Uppskera formanna í gúrkutíð Helgarpósturinn örlagavaldur
Um hásumar er sjaldan að vænta mikilla tíðinda á vettvangi stjórnmálanna. Undanfarnar vikur hafa staðfest það í ríkari mæli en oftast áður. Ef ekki hefði komið til dynur frá þyrlusveitum Friðarsamstarfs NATÓ sem utanríkisráðherra beindi hingað og hnyppingar í kjölfar óopinberrar heimsóknar forseta Íslands til Vesturheims er alls óvíst að unnt hefði verið að fylla síður þeirra fjölmiðla sem heyja hér harða samkeppni um nánast ekki neitt samkvæmt lögmálum markaðarins. Eðlilega tóku fréttamenn því fegins hendi þegar upphófust miklar stimpingar á heimavelli sjálfra fjölmiðlanna. Byrjuðu þær með því að forysta Alþýðubandalagsins uppgötvaði að þær milljónir sem ráðstafað hafði verið úr digrum flokkssjóðum í útgáfu Helgarpóstsins í vetur leið, væru kannski ekki eins gulltryggðar og vænst hafði verið. Blasti við að nokkrir flokksmenn sem gerst höfðu ábekingar lentu ómaklega undir yfirvofandi gjaldþrotaskriðu þessa menningarblaðs, fyrstir af öllum stjórnarmenn í útgáfufélaginu Tilsjá sem gaf út hið eiginlega flokksmálgagn Vikublaðið.
Flokksmálgögn stórvarasöm Samhliða þessum björgunaraðgerðum vegna happdrættis Helgarpóstsins komust oddvitar Alþýðubandalagsins og Tilsjár að því að engan veginn væri nóg að gert að stöðva glæfralega útgáfu Helgarpóstsins undir ritstjórn fyrrverandi ritstjóra Vikublaðsins, heldur væri vissara að hafa vaðið fyrir neðan sig og loka sjálfu Vikublaðinu. Ómögulegt væri að segja hvað af frekari útgáfu þess gæti sprottið, fyrst stjórn Tilsjár hafði fallið í þá freistni að færa út kvíarnar yfir á akur einkaframtaksins síðastliðinn vetur. Málgagnið var stofnað fyrir nokkrum árum til að halda uppi merki Alþýðubandalagsins, þó lengst meira af vilja en mætti. Þá var litið svo á að Alþýðubandalagið ætti að vera sjálfbær flokkur og forsenda þess væri meðal annars að geta látið rödd sína heyrast án þess að eiga allt undir kapítalistum á borð við Árvakur og Jón Ólafsson. Flokksmenn voru hvattir lögeggjan að styðja þessa sjálfsbjargarviðleitni og margir hlýddu kalli þótt ekki væru þeir alltaf ánægðir með boðskap blaðsins. Fleiri voru þó þeir sem keyptu blaðið án þess að eiga flokksskírteini, nema kannski í fáeina daga þegar á reyndi í formannskjöri. Þegar síðast fréttist af fjárhag Vikublaðsins var það rekið vel yfir núlli, enda hafði blaðið á að skipa "frábæru starfsliði" svo notuð séu orð formannsins.
Loksins nútímaleg jafnaðarstefna Af ástæðum sem enn hafa ekki verið kunngjörðar rann það upp fyrir forsjármönnum Vikublaðsins í miðjum Helgarpóstsslagnum, að hér hefði Alþýðubandalagið verið á alrangri braut. Tími flokksmálgagna væri löngu liðinn og slík blöð, dagblöð jafnt sem vikublöð, séu stórvarasöm og gjörsamlega úr takt við tímann. Ekki reyndist ráðrúm að leita álits kaupenda Vikublaðsins á þessari síðbornu niðurstöðu, enda margir í sumarleyfi. Sinnaskiptin hjá forystu Alþýðubandalagsins þóttu tíðindum sæta hjá krötum, sem hingað til hafa einir talið sig prókúruhafa nútímalegrar jafnaðarstefnu á Íslandi. Erfitt er að halda slíku til streitu með áttrætt flokksmálgagn á herðunum. Þetta bévítans Alþýðublað hefur þráfaldlega neitað að deyja drottni sínum og var um skeið orðið eitt læsilegasta blað landsins og það án vítamíns frá markaðsöflunum. Nú er hins vegar nútíminn genginn í garð og aldamót skammt undan. Þeir sem ætla á annað borð með inn í 21. öldina geta ekki verið þekktir fyrir blaðaútgáfu undir flokksmerkjum, hvað þá ef hún er studd af áttræðum hugsjónum.
Sameiningin mikla færist nær Formenn A-flokkanna sem boðuðu stórtíðindi í samstarfi flokka sinna síðastliðið haust og jafnvel samruna, voru orðnir dálítið útideyfulegir, en eygðu nú möguleika á að standa við stóru orðin svo um munaði. Glætan í sameiningarmyrkrinu reyndist vera ástríða nútímalegra blaðaútgefenda á borð við feðgana í Frjálsri fjölmiðlun að ávaxta sitt pund. Þessir hugsjónamenn höfðu hirt flokksmálgagnið Tímann upp af götu sinni og gefið það út um skeið undir nafninu Dagur-Tíminn. Helst til fáir höfðu orðið til að kaupa þetta tvíhöfða fyrrverandi Framsóknarmálgagn og því er nú þörf á að bæta ímyndina. Leiðir þeirra feðga og Tilsjár Alþýðubandalagsins höfðu legið saman yfir moldum Helgarpóstsins og þeir fyrrnefndu aðeins lyft pilsfaldinum. Þarna var fundið skjól fyrir tvo formenn á útigangi í leit að nútímalegu málgagni með hjartað vinstra megin við miðju. Í sjónmáli er því stórfelldur árangur í sameiningarferli flokkanna, eftir að þeim hefur báðum tekist að leggja niður púkó og löngu úrelta flokkssnepla sem haldið hefur verið að mönnum af misskilningi og í meiningarlausu bríaríi. Á haustdögum eigum við víst í vændum öflugt málgagn samvinnu- og jafnaðarmanna á vegum Frjálsrar fjölmiðlunar hf. og engu þarf til að kosta nema hvetja vonsvikna áskrifendur Vikublaðsins og Alþýðublaðsins að gerast áskrifendur hjá Frjálsri fjölmiðlun, kannski undir nýju nafni. Með þessu er okkur sagt að stigið sé mikilvægt skref í þeirri viðleitni að leggja niður löngu afdankaða stjórnmálaflokka sem hvor um sig hafa reynt að halda uppi stefnu, jafnvel í trássi við tíðarandann og lögmál markaðarins. Helgarpósturinn ætlar að verða sá hvati sem til þurfti að koma Sameiningunni miklu á skrið.
Hjörleifur Guttormsson
|