera mjög fyrir brjósti: Annars vegar tillaga um að viðurkennd verði kolefnisbinding í gróðri og jarðvegi og hins vegar tillaga Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju í "litlum hagkerfum", þar sem keppikeflið er að slík losun verði ekki reiknuð með í skuldbindingum viðkomandi lands. Íslensk stjórnvöld hafa gefið til kynna að afgreiðsla þessara mála hér í Buenos Aires, einkum hins síðartalda, geti ráðið úrslitum um hvort eða hvenær Ísland gerist aðili að Kyótó-bókuninni. Hér verður gerð stutt grein fyrir umræðum um þetta efni á fundinum og reynt að ráða í stöðuna í ljósi þeirra.

 

Athyglisverð framlög um bindingu í gróðri

Í Kyótó reyndist skilningur fyrir að binding kolefnis með skógrækt verði reiknuð með í uppgjöri ríkja samkvæmt loftslagssamningnum. Sama máli gegnir um skógeyðingu af mannavöldum, en með öfugu formerki. Eftir er að skilgreina og ná samkomulagi um útfærslu á þessu ákvæði. Kyótó-bókunin gerir jafnframt ráð fyrir að fleiri þættir sem tengjast bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi með ræktun eða uppgræðslu komi til athugunar á vegum samningsaðila. Mér taldist svo til að þrettán ríki hafi skilað inn skýrslum er varða skógræktarþáttinn og sex um aðra þætti bindingar í gróðri og hversu með skuli fara. Ísland lagði inn skýrslur um hvorutveggja og hefur það framlag vakið athygli. Halldór Þorgeirsson sem talaði hér fyrir áliti Íslands nýtur virðingar fyrir sitt framlag, en hann sat nýlega vinnufundi sérfræðinga í Róm um þessi mál.

Enn eru skoðanir skiptar um hvort bæta eigi við nýjum þáttum eins og landgræðslu og hvernig áfram verði unnið að málinu. Fulltrúar ýmissa þróunarlanda óttast að með þessu verði opnað fyrir óæskilegar smugur í samningnum, sem iðnríkin geti fært sér í nyt. Alþjóða vísindanefndin um loftslagsbreytingar (IPCC) á að skila skýrslu um þessi mál vorið 2000 og vilja margir bíða eftir niðurstöðum hennar. Halldór benti hins vegar á að eðlilegt væri að þoka ýmsum þáttum fram jafnhliða á vegum nefndarinnar (SBSTA). Úrslit verða hins vegar ekki ljós fyrr en árið 2001 á fyrsta fundi aðila eftir gildistöku Kyótó-bókunarinnar.

 

Verður stóriðja á Íslandi undanþegin bókhaldinu?

Gríðarleg áhersla hefur verið á það lögð af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar að fá samþykkta hér í Buenos Aires allsherjar undanþágu fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá nýjum stóriðjufyrirtækjum á Íslandi með sérstakri vísun til endurnýjanlegra orkulinda. Í Kyótó fékkst viljayfirlýsing um að litið verði á aðstæður aðila "þar sem einstök verkefni mundu hafa umtalsverð hlutfallsleg áhrif á losun á skuldbindingartímabilinu…", það er á næsta áratug. Á undirbúningsfundi í Bonn síðastliðið sumar kynntu Íslendingar hugmynd að útfærslu á þessu atriði og á fundinum síðastliðinn þriðjudag lagði sendinefndin fram nokkuð breytta útgáfu, sem Halldór Þorgeirsson kynnti í vísinda- og tækninefndinni. Talsverð umræða varð um þetta "íslenska ákvæði" á fundinum og komu fram þrenns konar sjónarmið. Talsmaður Bandaríkjanna tók afar jákvætt undir tillöguna. Austurríki sem talaði fyrir Evrópusambandið svo og Kanada og Ástralíu lýstu ýmsum efasemdum en vildu skoða málið frekar með Íslandi. Á móti tillögunni töluðu fulltrúar Marshalleyja, Brasilíu, Barbados, Túvalú og Antigu-Barbúda. Síðastnefnda ríkið hefur staðfest Kyótó-bókunina og lýsti talsmaður þess, John Ash, harðri andstöðu við tillöguna. Hann er varaformaður nefndar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (Commission on sustainable development, CSD) og sagður áhrifamikill.

Formaður vísinda- og tækninefndarinnar sagðist við lok umræðunnar hafa heyrt efasemdarraddir um málið en lagði til að hann sem nefndarformaður fái sér mann til aðstoðar til að líta á tillöguna og undirbúa afgreiðslu sem allir gætu sætt sig við síðar á þinginu. Kvaddi hann til Ole Ploughmann, sem er hér í sendinefnd Dana og ráðuneytisstjóri í danska umhverfisráðuneytinu. Þótt sá sé talinn vinsamlegur í garð íslensku tillögunnar sýnist í ljósi viðbragða ýmissa ríkja á fundinum heldur ósennilegt að tillaga Íslands nái óbreytt fram að ganga á þessu þingi. Afdrif þessa óskabarns ríkisstjórnarinnar munu verða ljós fyrir lok næstu viku.

 

Hjörleifur Guttormsson.

 

 

 


Til baka | | Heim