|
Hjörleifur Guttormsson skrifar
frá Buenos Aires (4.grein)
5. nóvember 1998
Gróðurhúsaloft á markaðstorgið
Þegar gengið var frá texta Kyótó-bókunarinnar við loftslagssamninginn var margt skilið eftir til úrvinnslu og síðari ákvörðunar. Þetta á ekki síst við um ákvæði sem gera ráð fyrir viðskiptum með gróðurhúsaloft eða svonefndar losunareiningar og losunarréttindi. Umræða um útfærslu þessara viðskipta er rétt að byrja milli samningsaðila hér í Buenos Aires, en samt er rætt um þau af ýmsum eins og væru þau staðreynd og jafnvel er farið að áætla markaðsvirði "heildarútstreymis". Við þetta er það að athuga að staðfestingarferli vegna bókunarinnar er á byrjunarstigi og afar mikil og flókin vinna framundan áður en viðskipti gætu hafist.
Ísland í hópi með markaðshaukunum
Í aðdraganda Kyótó-ráðstefnunnar og í samningaviðræðum þar átti sér stað mikil togstreita um hugmyndirnar um viðskipti með gróðurhúsaloft. Krafan um slíkt var borin uppi af hluta iðnríkjanna, svonefndum JUSSCANNZ-hópi, sem Ísland á aðild að. Í honum eru flest OECD-ríki fyrir utan Evrópusambandið, og vega þar þyngst Bandaríkin, Japan, Kanada og Ástralía. Á móti þessari kröfu stóðu Evrópusambandsríkin lengi vel, studd af þróunarríkjum, sem óttuðust að Bandaríkin og fleiri ríki hygðust geta keypt sig frá skuldbindingum, ekki síst út á afgang losunarheimilda frá Rússlandi og fleiri fyrrum Sovétríkjum. Þróunarríki með Indland í fararbroddi lögðu í Kyótó áherslu á jafnræði í aðgangi að lofthjúpi jarðar miðað við höfðatölu, en segja má að grundvöllur samkomulagsins, sem byggir á "áunnum réttindum", gangi þvert á það sjónarmið. Leiðrétting á þessum valta grunni bíður seinni tíma.
Deilur og túlkunarstríð rétt að byrja
Texti Kyótó-bókunarinnar um losunarviðskipti er fremur knappur og óljós, enda voru ákvæðin um þau bitbein þar fram á síðustu stund. Það er því ekki að undra að deilur vakni á ný milli aðila hér á ársþinginu í Buenos Aires og túlkunarstríð sé háð, ekki síst í bakherbergjum milli Evrópusambandsins og JUSSCANNZ-ríkjahópsins. Ákvæðin um viðskipti er aðallega að finna í 17. grein Kyótó-bókunarinnar og í greinum 3.10 og 3.11. Aðeins ríki sem taka á sig lagalegar kvaðir um losun (Annes B-ríki) geta orðið beinir þátttakendur í viðskiptum með losunarréttindi, en þróunarríki og ríki sem ekki staðfesta bókunina standa utan þeirra. Þetta ætti því að öðru jöfnu að hvetja ríki til að staðfesta bókunina. Með þessu ætti einnig að vera tryggt að heildarmagn losunareininga innan kerfisins sé stöðugt en aðferðin leiði ekki til aukningar. Þetta tekur til almennra kvótaviðskipta milli ríkja (emissions trading) og eininga sem skapast við sameiginlega framkvæmd (joint implementation) verkefna er leiða til samdráttar í losun. Óljóst er hins vegar hvað verði um losunareiningar sem kæmu til vegna "hreina þróunarferilsins" (Clean Development Mechamism -CDM), sem mikinn þátt átti í að sætta þróunarríki við niðurstöðuna í Kyótó.
Ótal óvissuatriði
Þótt vissir þættir um viðskipti með gróðurhúsaloft liggi sæmilega skýrt fyrir, eru óvissuatriðin langtum fleiri og mörg þeirra erfið viðfangs. Þau varða meðal annars hvenær hefja megi slík viðskipti, hverjir eigi aðild að "markaðnum" og hvaða lofttegundir verði þar til sölu. Þá þarf að setja reglur um fyrirkomulag viðskipta, stofnanir sem sjái um þau, eftirlitsþætti og sönnunarbyrði. Hvað sem slíkri útfærslu líður er ljóst að það eru aðildarríkin að loftslagssamningnum sem bera ábyrgð á skuldbindingum samkvæmt honum og að hugsanleg viðskipti milli aðila fari að settum reglum og gangi ekki gegn markmiðum samningsins. Óhætt er að fullyrða að allmörg ársþing samningsaðila þurfi til, áður en markaður með gróðurhúsaloft taki til starfa.
Hjörleifur Guttormsson.
|