Bréf Hjörleifs Guttormssonar í
kjölfar landsfundar
Á landsfundi Alþýðubandalagins 3.-4. júlí síðastliðinn var samþykkt að flokkurinn bjóði sameiginlega fram með Alþýðuflokki og Kvennalista í alþingiskosningunum vorið 1999. Jafnframt féllst meirihluti fundarmanna á fyrirliggjandi drög að málefnaniðurstöðu sem grunn að málefnasamningi/verkefnaskrá til fjögurra ára fyrir væntanlegt framboð.
Í fundarlok ávarpaði Hjörleifur Guttormsson alþingismaður fundinn og tilkynnti að hann myndi segja sig úr Alþýðubandalaginu. Það gerði hann degi síðar með bréfi til formanns Alþýðubandalagsins í Neskaupstað. Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður sagði sig einnig úr flokknum nokkrum dögum eftir landsfundinn. Allmargir félagar hafa síðan sagt sig úr Alþýðubandalaginu.
Í síðasta tölublaði Austurlands, 2. júlí sl., birtist grein eftir Hjörleif þar sem hann lýsti áhyggjum sínum vegna hættu á klofningi flokksins og rekur ástæður þess. Í framhaldi landsfundarins sendi Hjörleifur síðan félögum í Alþýðubandalagsfélögum á Austurlandi og fyrrverandi félögum bréf það sem hér er birt að hans ósk, en þar rekur hann helstu ástæður fyrir að hafa sagt skilið við flokkinn.
Bréf Hjörleifs, dagsett 12. júlí 1998 til félagsmanna og fyrrverandi félaga
í Alþýðubandalagsfélögum á Austurlandi, fer hér á eftir:
Góðir vinir og samherjar.
Undarfarnar vikur hafa um margt verið erfiðar og afdrifaríkar fyrir Alþýðubandalagið og sjálfan mig sem þátttakanda í stjórnmálum og starfi flokksins frá byrjun. Aðdragandi þessara átaka er vissulega orðinn langur en á aukalandsfundi flokksins fyrir viku var komið að krossgötum. Ég vil með þessu bréfi og þeim gögnum sem því fylgja gera ykkur grein fyrir helstu ástæðum þeirrar ákvörðunar minnar að segja skilið við Alþýðubandalagið sem ég hef helgað krafta mína í aldarþriðjung.
1. Aðdragandinn.
Um nokkurt árabil hefur verið rætt um svonefnd "samfylkingarmál" innan Alþýðubandalagsins með það í huga að flokkurinn eignaðist nýja bandamenn og treysti fylgi sitt. Fyrir alþingiskosningarnar 1995 komu til liðs við flokkinn allmargir fyrrum félagar úr Þjóðarflokki og hópur fólks sem ekki hafði skipað sér í stjórnmálaflokka. Voru Ögmundur Jónasson formaður BSRB og Svanhildur Kaaber meðal talsmanna þess óháða hóps í Reykjavík og Árni Steinar Jóhannsson formaður Þjóðarflokksins, búsettur á Akureyri. Í öllum kjördæmum var borinn fram G-listi Alþýðubandalagsins og óháðra til Alþingis vorið 1995 og níu manna þingflokkur fékk nafn til samræmis við það. Samstarfið við hina "óháðu" hefur verið ágætt og hefur Ögmundur Jónasson gert góða grein fyrir reynslu þeirra af samstarfinu og viðhorfum til Alþýðubandalagsins nýlega.
Eftir að slitnaði upp úr samstarfi Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins í kjölfar kosninganna 1995 hefur aukist umræða um samstarf "stjórnarandstöðuflokkanna". Alþýðuflokkurinn hefur tekið undir þetta en gert að skilyrði að um verði að ræða sameiginlegt framboð flokkanna í næstu alþingiskosningum. Þessu hefur tengst staða Þjóðvaka, en þinglið hans hefur verið í upplausn og síðastliðinn vetur gengu þrír af fjórum þingmönnum Þjóðvaka í Alþýðuflokkinn. Kvennalistinn klofnaði eftir landsfund í nóvember 1997 vegna afstöðu til "samfylkingarmála" og aðeins einn þingmaður listans af áður þremur, Guðný Guðbjörnsdóttir, hefur síðan átt hlut að viðræðum flokkanna.
Á landsfundi Alþýðubandalagsins í nóvember 1997 var samþykkt að kanna grundvöll til frekara samstarfs félagshyggjuflokka og boða til aukalandsfundar Alþýðubandalagsins er niðurstaða lægi fyrir. Svonefndir málefnahópar fimm talsins voru ekki settir á laggir fyrr en í mars 1998 og ætlaður naumur tími til starfa. Undirritaður tók sæti í hópi sem fjallaði um umhverfismál, efnahags- og atvinnumál o.fl. og tók fullan þátt í starfi hópsins. Í ljós kom í hópvinnunni verulegur ágreiningur um mörg mikilsverð mál, þar á meðal grundvallarmálefni, og leiddi það til þess að ég skilaði séráliti. Svipuð niðurstaða varð í málefnahópi um utanríkismál, þar sem Steingrímur J. Sigfússon gerði grein fyrir sinni afstöðu í greinargerð. Auðvitað reyndist samstaða milli fulltrúa flokkanna um ýmis efni. Á heildina litið leiddi málefnavinnan í ljós svipaðan ágreining milli flokkanna og birst hefur í sameiginlegri stjórnarandstöðu á Alþingi á kjörtímabilinu, að ekki sé talað um þann mikla ágreining sem var við Alþýðuflokkinn á meðan hann starfaði með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn á árunum 1991-95.
