Hjörleifur Guttormsson:

 

Hálendisumræða í grýttu landslagi

 

Opið bréf til Stefáns Jóns Hafstein - í fullri vinsemd

 

Kæri ritstjóri.

Á hátíðisdegi verkalýðsins skrifar þú pistil í Dag undir fyrirsögninni "Land í þjóðareign" og reiðir hátt til höggs. Með þessum skrifum ert þú kominn í félagsskap með fólki, sem þessa dagana á hlut að afar ómálefnalegri umræðu um "hálendið". Þú segir að verið sé að taka það frá þjóðinni og skipta upp í smáræmur sem setja eigi undir ofurvald örfárra manna. Ég veit um áhuga þinn á umhverfismálum og met hann mikils. Ég trúi því ekki að skrif þín séu af annarlegum hvötum, vil ætla að þú eins og margir aðrir hafir ekki sett þig inn í stöðu mála. Eitt er ljóst, umræðan sem farið hefur fram á Alþingi að undanförnu "um málefni hálendisins" af tilefni frumvarps til sveitarstjórnarlaga og fréttaflutningur úr þinginu hafa ekki verið til þess fallin að auðvelda fólki að greina kjarnann frá hisminu.

 

Kratar settu hálendismálin í núverandi farveg

Með þessu bréfi vil ég reyna að skýra fyrir þér, hvers vegna mál eru í þeirri stöðu sem raun ber vitni. Í því samhengi verður ekki hjá því komist að víkja að því fólki sem þú í pistli þínum telur leiðarstjörnur. Alþýðuflokksmenn hafa öðrum fremur sett hálendismálin, bæði skipulag og stjórnsýslu, í þann farveg sem þau nú eru í og þingheimur hefur á síðustu fimm árum fest þá stefnu í sessi. Umhverfisráðherrar Alþýðuflokksins í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 1991-95 komu af stað skipulagsvinnu á vegum "aðliggjandi sveitarfélaga" og gerðu ráð fyrir að mörk sveitarfélaga yrðu framlengd inn á "ósnortin víðerni" hálendsins allt að vatnaskilum.

Framsóknarþingmaðurinn Ólafur Haraldsson ber síðan sem formaður umhverfisnefndar á því ábyrgð öðrum fremur að Alþingi afgreiddi skipulags- og byggingalög með þeim hætti sem lesa má um í lögum nr. 73/1997. Þar er ekkert hálendissvæði undanskilið skipulagsvaldi sveitarfélaga, en staðfesting ráðherra þarf að koma til.

Í umræðum á þingi um sveitarstjórnarfrumvarpið hef ég leyft mér að stikla á forsögu þessa máls, en enginn fjölmiðill hefur hingað til haft fyrir því mér vitanlega að setja þessa umræðu í það samhengi sem henni ber. Ég leyfi mér því, ritstjóri góður, að draga hér fram nokkur atriði sem máli skipta.

 

Tilraun 1990-92 um sérstakt skipulagssvæði

Stuttu eftir að umhverfisráðuneytið var stofnað 1990 setti Júlíus Sólnes á fót 12-manna nefnd "til að undirbúa frumvarp til laga um tilhögun stjórnsýslu á hálendi Íslands og verndun þess." Undirritaður sat í nefndinni og átti hlut að þeirri niðurstöðu sem varð af starfi hennar og birtist í skýrslu undir heitinu: "um undirbúning að löggjöf um stjórnsýslu á miðhálendi Íslands að því er tekur til skipulags- og byggingarmála." Segir þar m.a.: "Í þessari tillögu er miðað við að það umdæmi, sem ákveðið verði sem stjórnsýslusvæði, nefnist miðhálendi og verði á þessu stigi afmarkað eins og sýnt er á smækkuðum uppdrætti Landmælinga Íslands, fskj.II" Skömmu síðar bar að alþingiskosningar og reyndi ekki meira á nefnd þessa, enda urðu stjórnarskipti.

Í málefnasáttmála ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og Jóns Hannibalssonar sem við tók vorið 1991 mátti lesa: "Hálendið verði afmarkað og settar reglur um skipulags- og byggingarmál þar." Nýr umhverfisráðherra, Eiður Guðnason, lét undirbúa lagafrumvarp "um stjórn skipulags- og byggingarmála á Miðhálendi Íslands" og tók í því mið af hugmyndum "hálendisnefndar" forvera síns. Fyrsta umræða hófst um málið en varð ekki lokið þannig að frumvarpið komst ekki einu sinni til nefndar. Þótt hér væri á ferðinni stjórnarfrumvarp kom strax fram mikil andstaða við það frá nokkrum þingmönnum úr Sjálfstæðisflokki, auk þingmanna Framsóknarflokks, en Alþýðubandalagið lýsti yfir stuðningi við málið.

 

Eiður Guðnason snýr við blaðinu

Í nóvember 1992 kallaði Eiður Guðnason umhverfisráðherra saman sérstaka ráðstefnu "með fulltrúum þeirra sveitarfélaga, sem lögsögu eiga að miðhálendi landsins, til að ræða hvernig koma megi á samræmdri stjórn skipulags- og byggingarmála á svæðinu. Fram kom á fundinum að sveitarstjórnirnar teldu sig færar um að annast skipulags- og byggingarmál á hálendinu á sama hátt og þær önnuðust þennan málaflokk í byggð. Lögðu sveitarstjórnarmenn á það ríka áherslu að frumvarpið yrði ekki lagt fram að nýju á Alþingi, en í þess stað yrði skoðaður sá möguleiki að gera heildstæða skipulagsáætlun fyrir miðhálendið á grundvelli gildandi skipulagslaga."(greinargerð með frumvarpi ráðherra). Eiður gerði þessar hugmyndir að sínum og lagði fram frumvarp um breytingu á skipulagslögum þar sem heimilað yrði að skipa samvinnunefnd til að gera tillögu að svæðisskipulagi fyrir miðhálendið með fulltrúum frá tilgreindum tólf héraðsnefndum sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu. Þetta var samþykkt af Alþingi samhljóða 5. maí 1993. Afgreiðsla þingsins í formi bráðabirgðaákvæðis við gildandi skipulagslög gerði jafnframt ráð fyrir að framhald skipulagsmála miðhálendisins réðist af afgreiðslu nýrra skipulags- og byggingarlaga. Sá lagabálkur hlaut afgreiðslu vorið 1997 með samhljóða samþykki þingsins. Ábyrgðarmaður stjórnarliðsins við þá afgreiðslu var enginn annar en Ólafur Haraldsson sem nú berst um hvað fastast til að ómerkja sitt eigið afkvæmi! Ég hafði fyrirvara við afgreiðslu málsins, meðal annars að því er varðaði ákvæði er tengdust svæðisskipulagi miðhálendisins.

 

Málafylgja Eiðs og Össurar 1993-95

Hvað sögðu kratar um stjórnsýslu á miðhálendinu 1993? Umhverfisráðherra Alþýðuflokksins, Eiður Guðnason, sagði í greinargerð með frumvarpi sínu um samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins:

"Enn fremur kæmi vel til greina að nefndin gerði tillögur um mörk sveitarfélaga á miðhálendinu í þeim tilvikum þar sem mörk eru á einhvern hátt óljós. Þannig yrði lagður grunnur að framkvæmd og eftirliti sveitarstjórna með skipulags- og byggingarmálum á miðhálendi Íslands.- Í febrúar 1990 voru prentuð sem handrit drög Landmælinga Íslands og embættis skipulagsstjóra ríkisins að skiptingu alls landsins í sveitarfélög. Áður hafði ekki verið gerð tilraun til að skipta öllu miðhálendinu milli sveitarfélaga. Verkefni samvinnunefndarinnar verður m.a. að yfirfara þessi drög með tilliti til miðhálendisins með það að markmiði að niðurstaða fáist sem hægt verði að staðfesta á tilskilinn hátt að fenginni umsögn þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli."

Um byggingaeftirlit var ekki síður skýrt talað í greinargerð og framsögu Eiðs Guðnasonar fyrir frumvarpinu:

"Til þess að styrkja byggingareftirlit á hálendinu kemur mjög til greina að sveitarfélög myndi svæðisbyggingarnefndir á þessu landsvæði."

Sem umhverfisráðherra fylgdi Össur Skarphéðinsson stefnu forvera síns fast eftir. Síðla árs 1993 setti hann af stað vinnu samvinnunefndar um skipulag miðhálendisins með pomp og pragt og gaf út vinnureglur sem skjalfestar eru í Stjórnartíðindum (nr. 565/1994). Þannig mótuðu tveir umhverfisráðherrar Alþýðuflokksins þá stefnu sem þingflokkur jafnaðarmanna nú beitir sér fastast gegn ásamt Ólafi Haraldssyni.