Ég sendi álit mitt og álit meirihluta starfshópsins um 10. júní sl. til stjórna Alþýðubandalagsfélaga á Austurlandi og gerði jafnframt grein fyrir honum og hættunni á klofningi flokksins í blöðum [Morgunblaðið 21. júní, Dagur 23. júní, Vikublaðið Austurland 2. júlí] væri ógætilega unnið í framhaldinu. Þá sat ég fund framkvæmdanefndar kjördæmisráðs Alþýðubandalagsins á Fáskrúðsfirði 6. júní og fund stjórnar kjördæmisráðs 28. júní á Egilsstöðum þar sem staðan í aðdraganda aukalandsfundar Alþýðubandalagsins var aðalumræðuefnið. Báru menn sig þar saman um stöðuna og ég gerði grein fyrir því mati mínu að sameiginlegt framboð flokkanna væri óaðgengilegt í ljósi fyrirliggjandi málefnastöðu og muni það fyrr en síðar leiða til þess að Alþýðubandalagið hverfi af sjónarsviðinu sem þjóðmálaafl.
2. Landsfundurinn 3.-4. júlí 1998.
Niðurstöður málefnahópa flokkanna lágu fyrir aukalandsfundinum á Hótel Sögu 3.-4. júlí en til fundarins var boðað til þess eins að taka afstöðu til þess afraksturs og hugsanlega aukins samstarfs við aðra flokka. Það var fyrst í setningaræðu á fundinum að formaður flokksins kynnti tillögu sína og varaformanns þess efnis að af hálfu Alþýðubandalagsins skuli stefnt að sameiginlegu framboði flokkanna í komandi alþingiskosningum. Á fjórða tug landsfundarfulltrúa undir forystu Steingríms J. Sigfússonar lögðu hins vegar til að hægar yrði farið í sakirnar, flokkarnir stilltu saman strengi sína málefnalega eftir föngum og yrðu samferða í afstöðu til ríkisstjórnarmyndunar að kosningum loknum. Hinsvegar byðu þeir fram hver í sínu lagi og öfluðu fylgis á sínum forsendum.
Engar marktækar tilraunir til málamiðlunar milli þessara sjónarmiða voru gerðar af hálfu flokksforystunnar fyrir landsfundinn eða á fundinum sjálfum og gengu tillögurnar því til atkvæða. Hlaut tillaga formanns og varaformanns rösklega 70% atkvæða viðstaddra fulltrúa en tillaga Steingríms tæp 30%. Ég flutti ræðu í almennum umræðum á fundinum og gerði þar grein fyrir mínum viðhorfum. Fylgir ræða mín hjálagt og skýrir hún afstöðu mína í aðalatriðum. Þegar niðurstaða atkvæðagreiðslu lá fyrir ávarpaði ég fundinn og gerði grein fyrir því að ég ætti samvisku minnar vegna ekki lengur samleið með Alþýðubandalaginu. Kveðjuávarp mitt fylgir einnig með þessu bréfi. Daginn eftir tilkynnti ég formanni Alþýðubandalagsins í Neskaupstað um úrsögn mína úr félaginu og þar með úr flokknum.
Eins og sjá má af ofansögðu og flest ykkar vitið var þetta erfiða skref ekki tekið í neinu fljótræði eða í "hita leiksins" eins og stundum vill verða heldur að yfirlögðu ráði. Ég treysti mér einfaldlega ekki samvisku minnar vegna og þeirra málefna og hugjóna sem ég hef barist fyrir og hef enn að leiðarljósi í stjórnmálum að fella merkið og gerast þátttakandi í ferð sem liggur í allt aðra átt. Samþykkt landsfundarins var engin hefðbundin ákvörðun stjórnmálaflokks, þar sem spurning er um meirihluta og minnihluta, heldur um sjálfan grundvöll og tilvist flokksins. Engin meirihlutasamþykkt um slík undirstöðumál getur bundið félaga í flokki sem er að hverfa af sjónarsviðinu, heldur er hver og einn frjáls að því að gera það upp við sig hvort hann eða hún vill láta flytja sig í allt annað pólitískt samhengi.
3. Framtíðin.
Ég sé vissulega eftir því Alþýðubandalagi sem við höfum átt sem vettvang saman og unnið hefur mörg þrekvirki í þrjátíu ára sögu sinni. En úr því sem komið er þýðir ekki að sýta það heldur að vinna úr stöðunni eftir bestu getu hver á sínum forsendum. Verkefnin eru síst minni en áður til að berjast fyrir í stjórnmálum og ég mun leggja málum lið framvegis sem hingað til, þótt í nýju samhengi verði.
Þau stóru álitamál sem réðu afstöðu minni um næstliðna helgi snerta á engan hátt samskipti mín við ykkur viðtakendur þessa bréfs. Undan samskiptum við félaga í Alþýðubandalaginu á Austurlandi þarf ég í engu að kvarta, heldur hef ríka þörf fyrir að þakka þau og þann trúnað sem mér hefur verið sýndur. Ég er áfram þingmaður ykkar og kjördæmisins og kveð ykkur sem slíkur.
Ykkar einlægur
Hjörleifur Guttormsson
|