 

Fyrsta svæðisskipulag miðhálendis á lokastigi

Samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins skilaði fyrir ári tillögum til ársins 2015. Tillögurnar lágu frammi til umsagnar í 5 mánuði á síðasta ári og höfðu allir landsmenn rétt til að gera athugasemdir. Jafnframt skilaði starfshópur þriggja ráðuneyta af sér tillögum um markalínur milli sveitarfélaga inn til landsins og leysti úr flestum ágreiningsefnum þar að lútandi. Nú vinnur nefndin í umboði ráðherra úr athugasemdum sem bárust um tillögur hennar og á hún að skila niðurstöðu til ráðuneytis fyrir 1. desember 1998.

Á heildina litið tel ég að samvinnunefndin hafi skilað allgóðu verki, þótt lengi megi um bæta. Hér er að mótast fyrsta svæðisskipulag fyrir miðhálendið sem mynda á forsögn fyrir frekari skipulagsvinnu. Skipulagstillagan tekur meira tillit til umhverfissjónarmiða en ég hefði þorað að vona fyrirfram. Þennan grunn þarf að styrkja með því að treysta skipulagslöggjöfina og kveða skýrt á um heildstætt svæðisskipulag á miðhálendinu. Jafnframt er eðlilegt að gefa fulltrúum víðar að, m.a. frá höfuðborgarsvæðinu, kost á að hafa áhrif á slíka skipulagsvinnu framvegis.

 

Öngþveiti nú þjónar ekki umhverfishagsmunum

Af því sem hér hefur verið sagt ætti að vera ljóst hversu langsótt það er af Alþýðuflokknum og þingmönnum jafnaðarmanna að leggja nú til að snúið sé við blaðinu. Fyrir utan forsögu málsins sem hér hefur verið rakin er afmörkun hins hugsaða miðhálendis og þar með tengslin við aðliggjandi sveitarfélög stærsti veikleikinn í tillögum þeirra. Sú lína sem miðað hefur verið við í vinnu við svæðisskipulag frá 1994 byggðist á samkomulagi viðkomandi héraðsnefnda en var hvorki rædd eða samþykkt sem varanleg afmörkun eða stjórnsýslumörk. Ljóst er að sú skipulagsvinna sem farið hefur fram síðan 1994 yrði sett í uppnám ef Alþingi ætlaði nú að snúa við blaðinu og við tæki ófriðarástand og stjórnleysi sem enginn sér fyrir endann á. Þeir sem fagna myndu slíku ástandi væru ekki síst aðilar sem áhuga hafa á miklum umsvifum á miðhálendinu, meðal annars virkjunarframkvæmdum og vegalagningu.

Kyndum ekki elda að ástæðulausu

Kæri Stefán. Það er eðlilegt að almenningur eigi erfitt með að fóta sig í umræðunni um hálendismálin þegar ýmsir þeir sem ræða um þau á Alþingi snúast eins og skopparakringlur og fjölmiðlar margir hverjir verða til að rugla menn enn frekar í ríminu. Sveitarstjórnarfrumvarpið snýst ekki um eignarráð yfir landi og þaðan af síður um rétt almennings til umferðar. Um þau mál er fjallað í annarri löggjöf, ekki síst náttúruverndarlögum. Sem stjórnsýsluaðilar geta sveitarfélög ekki lokað landi, hvorki fyrir „verkalýð" eða ferðamönnum, nema þau styðjist við almenn lagafyrirmæli, sem ekki er að finna í frumvarpi að sveitarstjórnarlögum. Afar mikilvægt er að sem best sátt takist um meginlínur í löggjöf um stjórnsýslu og skipulag og þar eiga umhverfisvernd og útivistarsjónarmið að vera í hávegum höfð. Hlúa ber að sátt og samvinnu milli íbúa dreifbýlis og þéttbýlis og varast að kynda elda að ástæðulausu.

Umhverfisvernd er okkur báðum eflaust ofarlega í huga þegar hálendið er annars vegar. Auk skipulagslaga er það náttúruverndarlöggjöfin, sem á að tryggja almannarétt og verndun lands. Þá löggjöf þarf vissulega að styrkja en þó má nýta hana nú þegar til góðra verka, meðal annars til stofnunar víðlendra þjóðgarða á miðhálendinu. Eigum við ekki að leggjast saman á þá sveif?

 

 

Með bestu kveðjum.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim